14.12.1935
Efri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég heyrði nú ekki nema síðari hlutann af ræðu hv. 2. þm. S.-M., svo að verið getur að ég taki upp eitthvað af því, sem hann sagði.

Hv. flm. brtt. gerði of mikið úr því, hve starfsvið Brunabótafél. víkkaði mjög, ef þetta yrði að l. Nú er því þannig farið, að hjá Brunabótafél. eru skyldutryggingar á húsum í kaupstöðum og sveitabæjum og heimild til að tryggja búslóð húseigenda sjálfra. Í frv. er farið fram á heimild til að tryggja búslóð leigjenda, til viðbótar við þetta. Mér finnst áhættan af þessari viðbót ekki svo mikil, að varhugavert geti talizt að samþ. frv. Er þegar fengin nokkur reynsla af þessum búslóðatryggingum hjá Brunabótafél., og hún sýnir, að þessi viðbót getur ekki verið neinum vandkvæðum bundin. Ennfremur gerir frv. ráð fyrir, að tryggja megi allskonar lausafé í Rvík líka, en það hefir verið óheimilt. Þó er það einungis bundið við búslóð manna, en ekki verzlunarvörur, og er það gert af varúð að undanskilja þær. Ég hefi það t. d. fyrir satt, að hjá Sjóvátryggingarfél. hafi það sýnt sig, að meiri áhætta fylgir tryggingu verzlunarvara en búslóðar.

Hvað það snertir, að óheimilt sé að nota tryggingarsjóði, sem fyrir eru hjá félögunum, þá er ég ekki sammála hv. 2. þm. Rang. Ef fara ætti að á þann hátt, sem fyrir honum vakir, kæmist maður í öfgar. Þorp, sem komast yfir 300 íbúa, ganga inn í sjóði kaupstaðanna. Sama er að segja um menn, sem koma úr sveitum í kaupstaðinn, að þeir njóta sjóðanna, sem þar eru fyrir.

Ég álít ekki of mikið á þennan sjóð lagt, þó að teknar séu inn tryggingar á búslóðum í Rvík. Ef farið væri að ráðum hv. þm. og myndaður sérstakur tryggingarsjóður í Rvík, yrði fyrstu árin ekki til neitt tryggingarfé. Hinsvegar myndi Rvík ekki til lengdar reynast baggi á kaupstöðunum, en myndi einmitt létta undir með þeim síðar meir. Tryggingarnar yrðu þar öruggari, m. a. af því, að í Rvík eru betri brunavarnatæki en á öðrum stöðum landsins. Aftur yrði örðugt fyrir Brunabótafél. að taka upp sérstakar tryggingar í Rvík og taka þannig á sig alla áhættuna strax.

Loks vil ég taka það fram, að ég sé ekki ástæðu til að vísa málinu til stj.