14.12.1935
Efri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (2379)

164. mál, skipun barnakennara

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég skal að sjálfsögðu taka til athugunar þessi tilmæli hv. 10. landsk. Að sjálfsögðu þarf að rannsaka áður, til hve margra kennara þetta muni ná. Ég hefi látið athuga, hversu margir kennarar, sem ekki hafa kennarapróf, en eru með réttindum frá því fyrir 1919, séu nú í kennarastöðum, og hefir komið í ljós, að þeir munu vera 12. Og af þeim er helmingurinn eldri menn, sem bráðlega munu falla undir lögin um hámarksaldur embættismanna, og því komnir að því að fara úr stöðum sínum. Hversu margir kennarar með réttindum frá því fyrir 1919 hafa á hendi smábarnakennslu, veit ég ekki um eins og nú standa sakir, en ég hygg, að þeir séu ekki margir. Annars fæ ég ekki séð, að enda þótt námskeið yrði sett fyrir þá, sem smábarnakennslu stunda og ekki hafa réttindi eftir l. frá 1919, að það út af fyrir sig geti veitt þeim réttindi. Réttindin er ekki hægt að veita þeim nema með sérstökum lögum. Hinsvegar er alveg sjálfsagt að athuga, hve margir, sem við smábarnakennslu fást með réttindum frá því fyrir 1919, misstu réttindi, ef frv. þetta verður að lögum.