10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Frv. þetta, sem er um breyt. á l. um Brunabótafélag Íslands, fer fram á þrjár breyt. á þessum l. Í fyrsta lagi, að félaginu sé heimilt, með samþ. ráðh., að gera tilboð um að taka í eldsvoðaábyrgð einnig hús í Reykjavík. Eins og menn vita, er það nú svo, að brunavátryggingar í Rvík eru með allt öðrum hætti en annarsstaðar á landinu. Bærinn hefir um mörg undanfarin ár haft við miklu betri kjör að búa um tryggingar heldur en aðrir kaupstaðir og kauptúnin, sem eðlilegt er, vegna þess að hér í Rvík eru miklu fullkomnari slökkvitæki heldur en annarsstaðar á landinu er hægt að koma við.

Þegar l. um Brunabótafélag Íslands voru samþ. á Alþ. 1932, þá kom til tals að heimila félaginu að taka í eldsvoðaábyrgð hús í Rvík. En niðurstaðan varð þó sú, að þetta var ekki lögfest. En nú er það svo að líða fer að því, að samningar þeir, sem Rvíkurbær hefir um brunatryggingar, fara að renna út. Þykir því tilhlýðilegt að athuga það, hvort tök muni vera á því, að Brunabótafélag Íslands geti gert tilboð um að taka að sér þá tryggingu. Af því að hér er um að ræða, hvort allmikið fé fari út úr landinu eða verði hér kyrrt, þá virðist full ástæða til að athuga, hvort ekki sé hægt að halda nokkrum hluta þess fjár í landinu. Vitaskuld þarf Brunabótafélagið endurtryggingu að miklu leyti, ef það tekst á hendur brunatryggingar í Rvík eins og getið er í frv., og því verður ekki nema nokkur hluti fjárins kyrr í landinu. En það er rétt að gera tilraun í þessu efni, ef líklegt þykir, að Brunabótafélag Íslands muni geta tekið að sér þessar tryggingar, þegar hinn umsamdi tími um þær rennur út.

Önnur breyt., sem með frv. er gerð till. um, er, að félaginu sé heimilt að taka í eldsvoðaábyrgð hverskonar lausafé á þeim stöðum, þar sem félagið hefir tryggingar; þó eru undanteknar verzlunarvörur. Það hefir sýnt sig við framkvæmd l., að valdið hefir óþægindum, að félagið hefir ekki haft heimild til þess að tryggja lausafé í kaupstöðum og kauptúnum úti um land, annara en þeirra, sem vátryggja húseignir sínar hjá félaginu, þannig að þeir, sem leigja í húsum, eru útilokaðir frá því að mega vátryggja lausafé hjá félaginu. Þetta hefir valdið nokkrum óþægindum úti um land. Ég þekki t. d. til þess, að opinber starfsmaður, sem býr í húseign, sem ríkið á, hann á ekki þess kost að tryggja sitt lausafé hjá Brunabótafélagi Íslands, aðeins af því, að hann á ekki húsið sjálfur og er að því leyti ekki viðskiptamaður félagsins, að hann vátryggi hús hjá því. Það virðist líka ástæðulítið að meina Brunabótafél. að taka hverskonar lausafé sem er í ábyrgð, þar sem reynslan hefir sýnt, að þrátt fyrir það, þó að félagið taki lægri iðgjöld heldur en a. m. k. flest önnur vátryggingafélög, sem tryggja lausafé, þá hefir hagur félagsins samt batnað ár frá ári.

Þriðja breyt., sem lagt er til, að gerð verði á l. um Brunabótafél. Íslands, er sú, að hækka að nokkru þær tryggingar á húsum, sem félagið þarf ekki að endurtryggja. Um það atriði vil ég aðeins segja það, að hagur félagsins virðist vera þannig, að það sé réttmætt að gera þessa breyt. Og við þetta ætti að vinnast, án mjög mikillar aukinnar áhættu, að meira yrði eftir í landinu sjálfu af því fé, sem fyrir tryggingarnar væri greitt í iðgjöldum.

Frv. þetta er búið að ganga gegnum hv. Nd., og tók það þar engum breyt. Og meiri hl. allshn. leggur eindregið til, að það verði einnig í þessari hv. d. samþ. án breyt. Að vísu hafa ekki komið fram neinar brtt. við frv., og ég býst ekki við, að sá hv. nm., sem skrifaði undir nál. með fyrirvara, hafi hugsað sér að gera brtt. við það. Hinsvegar áskildi hann sér rétt til að hafa óbundnar hendur um brtt., ef þær kæmu fram við þetta frv. — Hefi ég svo ekki fleira að segja fyrir hönd n., en legg málið undir atkv. hv. d.