30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

186. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað

Jónas Guðmundason [óyfirl.]:

Ég hélt, að þessi sjálfsagða breyt. á l. um bæjarstj. í Neskaupstað mundi ekki mæta mótspyrnu í þinginu, enda hefir það ekki orðið hjá hv. allshn., sem mælir með, að það verði samþ. óbreytt, og get ég verið henni þakklátur fyrir það. En hv. þm. V.-Húnv. fann hvöt hjá sér til að finna að því, að þetta frv. mundi valda einhverri stefnubreyt. eða gefa óheppilegt fordæmi, sem síðar yrði farið eftir. Ég veit ekki, hvað því veldur, að honum dettur þetta í hug, og geri ég ráð fyrir, að hv. þm. slái þessu fram til þess að láta málið ekki fara umræðulaust í gegnum þingið, heldur en að hann meini nokkuð með þessu. mér skildist á ræðu hv. þm., að svo gæti farið, að í framtíðinni gæti þessi breyt. leitt til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Og því ber ekki að neita, að þetta frv. fer fram á nokkur hundruð kr. launahækkun til bæjarfógetans í Neskaupstað. En ég hygg, að tilgangur þessa hv. þm. og máske annara, sem eitthvað hafa við þetta frv. að athuga, sé sá, að búizt er við, að á næsta ári verði gerð breyt. á launalögunum og launakjör embættismanna endurskoðuð, og þá um leið laun þessa bæjarfógeta eins og önnur. Nú ætla ég, að sýslumenn í lægsta launaflokki hafi 4200 kr. í byrjunarlaun, en þessum bæjarfógeta eru ekki ætluð nema 3600 kr. laun, án þess að þau eigi að lækka, en vitanlega fær hann dýrtíðaruppbót á launin, eins og hún er ákveðin á þessum launaskala. Þetta eru því langlægstu laun, sem sýslumönnum og bæjarfógetum eru greidd; en gert er ráð fyrir, að hann fái 2500 kr. í skrifstofufé, og verða þá laun hans og skrifstofufé samtals 6500 kr. Það er margfalt minna en hjá öðrum sýslumönnum, miðað við þann vinnukraft, sem á þarf að halda. Hvað því viðvíkur, að kostnaðurinn minnki, ef starfinu er skipt á þann hátt, er frv. fer fram á, þá er það nú svo, að ríkissjóður greiðir bæjarfógetanum í laun 2500 kr. á ári, og bæjarsjóður 3000 kr.; en það mundi samanlagt tæplega nægja bæjarfógetanum sjálfum. Þar að auki þarf kaupstaðurinn að leggja til aðalskrifstofumann og ennfremur lögregluþjón. Lögregluþjónninn mun að vísu aðstoða hann eftir sem áður, en fullir 2/3 af launum núv. skrifstofumanns mundu sparast.

Bæjarstj. Neskaupstaðar lítur svo á, að einn maður geti tæplega annað báðum þessum störfum svo að viðunanlegt sé, og að þá verði bæjarstjórastörfin fremur útundan. Þess vegna fórum við fram á þá breyt., sem í frv. felst. Ég held það sé rétt, sem stendur í grg. frv., að væri starfinu skipt, mætti ætla, að væntanlegur bæjarstjóri gæti annað bæjarmálunum einn að mestu leyti, eins og nú er t. d. á Seyðisfirði. En það mundi áreiðanlega verða talsverður sparnaður fyrir bæjarsjóð Neskaupstaðar, sem nú þarf að greiða 3000 kr. upp í laun bæjarfógetans og aðrar 3000 kr. til skrifstofumanns, og þar að auki laun lögregluþjóns.

Ég tel, að því verði ekki mótmælt með rökum, að ef betri skipun fæst á þessum störfum með því að skipta þeim á milli tveggja manna, eins og frv. gerir ráð fyrir, þá sé rétt að gera það. Vænti ég svo þess skilnings hjá hv. þdm. á málinu, að þeir samþ. frv. óbreytt. Þeim, sem til þekkja í þessum kaupstað og hlut eiga að máli, mundi þykja vænt um það, af því að þeir telja þetta mikla umbót.

Ég sé enga hættu fólgna í þessu fyrir ríkissjóð. Launin eru alveg fastbundin samkv. launalögum. Breyt. á launalögunum er í vændum, og liggur raunar fyrir þessu þingi. Það má að sjálfsögðu ganga út frá því sem gefnu, að sú vinna, sem lögð hefir verið í það mál, verði ekki látin falla niður, heldur verði launakjörunum skipað á ný, og ef til vill á næsta þingi.