30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

186. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað

Guðbrandur Ísberg:

Án þess að ég ætli verulega inn á efni þessa frv. vil ég aðeins benda á, að frv. um skipun lögsagnarumdæma í landinu var borið fram á þinginu í fyrravetur og vísað til nefndar. N. hefir starfað á þessu þingi að launamálafrumvörpunum, og einhvern næstu daga er búizt við, að hún skili áliti sínu. Þetta frv. heyrir fullkomlega undir þá nefnd. Ég vil ennfremur benda á, að í áliti mþn. í launamálum er lagt til, að sameinuð verði bæjarfógetaembættið á Norðfirði og sýslumannsembættið í Suður-Múlasýslu. Ég geri ráð fyrir, að þingn., sem fjallar um launamálafrv., leggi líka til, að þetta verði gert. Þess vegna finnst mér það næsta hvatvíslegt að breyta þessu embætti í Neskaupstað til bráðabirgða, eins og hv. síðasti ræðumaður talaði um, og sé ég enga nauðsyn á því.

Það er vitað, að t. d. á Siglufirði gegnir sami maður bæjarfógeta og bæjarstjórastörfunum, og er það öllum kunnugt, að þar eru þessi störf miklu umfangsmeiri en í Neskaupstað. Sú nauðsyn, sem hv. flm. talar um í sambandi við þetta frv., er alls ekki til staðar. Það verður að teljast eðlilegast, að þetta frv. verði látið sofna nú á þessu stigi málsins. En ef hv. flm. vill ekki draga það til baka, þá liggur beinast við að flytja till. til rökst. dagskrár um að því verði vísað frá.