16.12.1935
Efri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Það er alger misskilningur hjá hv. 2. þm. S: M., að ég hafi ætlað að hindra eða tefja frv. með þessum brtt. Enda er það ljóst, þar sem málið er hér til 3. umr. í síðari deild, að hægt er að afgr. málið nú, jafnvel án afbrigða, þótt fram færi um það ein umr. í Sþ. Það, sem fyrir mér vakir, er aðeins það, að koma að nauðsynlegum leiðréttingum.

Mér finnst afstaða hv. 2. þm. S.-M. í þessu máli undarleg nú, þar sem hann játaði á laugardaginn, að brtt. mín um að taka Rvík sem nýjan tryggingarflokk inn í lögin hefði rétt á sér, en sagði þó nægan tíma til að breyta lögunum, þegar þar að kæmi. En mér finnst það alveg óframbærilegt, að haga löggjöf svo, að henni þurfi að breyta þegar á næsta ári.

Hér hefir oft verið fundið að tíðum lagabreyt., og það með réttu, því að oftast er breytt einhverjum lögum frá síðasta þingi. Þetta er að vísu stundum gert af breyttum aðstæðum, en oft af því, að sézt hefir yfir galla við setningu laganna.

En það, sem ég að öðru leyti vildi drepa á þau andmæli, sem komið hafa fram á móti till. mínum frá þessum hv. þm. og hæstv. atvmrh., er viðvíkjandi lausafjártryggingunum. Hæstv. atvmrh. sagðist ekki sjá neina sérstaka ástæðu til þess að stofna sérstakan tryggingarflokk vegna lausafjártrygginganna, og jafnvel raunar ekki heldur þó að húseignir í Rvík yrðu teknar í eldsvoðatryggingu af Brunabótafél. Ísl., og taldi hann það ekki nema eðlilegt, að þeir sjóðir, sem þegar væru myndaðir, stæðu til tryggingar fyrir áhættu, sem af þessum nýju tryggingum hlytist. Og hv. 2. þm. S.-M. taldi, að hér væri um óverulega breyt. að ræða frá gildandi l., því samkv. þeim væri heimilt að tryggja það lausafé, sem húseigendur sjálfir eiga í hinum tryggðu húseignum. En það er í raun og veru ekki svo lítill munur á því, sem lagt er til í frv., sem hér liggur fyrir, og í gildandi l. Nú er heimild Brunabótafél. gerð alveg ótakmörkuð til þess að taka á sig eldsvoðaábyrgð, að því einu undanskildu, að það hefir ekki heimild til þess að taka verzlunarvörubirgðir í tryggingu. Mér virðist það í alla staði eðlilegt, að þó Brunabótafél. sé í raun og veru stofnað í þeim tilgangi að tryggja húseignir í kaupstöðum og kauptúnum, þá hafi það heimild til þess að tryggja það lausafé, sem húseigendur eiga í hinum tryggðu húsum. Brunabótafél. er gagnkvæmt ábyrgðarfélag, eins og kunnugt er, og þetta er í raun og veru ekki annað en nokkurskonar ívilnun, sem félögum, þ. e. a. s. húseigendum, er gefin til þess að fá lausafé sitt tryggt með sérstökum kjörum. Brunabótafél. hefir hagnazt á þeim tryggingum, sem það hefir tekið af húseigendum, og það er í raun og veru ekkert óeðlilegt við það, að þeir, sem þetta tryggingarfé eiga í rauninni, þ. e. a. s. húseigendur, fái einhver fríðindi vegna þessa hagnaðar, einmitt af því að hér er um gangkvæmt ábyrgðarfélag að ræða. Þegar verið var að setja þessi l., sem nú gilda um Brunabótafél. Ísl., á þinginu 1932, þá kom það skýrt fram í umr. og ég ætla, að það hafi komið skýrast fram hjá núv. forstöðumanni Brunabótafél., að þeir sjóðir, sem þegar voru myndaðir, væru í raun og veru eign þessara kaupstaða og kauptúna, sem skyldutryggingn hefðu haft í Brunabótafél., og einmitt fyrst og fremst með tilliti til þess voru hinar nýju tryggingar sveitabæjanna látnar mynda sérstakan flokk. Ég get ekki séð, að það væri á nokkurn hátt réttlætanlegt, að sjóður kaupstaða og kauptúna væri tekinn til þess að standast áhættu af nýjum og alveg óskyldum tryggingum, sem nú á að heimila Brunabótafél. að taka. Það hefir auk þess verið sýnt fram á, að hér er ekki um litla áhættu að ræða. Það liggja fyrir í þinginu upplýsingar um, að lausafjártryggingar hjá þessu eina innlenda félagi, sem fengizt hefir við þær almennt, hafa á undanförnum 4 árum gefið þá niðurstöðu, að mjög lítill eða enginn munur hefir verið á nettótekjum og gjöldum. Og ef nú á að lækka iðgjöldin um allt að 25%, þá benda allar líkur til þess, að hér sé um verulega áhættu að ræða. Ég er náttúrlega ekki að fullyrða, að það þyrfti endilega að verða halli hjá félaginu, en mér finnst það vera augljóst, að hér sé um þó nokkra áhættu að ræða, og svo framarlega, sem á að stofna til þessarar áhættu, þá virðist mér það rétta vera að láta þessar nýju tegundir trygginga mynda sérstakan flokk, eins og ég hefi lagt til á þskj. 831, en ekki láta áhættuna lenda á þeim þegar samansöfnuðu sjóðum kaupstaðanna eða sveitanna. Og ég hefi ekki heyrt, hvorki frá hv. 2. þm. S.-M. eða hæstv. atvmrh., nein frambærileg rök á móti þessu. Þeir geta ekki véfengt það, að það hafi verið gengið út frá því, að sjóðir, sem myndaðir eru, væru í raun og veru eign þessara manna, sem til þeirra hafa goldið hærri iðgjöld af húseignum sínum heldur en nauðsyn strangt tekið hefir krafizt. Náttúrlega er það sjálfsagt og nauðsynlegt, að sjóðir myndist, því félagið er þá fyrst komið á fastan fót og veitir þá fyrst öryggi, þegar allverulegir sjóðir eru myndaðir til þess að standa undir þeirri áhættu, sem er samfara starfsemi þess. — Ég vildi því í lengstu lög mega vænta þess, að hv. þm. líti á þetta mál með fullri sanngirni og séu ekki með neina óþarfa varasemi um það, að gera breytingar til lagfæringar á frv., því málinu er ekki stefnt í neina hættu með því. Þetta segi ég náttúrlega til þeirra, sem ekki geta aðhyllzt mína aðaltill., um að vísa málinu til ríkisstj. til frekari undirbúnings.