14.12.1935
Neðri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

81. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Sigurður Einarsson):

Af þessum breyt. á háskólal. eru aðeins tvær, sem nokkru skipta. Önnur er sú, sem stjórn háskólans hefir farið fram á, að námstími háskólans verði færður til samræmis við námstíma menntaskólanna, þannig að skólaárið byrji 15. sept. og endi að sama skapi fyrr. Þykir háskólaráði þetta hentug breyt., sökum atvinnu stúdentanna og af öðrum ástæðum. Hin aðalbreyt., sem frv. gerir ráð fyrir, er í því fólgin, að nokkuð verði breytt reglunum um starfstímabil rektorsins. Hefir hann hingað til verið kosinn til eins árs í senn, en háskólaráð leggur talsverða áherzlu á, að þessu verði þannig breytt, að hann verði framvegis kosinn til þriggja ára í einu. N. lítur svo á að rétt sé að taka þessar óskir til greina.

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, og liggur hann í því, að í einum kafla frv. er gert ráð fyrir að við embættispróf skuli a. m. k. annar prófdómendanna vera utanháskólamaður.

Tveir okkar í menntmn. lítum svo á, að undanfarin ár hafi próf. í skólum verið óþarflega kostnaðarsöm og að nokkuð mætti draga úr þeim kostnaði án þess þó að öryggi prófanna minnkaði nokkuð við það, með því að fela kennurunum sjálfum, meira en nú er gert, að annast prófin og dæma um þau, og höfum við lagt til breyt. í þessu skyni við aðra skóla. Mér og þeim, sem skrifaði undir nál. með fyrirvara, fannst það skjóta skökku við að mæla með háskólalagafrv. alveg athugasemdalaust, vegna þessarar afstöðu okkar. En þar sem nú er svo skammt eftir af þingtímanum, þá legg ég ekki beinlínis áherzlu á að nota þennan fyrirvara, ef það gæti orðið til þess, að málið næði fram að ganga á þeim tíma, sem eftir er af þessu þingi.

Ég skal svo að endingu geta þess, að nál. kemur svo seint fram sem raun er á vegna þess, að málinu var vísað til menntmn. daginn áður en þinginu var frestað í vetur sem leið. Form. n. fór í ferðalag, og hinir tóku störfin að sér, en í sannleika sagt mundi enginn eftir því, að nokkurt annað mál lægi fyrir n. þangað til við vorum minntir á það af háskólaráði. Það var því ekki af því, að n. vildi koma þessu máli fyrir kattarnef, að þessi dráttur varð, heldur af ofangreindum ástæðum.