22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég hafði skrifað undir nál. með fyrirvara, því að ég ætlaði hér síðar að bera fram brtt., og þær hafa nú komið fram á þskj. 583.

Eins og frv. ber með sér, er þar um að ræða breyt. á l. nr. 26 23. júní 1932, um Brunabótafélag Íslands. Þessi lög frá því ári eru allveruleg breyt. á þeim l., sem áður giltu. Frv., sem kom fram á þinginu 1932 og legið hafði, ef ég man rétt, fyrir þingunum 1930 og 1931, gerði allverulegar breyt. á gildandi l., er þá voru. Þau ákvæði, sem þar var farið fram á að breyta, voru að ýmsu leyti lík þeim brtt., sem ég kem nú með við frv., og þó aðallega í tvennu. Annarsvegar, að félaginu sé heimild að vátryggja hús í Reykjavík, og hinsvegar, að heimildin til vátryggingar næði til lausafjár. Þetta frv. varð þó ekki að lögum í þeirri mynd á þinginu 1932, heldur voru þar bæði þessi atriði felld, heimildin um að vátryggja húseignir í Reykjavík og heimildin til að vátryggja lausafé. Það er dálítið eftirtektarvert, að sá maðurinn í Nd., sem lýsti sig mjög fylgjandi þessum atriðum þá, var Halldór Stefánsson, sem nú er forstjóri Brunabótafélags Íslands. Hann lagði þá mikla áherzlu á, að frv. eins og það kom fram yrði að lögum. Það stingur því einkennilega í stúf, að sá maður, sem á þingi 1932 lagði áherzlu á, að frv. yrði afgr., skuli nú eftir þrjú ár telja þær breyt. höfuðatriði, sem hann þá barðist á móti. Það hlýtur eitthvað sérstakt að hafa komið fram á þessum þrem árum, sem umhverft hefir skoðun manna til slíkra meginbreytinga.

Ég tek það strax fram, að ég fyrir mitt leyti get fallizt á, að heimilað verði í lögum, að Brunabótafélag Íslands fái að vátryggja hús í Reykjavík. Mér finnst enginn skaði skeður með þessu, en af því leiðir, að setja verður sérstakan flokk fyrir þá vátryggjendur, sem eiga hús í Rvík.

Eins og kunnugt er, var Brunabótafélag Íslands stofnað 3. nóv. 1915 með gagnkvæmum ábyrgðum frá ríkissjóði og vátryggjendum. Ábyrgðirnar eru gagnkvæmar, en samt takmarkaðar við það, hverskonar eignir það eru, sem eru vátryggðar. Í samræmi við þetta er 6. gr. laganna, sem skipar vátryggjendum í tvo tryggingarsjóði. Annar er myndaður af iðgjöldum kaupstaða og kauptúna, en hinn af iðgjöldum í sveitum, utan kaupstaða. Hvorir eru frjálsir af ábyrgðum eða skyldum gagnvart þeim sjóði, sem þeir greiða ekki iðgjöldin til. Þeir menn, sem eru í öðrumhvorum þessum flokki, eru ekki ábyrgir, ef tjón verður í hinum flokknum. Ábyrgðarmönnum er þannig skipt eftir kaupstöðum eða sveitum í tvo flokka, er hafa gagnkvæma ábyrgð innan hvors flokksins fyrir sig, en sú ábyrgð nær ekki til hins flokksins.

Í fullu samræmi er það, ef skaði verður innan annars flokksins, þá hefir félagsstj. rétt til að nota fyrst og fremst sjóðinn í flokknum, sem fyrir hendi er, og í öðru lagi að leita til ábyrgðar ríkisins, sem samkv. lögunum mun vera allt að 800 þús. kr.

Hinsvegar er svo fyrir mælt í 8. og 9. gr. l., ef slíkt tjón verður, að leita þarf til ábyrgðar ríkisins, þá verður að endurgreiða ríkissjóði upphæðina á ákveðnum árafjölda með iðgjöldum þess flokks, sem hér átti hlut að máli.

Af þessu er ljóst, að það er ekki samsamanlegt við þessar ábyrgðir að setja heimild um ábyrgðir af húseignum í Reykjavík, því að afleiðingin er sú, ef leita þyrfti til ábyrgðar ríkissjóðs, þá þarf að setja húseignir í Reykjavík í sérstakan flokk, því að annars felli skaði á þá menn, sem ábyrgðir hafa í hinum flokkunum.

Við umr. í Nd. kom fram brtt. frá Magnúsi Guðmundssyni og fleirum þess efnis, að tryggingasjóðirnir væru raunveruleg eign kaupstaða og sveita, að félagsmenn sjálfir ættu sjóðina. Halldór Stefánsson lýst því þá yfir, að þessi till. væri algerlega óþörf, því að það leiði af því, hvernig sjóðirnir eru til orðnir og af öllum tilgangi laganna, að þeir eigi þá. En ef það er rétt, að þeir eigi sjálfir sjóðina, þá er ekki rétt að nota þessa sjóði til að greiða skaða vegna vátrygginga af húseignum í Reykjavík.

Ég hefi þess vegna komið fram með brtt. við 4. gr. frv., að aftan við 6. gr. l. komi nýr liður, sem feli það í sér, að fyrir húseignir í Reykjavík sé myndaður sérstakur tryggingarsjóður, með gagnkvæmum ábyrgðum, eins og innan hinna flokkanna.

Hitt atriðið, sem ég kom með brtt. fram við, að felld yrði burt heimildin um vátryggingu lausafjár, er í fullu samræmi við vilja Alþingis 1932, og var þá talin hætta á að gera vátryggingarnar svo víðtækar. Sú hætta hlýtur eins að vera fyrir hendi nú. Þessi till. er einnig í samræmi við það, að eins og ég gat um áðan, eru ábyrgðirnar gagnkvæmar og Brunabótafélaginu er heimilt skv. 8. gr. l. að innheimta hjá félagsmönnum aukagjald, er eigi sé hærra nokkurt ár en helmingur hins árlega iðgjalds, er tiltekið er í brunaskírteininu. Ef t. d. væri heimilað, eins og frv. ætlast til, að Brunabótafélag Íslands taki frjálsar tryggingarábyrgðir á lausafé í Reykjavík, myndi afleiðingin verða sú, ef Brunabótafélagið yrði fyrir allverulegu tjóni eitt ár og yrði að leita til ábyrgðar ríkissjóðs, og ríkissjóður krefst þá endurgreiðslu, þá yrði Brunabótafélagið að innheimta féð óbeint með hækkandi iðgjöldum, en það yrði „faktiskt“ ómögulegt, af því að trygging lausafjár er ekki skyldubundin. Afleiðingin myndi því verða sú, að önnur vátryggingarfélög tækju að sér tryggingar á lausafé gegn lægri iðgjöldum og Brunabótafélagið gæti ekki innheimt sín iðgjöld.

Heimildin um vátryggingu lausafjár brýtur algerlega í bága við gagnkvæmar ábyrgðir innan Brunabótafélagsins og skyldu félagsstj., sem hefir á hendi að innheimta greiðsluna til ríkissjóðs hjá félagsmönnum innan þess flokks, þar sem tjónið yrði. Það nær því engri átt, að þeir félagsmenn, sem vátryggt hafa fasteignir í sjóðnum, eigi að greiða skaða af vátryggingu lausafjár, að þeir menn, sem mynduðu sjóðinn og raunverulega eiga hann, eigi að greiða skaða af vátryggingum, sem ekki koma þeirra flokki neitt við. Ef hinsvegar svo er, að Brunabótafélagið sé þess megnugt að taka hærri áhættueiningu af hærri fasteign en nú er, af steinhúsum 20000 kr., af timburhúsum 15000 kr., af öðrum húsum 10000 kr., — ef það er megnugt að hækka, þá er engin nauðsyn til, eins og gert er í frv., að hafa óbreytta áhættueininguna af fasteignum. Þá væri eins heppilegt að hækka eininguna af fasteignum og breyta frv. í samræmi við það t. d. upp í 24 þús. af steinhúsum o. s. frv.

Svo er enn eitt atriði, sem máli skiptir, að hér eru starfandi vátryggingarfélög, sem vátryggja lausafé. Þau félög borga skyldur og skatta. Ef Brunabótafél. tæki þessar vátryggingar, þá borgar það ekki til ríkis eða bæja. En aðalatriðið er, að vátrygging á lausafé af hálfu Brunabótafél. Ísl. bryti algerlega í bága við tilgang félagsins og þeirra laga, er voru sett. Ég vil þess vegna óska, að brtt., sem ég hefi borið fram, verði samþ., þó að ég geti reyndar fallizt á, að hún megi ef til vill skoðast sem þrenging frá því, sem er í l., en ég vil hinsvegar ekki færa út áhættuna frá því, sem nú er.