14.12.1935
Efri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (lngvar Pálmason) [óyfirl.]:

Þessar brtt., sem hér eru bornar fram við þetta frv., hafa verið nokkuð lengi á leiðinni og búnar að tefja málið allmikið Það er mjög bagalegt, að brtt. skuli ekki hafa komið fram fyrr, til þess að allshn. gæti athugað þær, og nú er orðið svo áliðið þingtímann, að hver töf í málinu hér eftir getur valdið því, að það nái ekki afgreiðslu á þessu þingi, en það teldi ég illa farið, því ég álít, að aðalbreyt. í frv., sem er heimildin til þess að taka í eldsvoðaábyrgð lausafé frekar en félagið hefir haft heimild til, sé mjög aðkallandi, vegna þess að reynslan úti um land hefir sýnt, að það er bagalegt, að þessi heimild skuli ekki vera til. Ég gat þess við 2. umr. málsins og endurtek það nú, að það, að þessi heimild er komin inn í frv., er ekki eingöngu komið frá Brunabótafél. Ísl., heldur miklu fremur frá viðskiptamönnunum úti um land. Og ég færði þá fyrir því nokkur rök, að það er næsta óeðlilegt, að í sama húsi, sem er skyldutryggt hjá Brunabótafél., skuli aðeins heimilt að taka ábyrgð á lausafé frá eigandanum, en ekki frá leigjandanum. Hvers vegna á leigjandinn að vera skuldbundinn til þess að hlíta verri kjörum heldur en eigandinn? Brunahættan er alveg sú sama hjá þeim báðum. En það er auðséð, að þær brtt., sem fyrir liggja, eru aðallega bornar fram til þess að fá þetta út úr frv. — Ég reyndi að athuga þessar brtt. meðan hv. 2. þm. Rang. hélt sína ræðu, en ég skal játa, að tíminn var of stuttur til þess að ég gæti áttað mig nægjanlega á þeim. En ég þykist geta fundið það út úr þeim, að þungamiðja þeirra sé einmitt þess efnis, að fyrirbyggja það, að Brunabótafél. fái heimild til þess að taka í eldsvoðaábyrgð allt lausafé, — að undanskildum verzlunarvörum.

Að því er snertir heimildina til þess að Brunabótafél. megi taka ábyrgð á húsum í Rvík, ef samningar takast um það, hefi ég ekki mikið að segja. Ég skal játa, að það er meiningin, ef til þess kæmi, að samningar tækjust, að það verði sérstakur flokkur í Brunabótafél. Ísl. Þetta veit ég, að hv. þm. er kunnugt, því ég geri ráð fyrir því, að hann hafi líka lesið svar framkvæmdarstjóra Búnaðarfél. Ísl. Þar er það tekið fram. (PM: Það er ekki í l.). Nei, það er rétt, en af svari framkvæmdarstjórans sest, að það er meiningin. Ég skal að vísu játa, að það hefði farið betur á því að hafa það í l., en það virðist vera óþarfi meðan maður veit ekki hvort til þessa kemur. Ég held, að það megi bara í samningunum ákveða, að brunatryggingar af húsum í Rvík skuli mynda sérstakan flokk innan Brunabótafél. Ísl. Ég tel því, að þó sú brtt., sem snertir þetta atriði, sé meinlaus, þá sé ekki ástæða til að breyta frv. þess vegna. En það, sem náttúrlega er þungamiðja brtt., er það, að fyrirbyggja, að Brunabótafél. geti tekið í eldsvoðaábyrgð lausafjármuni frekar heldur en það hefir heimild til nú. En heimildin er svona þröng eins og ég hefi lýst, að hún er bara bundin við lausafé þeirra, sem vátryggja hús sín hjá Brunabótafél. Þetta er ástæðulaust, eins og allir sjá, — því hvað er meiri hætta fyrir Brunabótafél. að vátryggja innanstokksmuni leigjanda í húsi, sem tryggt er hjá félaginu, heldur en innanstokksmuni húseigandans? — Ég verð að segja það, að ég lít svo á, að þessar brtt., sem hér liggja fyrir, séu til þess að gera að mjög litlu þær umbætur, sem meiningin var að fá á l. Brunabótafél. Íslands.

Að því er snertir að vísa þessu máli til ríkisstj., get ég sagt það, að ég teldi það út af fyrir sig ekkert óeðlilega meðferð á málinu, en þar sem andstæðingar málsins eru gengnir inn á það, að heimildin til þess að taka í ábyrgð hús í Rvík skuli standa, þá sé ég ekki ástæðu til þess vegna lausafjártrygginganna. En maður getur vel skilið það, að þar sem andstaðan gegn þessu frv. er komin frá innlendum keppinaut, þá er það ekki nema eðlilegt, að sá keppinautur reyni að fyrirbyggja það, að dregin sé starfsemi úr höndum hans. Það er ekki nema eðlilegt. En ég held, að hver sá, sem les aths. Brynjólfs Stefánssonar og svör framkvæmdarstjóra Brunabótafél. Ísl., hljóti að sjá, að rök Brynjólfs Stefánssonar eru ekki það þung á metunum, að þau vegi á móti þeim óþægindum, sem vátryggjendur verða fyrir út af því að geta ekki vátryggt í Brunabótafél. Ísl. Það hefir skyldutryggingu í öllum kaupstöðum og kauptúnum úti um land, en Sjóvátryggingarfél. hefir aðallega umboðsmenn á stærri stöðunum. Og það er afaróþægilegt fyrir menn að þurfa að skipta við 2 aðilja í þessu efni.

Ég get nú ekki séð, að Brunabótafél. stafi nein hætta af því að auka við sig lausafjártryggingunum. Reynslan frá 1932, þó hún sé ekki löng, hefir sýnt það, að iðgjaldataxtinn, sem félagið hefir ákveðið, hefir nægt. Það er ekkert, sem bendir í þá átt; að félaginu standi hætta af því, að iðgjöldin séu of lág. Það, sem hv. 2. þm. Rang. las upp úr erindi Brynjólfs Stefánssonar um tjónin og iðgjöldin af lausafjártryggingunum í Sjóvátryggingarfél. Íslands, sýndi að vísu, að iðgjöldin hafa ekki nægt eitt árið til þess að greiða tjónin, en niðurstaðan á þessum 4 árum var þó sú, að þau nægðu fyllilega. (PM: Það er nú víst rétt þar um). Ég held, að það hafi verið þó nokkur hagnaður. En ég veit ekki, hvað frádrátturinn er mikill. mér þykir líklegt, að hann þurfi ekki að vera meiri á þessu ári, en þetta gæti stafað af því, að Sjóvátryggingarfél. hefir með höndum tryggingar á verzlunarvörum. Og það er litið svo á af báðum aðiljum, Brynjólfi Stefánssyni og forstjóra Brunabótafél., að því fylgi meiri áhætta að tryggja verzlunarvörur, og það er ekki óeðlilegt, af því að þar er meira samansafn, ef bruna ber að höndum. Hvert einstakt tjón getur orðið miklu stærra. Enda er það skiljanleg varfærni hjá forstjóra Brunabótafél. að óska ekki eftir þessari heimild, af því að hann telur, að það þurfi annan iðgjaldataxta fyrir þær vörur. Það gæti því hugsazt, að það, sem veldur því, að Sjóvátryggingarfél. Ísl. hefir fengið slæma útkomu þessi ár, stafi að einhverju leyti af verzlunarvörunum.

Það væri kannske hugsanlegt, að ástæða væri til að taka málið út af dagskrá, til þess að allshn. gæti athugað þessar brtt., sem fyrir liggja. En ég óska þess ekki fyrir mitt leyti, þó að ég telji það réttara á þessu stigi málsins heldur en að vísa því til ríkisstj.

Því er skotið að mér nú, að þessar till. hafi legið fyrir Nd. og verið felldar þar. (PM: 1. brtt. er dálítið önnur). Já, ég geri ráð fyrir því, en þessar brtt. munu samt ná nokkurnveginn því sama og þær brtt., sem lágu fyrir Nd. og voru felldar þar. — Ég fyrir mína parta mun greiða atkv. á móti þessum brtt., sem hér liggja fyrir, og mun ekki heldur æskja þess, að málið verði tekið af dagskrá mín vegna, þó ég hafi haft stuttan tíma til að athuga þær, en hinsvegar mun ég ekki, ef samnm. mínir í allshn. óska þess að fá málið til betri athugunar, setja mig á móti því.