01.11.1935
Neðri deild: 62. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Flm. (Sigurður Einarsson):

Í frv. þessu, sem ég og hv. 6. landsk. höfum leyft okkur að flytja, felast aðallega tvær breyt. á l. um Brunabótafélag Íslands.

þegar Brunabótafélag Íslands hóf göngu sína fyrir nálega tveimur tugum ára, var verksvið þess takmarkað við húseignir í kaupstöðum, nema Reykjavík, og kauptúnum með 300 íbúum eða fleiri. Síðan hefir félagið fært nokkuð út verksvið sitt, en þó eru ennþá ýmsar takmarkanir á um verksvið þess, sem ekki geta talizt eðlilegar. Þannig er það t. d. svo, að það getur ekki eða því er ekki heimilt að taka að sér brunatryggingar húsa í Reykjavík, þó að félagið og bæjarstj. gætu orðið ásatt um vátryggingarkjörin. Þegar Reykjavíkurbær bauð síðast út samning um brunatryggingu fasteigna, leitaði hann m a. til félags þessa, en því var af greindum ástæðum þýðingarlaust að gera tilboð. Nú eru ekki nema 4 ár þar til samningur sá, sem Reykjavíkurkaupstaður hefir um brunatryggingu fasteigna, fellur úr gildi. Geti félagið þá ekki átt kost á að gera tilboð í tryggingarnar, yrði það að teljast mjög óeðlilegt, því að í öllu tilliti er það ávinningur, að brunatryggingarnar í Reykjavík gætu verið innanlands og iðgjöldin að sem mestu leyti haldizt í landinu.

Hin breyt. snertir lausafjártryggingarnar. Félaginu hefir ekki verið heimilt að taka lausafjártryggingar, nema aðeins að tryggja innanstokksmuni og búslóð húseigendanna sjálfra, sem tryggja hús sín hjá félaginu. Þannig hefir því ekki verið heimilt að tryggja húsmuni leigjenda. Þessar lagalegu takmarkanir fer frv. fram á að fella í burtu. Hinar aðrar breyt., sem í frv. felast, eru afleiðingar af þessum tveimur aðalbreyt. — Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um frv. þetta frekar nú, en óska því vísað til allshn.umr. lokinni.