13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

við 2. umr. gerði ég nokkrar aths. við núverandi 20. og 22. gr. frv. mér virðast ákvæði 20. gr. nokkuð þröng og að þau geti komið óþægilega við í einstökum tilfellum. Ekki er alltaf víst, að eins standi á um ræktun í hverju einstöku tilfelli, þegar nýbýli er stofnað. Ég hefi skilið þessa 20. gr. þannig — og ég vildi fá svar við því frá hv. frsm. n., hvort það er ekki réttur skilningur —, að þegar talað er um, að til ræktunar nýbýlis megi greiða svo og svo mikið, þá sé þar með einnig átt við kostnað við að koma upp þar til heyrandi girðingum, því að ræktun verður ekki innt af höndum, svo að í neinu lagi sé, nema girðingar eða einhverjar vörzlur séu hafðar um hið ræktaða land. Það gæti komið sér vel, að hægt væri að beina nokkru af þessum styrk til þess að koma upp slíkum girðingum. En í 20. gr. er gert ráð fyrir, að aldrei megi verja til ræktunar nema 1000 kr. af þessum 3500 kr. styrk, eða 2/7. En með þessu finnst mér ræktuninni skorinn óeðlilega þröngur stakkur, sérstaklega ef girðingar eru hér taldar með ræktun, sem ég álít, að ekki þurfi að vera, og vona ég, að hv. frsm. svari því, hvort svo er.

Þá er gert ráð fyrir, að lán úr nýbyggingadeild byggingar- og landnámssjóðs megi aldrei fara fram úr 3500 kr. og ekki 7/17 fram úr stofnkostnaði býlisins. Þessi upphæð legg ég til, að sé hækkuð um 1000 kr., eða að lánveiting megi nema 9/17 stofnkostnaðar. Þótt ég efist ekki um það, að n. hafi litið á þetta mál frá öllum hliðum, þá er samt auðsætt, að með þessari takmörkun á lánsupphæðinni er nýbýlastofnendum skorinn svo þröngur stakkur, að þeir verða að geta lagt fram talsvert af eigin efnum, ef þeir eiga að verða láns og styrks aðnjótandi. Má að vísu segja, að mín till. gangi svo skammt, að hún bæti lítið úr, en ef brtt. mín við 20. gr. verður samþ. og orðin „til ræktunar“ túlkuð frjálslega, ætti samþykkt brtt. minna að geta orðið til að gera löggjöfina aðgengilegri fyrir frumbýlinga þá, sem hafa hug á að notfæra sér hana. Ég vil því bera fram svo hljóðandi skrifl. brtt. [sjá þskj. 809].