04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

1. mál, fjárlög 1936

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Það er auðséð á þessari síðustu ræðu, sem hér var flutt, hvernig aðstaða hæstv. stj. er til þess að verja sig. Hv. þm. S.-Þ. varði ræðu sinni til þess að sýna það, hvernig ástandið hefði verið, ef andstaðingar núv. stj. hefðu komizt að völdum, eða hvað þeir hefðu ætlað að gera. Hann seildist líka til Noregs og Svíþjóðar til þess að sanna, að það væri eðlilegt, að framsóknarmenn og sósíalistar vinni saman. Og þetta var eðlilegt, því að það er ekki hægt að sanna það á málunum, ekki með verkunum, sem þessi stj. skilar af sér. Það varð því að sanna það með einhverju öðru. Hann fór því út fyrir landsteinana, til þess að reyna að fá þar eitthvað til þess að finna orðum sínum stað og sýna fram á. að svona ætti það að vera.

Svo klykkti hann út með því að tala um Kreppulánasjóð, og það, sem helzt var hægt að fá út úr því stagli, var það, að þeim hefði verið sýnd hin mesta óbilgirni, sem fengu þar mestar afskriftir á skuldum. Mér er kunnugt um, að flestir af þeim mönnum, sem ég hefi haft umboð fyrir í Kreppulánasjóði, óskuðu eftir, að afskriftir á skuldum yrðu sem víðast. Svo á það að vera harðbekkni af hendi Kreppulánasjóðsstjórnarinnar að gera þessar ráðstafanir, sem þeir sjálfir óskuðu eftir. Þetta mál var reynt að nota til árása á Bændafl. úti um land á þingmálafundum, en því var fljótt hætt, því að þeir fundu það fljótt, að þetta var ekki heppilegt til að vinna fylgi meðal þjóðarinnar.

Þá var hann að hallmæla hv. 10. landsk., sem hann kallaði þm. Dal., og tek ég það sem fyrirboða þess, að hann vinni bráðlega það þingsæti. Hann réðst að Kolbeini í Kollafirði og Ólafi í Brautarholti fyrir það, hvernig þeir hefðu afgr. kreppulánin, og fyrir þá skoðun, sem þeir hafa á því, hvernig þeir geti staðið undir þessum lánum. En hann nefndi ekki flokksmann sinn, Friðjón Jónsson á Hofsstöðum, sem hefir beitt sér fyrir því í kjördæmi hv. þm. Mýr., að bændur ættu að sameina sig um að greiða ekki neitt til Kreppulánasjóðs fyrr en aðstaða þeirra yrði þannig, að þeim yrði kleift að standa undir þessum þungu byrðum. Ég hefi ekki viljað fylgja þessari stefnu, en ég hefi viljað fá bændur til þess að sameinast um það, að fá áhugamálum sínum hrundið í framkvæmd hér á þingi, og þá fyrst og fremst því máli, að skapa bændum aðstöðu til þess að standa í skilum, því að ég veit, að þeir vilja vera skilamenn. Annars verður þessari ræðu hv. þm. S.-Þ. svarað síðar, að svo miklu leyti, sem ástæða þykir til.

Þá vil ég víkja að því, sem hæstv. landbrh. hélt hér fram í dag. Hann taldi það rangt, að kjötverðið á erlendum markaði 1933 hefði átt þátt í því að hækka kjötið á innlenda markaðinum 1934. En það er algild regla, að þeir, sem hafa ákveðið verðið á innlenda markaðinum, hafa farið eftir því eina, sem hægt hefir verið að miða við, sem sé verðinu á erlenda markaðinum árið áður, því að þegar verðið er ákveðið, er ekki hægt að vita, hvaða verð muni verða á erlenda markaðinum það ár. Ég hefi áður bent á það, að þessi ástæða er nú að miklu leyti horfin úr sögunni, því að nú hefir kjötverðlagsn. vald til að miða verðlagið eingöngu við það, hvað nauðsynlegt þykir að framleiðendurnir fái til þess að búskapurinn geti borið sig.

Hæstv. ráðh. sagði, að það skipti engu máli, hvort verðhækkunin vegna frystikostnaðarins kæmi fyrr eða seinna. Þetta segir hann af því, að honum er ókunnugt um þær knýjandi ástæður til þess að þessi ákvörðun verði tekin nægilega snemma, m. a. að þeir, sem taka vöruna til geymslu, fái kostnaðinn endurgreiddan og hiki því ekki við fyrstu kaup á þessari vöru.

Hæstv. ráðh. minntist einnig á þau orð, sem ég hafði eftir utanþingsmanni, að sigraðir menn yrðu að sætta sig við allt. Hann hélt, að þetta gæti ekki átt við Framsfl. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að þeir eru alveg sérstaklega komnir í gapastokkinn gagnvart sósíalistum á þessu þingi. Það liggur í því, að sósíalistar voru það sniðugir, að þeir fengu þingfrestunimi svona langt fram á haust til þess, að þótt útilokuð væri afgreiðsla mála, þá væri ekki hægt að rjúfa þingið, því að framsóknarmenn vilja ekki kosningar að vetri til. Þetta var sósíalistum vel kunnugt, og þess vegna sagði Ólafur Friðriksson: „við kúgum Framsfl. sem mest, látum hann ganga á getin loforð, til þess að við getum náð stuðningsmönnum þeirra frá þeim.“ — Þetta er ákveðin bardagaaðferð, og hún er sjálfsögð út frá þeirra sjónarmiði, og þetta sýnir, að þeir eru sá sterkari flokkur, en framsóknarmenn máttlausir að standa á verði fyrir hagsmuni umbjóðenda sinna, sveitamannanna.

Þá var hæstv. ráðh. að verja það, að Steingrímur Steinþórsson hefði fengið full skólastjóralaun, eftir að hann hafði látið af störfum sem skólastjóri. Hann segir, að ástæðan hafi verið sú, að skólaárinu hafi verið breytt, og þess vegna hafi orðið að borga tvöföld skólastjóralaun þetta tímabil. Skólaárinu var breytt og því var breytt til þess að báðir mennirnir gætu fengið laun úr ríkissjóði. Það er sama, hvaða aðferð er notuð, en niðurstaðan er eins, að tveir menn fá launin samtímis, alveg að ástæðulausu, því að þótt skólaárinu væri breytt, þá var ástæðulaust að láta tvo menn fá skólastjóralaun samtímis, og þegar Steingrímur kom strax á full laun hjá Búnaðarfélaginu, mátti hann vel við því að vera án þessarar launagreiðslu.

Hæstv. fjmrh. taldi, að ég hefði verið sérstaklega óheppinn í valinu með þá fáu bitlinga, sem ég nefndi, og þar á meðal þessar 6000 kr. til Guðbrands Magnússonar. Hann sagði, að Ásgeir Ásgeirsson hefði lofað þessu, þegar hann var í stj., og mér skildist, að það hefði verið gert með einróma samþykki allrar þáv. stj. En sannleikurinn er sá, að þessi áfengisverzlun heyrði undir ráðuneyti Magnúsar Guðmundssonar, og þegar farið var fram á, að hann greiddi þetta til Guðbrands, neitaði hann því harðlega. Núv. stj. varð að sætta sig við það, en svo var þetta borið upp fyrir fjvn., og þar fékkst þetta samþ., aðeins af þeirra eigin mönnum, gegn atkv. allra hinna, og þá var þetta greitt úr ríkissjóði. Loforðið frá Ásgeiri var þá ekki tekið alvarlegar en það, að þeir þurftu að fá leyfið frá sínum mönnum. Nú þykir heppilegt að kenna Ásgeiri um, af því að hann er hvergi nærri. Það eru þakkirnar, sem hann fær fyrir stuðning hans við núverandi stj. (Fjmrh. og forsrh.: Þetta liggur skriflega fyrir).

Þá sagði hann, að ég hefði átt að nefna það, þegar Pétri Magnússyni hefði verið greiddar 30 þús. kr. Hann vildi þannig afsaka greiðsluna til Guðbrands Magnússonar með því, að annar hefði fengið meira. Þessar greiðslur til Péturs Magnússonar eru samningur milli Guðbrands Magnússonar og hans, sem ég veit ekki til, að komi neinum ráðh. við, nema þá Ásgeiri Ásgeirssyni, af því málið var höfðað á fjmrh., en ekki Magnús Guðmundsson. Þetta var til umr. á síðasta þingi, og var þá margrekið ofan í þessa, hæstv. ráðh., sem nú reyna að nota sér þetta til pólitísks framdráttar.

Þá vildi hann halda því frum, að sá maður, sem ég nefndi í áfengisverzluninni, hann tæki þar laun án þess að starfa þar. Þetta er ekki nýtt embætti og það er ekki greitt úr ríkissjóði. Ég hélt því ekki fram, að það væri greitt úr ríkissjóði, en þetta er einkennileg afsökun fyrir þessari meðferð málsins. Þeir segja, að núv. sölustjóri hafi átt að fara frá í vor. Hvers vegna? Og hvers vegna er hann látinn vera? Ég þykist viss um, að hann sé látinn vera af því að hann þyki fær um að gegna embættinu. En þetta er ekki ástæðan til, að breytt er um á fáum árum, heldur að það þurfti að ná 800 kr. á mánuði handa þessum góða starfsmanni, og hann notaði þetta til þess að láta heiminginn renna til einhvers kunningja síns, sem líklega starfar eitthvað hjá nefndum sölustjóra, en helmingnum stingur hann í vasa sinn, nema hæstv. fjmrh. eigi þá einhvern þátt í því eða hans flokkssjóður.

Þá nefndi hæstv. ráðh. það, hvað hann hefði verið sparsamur, þegar búnaðarbankastjórastaðan var veitt, því að þá hefði launin verið lækkuð úr 26000 niður í 12000 kr. Það er rétt, að þessi bankastjóri fær 12000 kr. í laun fyrir bankastjórastöðuna, en þar að auki fær hann 600 kr. á mánuði við Kreppulánasjóðinn. Þó lækkaði það eftir síðasta mánuð um lítilfjörlega upphæð, sem ég veit ekki hver er. En hann gleymdi því, þessi hæstv. ráðh., að hann hefir tekið einn af stuðningsmönnum sósíalista, hv. 9. landsk., og hann fékk greiddur 29. júlí 500 kr. úr ríkissjóði, og það er orðað svo, að þetta eigi að vera endurgreitt úr markaðs- og verðjöfnunarsjóði.

Ég veit ekki til, að markaðs- og verðjöfnunarsjóður eigi að leysa af höndum neinar slíkar greiðslur til hans eða annara, sem kallað er að veiti forstöðu þessum sjóði, sem enginn sjóður er. Ég hygg að þetta sé ennþá ógreitt ríkissjóði, en sjálfsagt hefir þessi maður þurft á þessu að halda, og þá hefir hann fengið það úr ríkissjóði, án þess að tilrann sé gerð til að fóðra það á annan hátt en að þetta eigi að endurgreiðast frá stofnun, sem er vatasamt, hvort nokkurntíma getur komið fram.

Í sambandi við þetta get ég nefnt spaugilega aths., sem hv. 4. landsk. kom með út af þessum bitlingum. Hann sagði, að andstæðingar stj. væru með þessi ónot til þeirra af því, að við öfunduðum þá af þessum bitlingum, en við hefðum ekkert gert til þess að útvega okkur bitlinga, meðan við höfðum aðstöðu til þess. Þetta er satt. Við álítum það ekki vera starf stjórnmálamanna. en það er aðalstarf flokks hv. 4. landsk.

Þá minntist hæstv. fjmrh. á Þýzkalandsmarkaðinn. Hann segir, að sannleikanum hafi þar verið snúið við hjá mér. (Fjmrh.: Það er líka satt). Ég vitnaði til ummæla hæstv. atvmrh., þegar það frv. var hér til meðferðar. Hann sagði, að það væri ranglátt gagnvart innflutningnum að þvinga okkur til þess að gera innkaup frá löndum, þar sem vörurnar væru dýrari. Hann leit þar eingöngu á hagsmuni neytendanna, en ekki útflytjendanna. Ég hefi haldið því fram, að innflutningsnefnd hefði getað öfluglega beitt sér fyrir að auka viðskiptin við Þýzkaland. Strax og þessi viðskiptaþörf fór að koma í ljós á síðasta ári, voru einstakir forretningsmenn, sem lögðu sérstaklega verk í að útvega sambönd við Þýzkaland og fá verksmiðjurnar til þess að framleiða vörur í því ástandi, sem heppilegastar voru fyrir markaðinn hér, en þar til skorti nokkuð, eins og línoleum, sem áður var ótækt frá Þýzkalandi, en er nú orðið sambærilegt við það, sem hingað er flutt annarsstaðar frá.

Þessi þversköllun hæstv. stj. eða innflutningsnefndar er á víðtækara sviði. Hún kom einnig fram í því seinlæti, sem fyrr hefir hent þessa menn, þegar útflytjendurnir vildu fá að vita, hvað þeir mættu nota mikið af þessum markaði. Ég veit, að þetta kom bæði seint og illa og að ástæðulausu, því að það var hægt snemma í september, því að þá var vitað um sölu á vörum til Þýzkalands, og þá var hægt að gefa út leyfi um að flytja út 50% af ullinni, sem mestur verðmunur var á af öllum útfluttum vörum.

Hæstv. forsrh. fór með þá staðlausu stafi, að orðið hefði að reka á eftir mér vegna nefndarstarfa í kjötmálinu. Þetta eru fullkomin ósannindi, því að álit og tillögur nefndarinnar lágu fyrir, þegar þessi stjórn tók við völdum, og álit og till. í mjólkurmálinu skömmu síðar. En hvernig var það með kartöflusölumálið? Það mál var með öllu undirbúið af fyrrv. stj. og fengið núv. stj. í hendur. Hvernig hafa afköstin orðið þar hjá hæstv. forsrh.?

Hæstv. forsrh. vék skætingi að n., sem finna átti út sannvirði kjötsins. Tilætlun hans var víst sú, að vega á þann hátt að hv. 7. landsk. En hann gætti þess ekki, að hann vó um leið að samflokksmanni sínum, Jóni í Deildartungu. Sannast í honum orð rímnaskáldsins: Ekki sér hann sína menn, svo hann ber þá líka. En það skal hæstv. ráðh. vita, að allir bændur standa sameinaðir um það að lokum að heimta sannvirði vöru sinnar og vinnu, og vera má, að þessi stjórn vinni það sér til ágætis móti vilja sínum, að sameina alla bændur gegn þeirri vítisstefnu, sem uppi hefir verið undanfarið af hálfu rauðu flokkanna í landbúnaðarmálunum.

Hv. 4. landsk. sagði, að mjólkurlögin hefðu verið mikil fórn af hálfu Alþfl., því að þar hefði verið uppi háværar kröfur um lækkun á mjólkinni. En var það ekki einmitt það fyrsta, sem gert var, er mjólkurlögin komust á, að lækka mjólkina? Og þó eru þessar lækkunarkröfur Alþfl. háværar eftir sem áður. Sósíalistar segja, að mjólkin verði að lækka og skuli lækka. En þegar tilboð koma frá bókurum um lækkaðan dreifingarkostnað, segir formaður flokksins, að hugarfar þessara manna sé svo slæmt, að slíkum tilboðum sé ekki sinnandi !

Þá kom þetta jórtur Framsóknarráðherranna um það, að þeir hefðu orðið að kaupa sósíalista til þess að fylgja nýbýlamálinu. En svo koma sósíalistar og segja: Nýbýlamálið er stefnumál okkar. Þarf þá að kaupa þá til þess að fylgja sínum eigin stefnumálum?

Hv. 9. landsk. sagði, að nauðsynlegt væri fyrir bændur að vinna utan heimilis, til þess að geta staðið undir heimilum sínum. Þarna gægðist fram sú gamla viðleitni rauðliða, að gera bændur svo ósjálfbjarga, að þeir geti ekki lifað sjálfstæðu lífi af búskap sínum. En verði bændum varnað þess, rekur að því fyrr eða síðar, að þeir verða að hrekjast á mölina og bætast þar í hóp atvinnuleysingjanna, og þá er tilgangi þeirra manna náð, sem rífa vilja niður allt sjálfstætt og heilbrigt atvinnulíf í landinu.

Minn tími er nú úti. Ég hefði þurft að segja margt fleira, en ég þykist vita, að hv. 10. landsk. taki til meðferðar þær mörgu ávirðingar landsstjórnarinnar, sem ég hefi ekki eða aðeins lauslega minnzt á.