03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

164. mál, skipun barnakennara

Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Það virðist svo sem brtt. hæstv. kennslumálaráðh. hafi gert menn mildari í garð þessa máls. Og þar sem ég tel þær ekki til verulegra skemmda á málinu, þá er ekki ástæða til að fjölyrða um málið.

En ég vil geta þess í sambandi við ummæli hv. 5. þm. Reykv., þar sem hann sagði, að það væri ekki sanngjarnt að gera þá kröfu til þeirra, sem kenna smábörnum, að þeir hafi kennaraskólapróf, að ég vil mótmæla þeim ummælum. Það er sanngjarnt að gera þá kröfu til þeirra, sem kenna börnum, að þeir hafi sérstaklega til þess lært. En hinsvegar er það ekki fráleitt, að það megi veita undanþágu, ef eindregin meðmæli skólastjóra og skólanefndar fræðsluhéraðsins eru fyrir hendi.

Hv. 5. þm. Reykv. minntist á Landakotsskólann. Ég sé enga ástæðu til þess, að erlendir kaþólskir menn kenni okkar börnum. Ég tel rétt, að íslenzkir kennarar hafi það starf með höndum. Það hefir sýnt sig, að síðan sá skóli fór að nokkru leyti að hvíla á herðum íslenzkra kennara, að þar hefir orðið mikil breyt. til batnaðar. Ég skal viðurkenna, að börnin, sem koma úr þeim skóla, eru uppalin í góðum siðum. (PHalld: Er það ekki stórt atriði?). Jú, ég tel það meginatriði og standa samhliða fræðslunni. En ég sé ekki, að það þurfi að falla skuggi á hina uppeldislegu hæfileika kennarans, þó hann sé jafnframt duglegur fræðari.

Að því er gildistöku l. snertir, þá er ég andvígur brtt. hæstv. ráðh. En ég mun ekki beita mér gegn henni í þeirri von, að hæstv. ráðh. rjúki nú ekki til og skipi fjölda af kennurum, sem nú eru settir. Ég vona, að hann geri það hóflega, ekki sízt með tilliti til þess, ef veruleg breyt. verður á skipulagi kennslumálanna. Ég sé ekki ástæðu til þess, að þeir, sem ekki vilja leggja á sig það erfiði að ganga í skóla til þess að fá réttindi, fái sömu réttindi og þeir, sem lagt hafa á sig meira eða minna nám til þess að öðlast þessi sömu réttindi. — Ég vil svo að lokum endurtaka það, sem ég hefi sagt áður, að það er ekki útilokað, að það finnist einstaka maður, sem ekki hefir próf, en sem dugar þó eins vel og þeir lélegustu, sem hafa kennaraskólapróf.