14.12.1935
Efri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

164. mál, skipun barnakennara

Þorsteinn Briem:

Ég vildi í þessu sambandi skjóta fram lítilli aths. og beina máli mínu til hæstv. kennslumálaráðh. (HG) í framhaldi af því, sem hv. 5. landsk. sagði um þetta fólk, sem að undanförnu hefir haft smábarnakennslu með höndum, en hlutur þess er skertur, ef því verður ekki leyft að halda þeirri starfsemi áfram. En ég vil skjóta þeirri spurningu til hæstv. kennslumálaráðh., hvort hann vilji ekki taka það til athugunar, hvort ekki sé mögulegt að því er þetta fólk snertir að hafa fyrirkomulagið í þá átt, sem það var haft í sambandi við úrskurð kennslumálaráðh. í tíð fyrrv. stjórnar, þar sem um var að ræða kennslu nokkuð hliðstæða þessu. En þá var þeim, sem misstu rétt sinn, gefinn kostur á að vera einn vetur í kennaraskólanum og taka þar próf., svo að þeir öðluðust réttindi til þess að kenna. Ég vil nú beina þeirri spurningu til hæstv. kennslumálaráðh., hvort ekki sé hægt að láta þetta fólk, sem hefir haft smábarnakennslu með höndum, taka þátt í námskeiði að því er snertir smábarnakennslu. En á sviði smábarnakennslunnar hefir orðið mest breyt. frá því, sem áður var að því er snertir kennsluaðferð. Ég hygg því, að með þessu mætti vinna það tvennt í einu, að auka kunnáttuna og að bæta úr þeim órétti, sem fólki því, sem hefir haft það fyrir atvinnu að kenna smábörnum, er gerður með þessu frv.