30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

186. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað

Jónas Guðmundsson [óyfirl.]:

Út af því, sem hv. þm. Ak. hélt fram, að ákvæði þessa frá. brytu á einhvern hátt í bág við frv. það, sem liggur fyrir þinginu um breytta skipun á lögsagnarumdæmum í landinu, þá fæ ég ekki séð, að það hafi við neitt að styðjast. Því vitanlega dettur engum í hug, að breyt. eða samsteypa lögsagnarumdæma fari fram fyrr en embætti losnar í einhverju af þeim lögsagnarumdæmum, þar sem breyt. á fram að fara. Hlutaðeigandi embættismaður verður ekki rekinn frá, heldur beðið eftir því, að embættið losni. Þess vegna er það hverjum manni ljóst, að þó að á þessu þingi verði samþ. lög um sameining einstakra lögsagnarumdæma í landinu, t. d. sameining bæjarfógetaembættisins í Neskaupstað við sýslumannsembættið í Suður-Múlasýslu, þá mundi sú breyt. ekki koma til framkvæmda fyrr en annarhvor þeirra manna, sem nú gegna þessum störfum, léti af embætti; þá tæki hinn við báðum embættunum. Ég hefi a. m. k. alltaf skilið þetta þannig. Þess vegna hefir það engin áhrif á þetta, hvort bæjarfógeta- og bæjarstjórastörfin í Neskaupstað eru aðskilin eða sameinuð.

Þá minntist hv. þm. á, að bæjarfógetinn á Siglufirði gegndi jafnframt bæjarstjórastörfum þar, eins og gert væri í Neskaupstað; og það er alveg rétt, þessi tvennskonar störf eru sameinuð í tveimur kaupstöðum á landinu. En það er aðgætandi, að á Siglufirði greiðir bæjarsjóður aðeins 500 kr. til bæjarfógetans fyrir það, að hann gegnir forsetastörfum í bæjarstj. kaupstaðarins; en að öðru leyti greiðir ríkissjóður öll bæjarfógetalaunin á Siglufirði. M. ö. o. ríkissjóður greiðir allan kostnað við bæjarfógetaembættið þar, en bæjarsjóður ekki nema lítilfjörlega þóknun fyrir yfirstjórn bæjarmálanna. Auk þess má á það benda, að í Siglufjarðarkaupstað annast sérstök skrifstofa um öll hafnarmál bæjarins, og er kostnaðurinn við þá skrifstofu greiddur úr hafnarsjóði. En í Neskaupstað heyra öll bæjarmálefni undir skrifstofu bæjarins, eins og tíðkast í smærri kaupstöðum hér á landi.

Um till. hv. 2. þm. N.-M., að vísa frv. til launamálan., er það að segja, að á hana get ég ekki fallizt, enda hefir hún enga aðra þýðingu en þá, að drepa málið, og þá er eins gott að gera það strax hreinlega. Ég fæ ekki séð, að hv. launamálan. hafi neitt við þetta frv. að gera. Frv. gerir ráð fyrir, að þessi störf, sem þar um ræðir, verði aðskilin og að bæjarfógetinn verði ekki bæjarstjóri eftirleiðis. Ég tel það því langsamlega eðlilegast og hreinlegast, annaðhvort að ganga af frv. dauðu nú þegar hér í d. eða lofa því að ganga áfram gegnum þingið.

Ég tel það hið mesta sanngirnismál að leyfa bæjarstj. Neskaupstaðar að skipta þessum störfum í tvennt. Það þótti að ýmsu leyti athugavert, þegar bæjarfógetaembættið í Neskaupstað var stofnað, að láta sama mann gegn bæjarstjórastörfum, en af því að þetta var gert á Siglufirði, þá var lítið á það sem fullgilt fordæmi. Þessi störf eru þó í raun og veru tvískipt á Siglufirði, þó að bæjarfógetinn hafi þar atkvæðisrétt í bæjarstj. og sé forseti hennar á fundum.

Um ræðu hv. þm. V.-Húnv. þarf ég ekki að fjölyrða; ég get sagt honum það, að auk þess sem bæjarfélagið í Neskaupstað greiðir ritara bæjarfógetans laun og einum lögregluþjóni, þá leggur það fram dálitla þóknun, eða 600 kr., að auki.

Á Seyðisfirði annast einn maður bæjarstjórastörfin, með lítilsháttar aðstoð í skrifstofu part úr árinu. En það er sú lausn, sem stefnt er að með þessu frv. fyrir Neskaupstað, því að mannfjöldi er mjög svipaður í þessum kaupstöðum. Það getur oft valdið óþægilegum árekstrum, ef sami maður gegnir báðum störfunum, og kemur það þá venjulega niður á bæjarfélaginu, og einkum framkvæmdamálum bæjarins, þannig að þau verða á hakanum, en bæjarfógetastörfin sitja fyrir. — Að lokum endurtek ég það, sem ég áður sagði, að ef hv. þdm. vilja ekki unna íbúum Neskaupstaðar þess réttar, er í frv. felst, þá álít ég hreinlegra af þeim að ganga af frv. dauðu nú þegar heldur en að vísa því út í bláinn til launamálan.