13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er auðséð, að nokkuð mikils þykir við þurfa að mótmæla þessum brtt. frá mér, því að þrír af hv. nm. landbn. hafa staðið hér upp til þess að láta í ljós andúð sína gegn þeim. Þó skildist mér á hv. þm. N.M., að hann í hjarta sínu væri ekki eins mikið á móti brtt. eins og hann vildi vera láta. En hann lýsti því yfir, að það hefði orðið samkomulag í n. Ég get vel skilið, að hv. þm. hafi tilhneigingu til þess að fylgja brtt. og hafi jafnvel talað fyrir svipaðri afgreiðslu málsins í n.

Svo get ég líka skilið, að þegar hann er búinn að slá af til samkomulags við hina aðra nm., þá vilji hann ekki rjúfa það samkomulag, sem hann hefir heitið sínum samnm., og er ekki nema gott um það að segja út af fyrir sig. En það er ekki hægt að segja, að það sé næg ástæða til þess að mæla gegn mínum brtt. Þar geta haft sama gildi fyrir því, þó að eitthvert samkomulag hafi orðið í n. um afgreiðslu málsins. Ég skal játa, að ég hafði tilhneigingu til þess að ganga lengra í þessu efni en ég hefi gert með brtt. mínum, eins og frv. það ber með sér, sem ég var flm. að og n. hafði til að styðjast við við afgreiðslu málsins á þessu þingi. En ég hefi einmitt tekið nokkuð tillit til þess að afgr. málið á sem beztan hátt, þannig, að það komi að sem beztu gagni, en yrði þó ekki á nokkurn hátt, eins og hv. þm. N.-M. tók fram, til þess að freista manna til að yfirgefa jarðir sínar og taka til nýbýlastofnunar. Ég hygg, að engin hætta stafi af þessu, þó að mín till. verði samþ. Hún er einmitt sniðin við það, að þeir, sem kynnu að óttast slíkar afleiðingar af brtt. mínum, gætu orðið rólegir og samþ. þær án þess að nokkur slík hætta opnaðist. Þær ganga ekki inn á þá braut að hækka styrkinn, heldur aðeins að hækka lítilsháttar lánin og að styrkurinn verði dálítið lausari fyrir og megi velta honum á milli eftir því, sem bezt hentar fyrir nýbýlinga sjálfa. Í því sambandi vil ég svara hv. frsm. n. því, sem hann talaði um, að framlag til nýbýla eigi að koma aðallega fram í ræktun. Ég skal gjarnan ganga inn á það, að í mörgum tilfellum — og ef til vill flestum tilfellum — væri það hagfelld leið fyrir nýbýlinga að leggja fram sitt framlag í ræktun, en þó getur það verið hagkvæmara fyrir þá að leggja það fram á annan hátt. Við skulum segja, að maður hefði tækifæri til þess að byggja sjálfur upp á sínu býli, þá er honum hagkvæmast að leggja fram sitt framlag í smíði, og er þá eðlilegast fyrir hann að leggja fram starfskrafta til þess að vinna að byggingunni, þó að hann kannske þurfi að kaupa vinnu við ræktun og önnur störf til að koma býlinu upp. Það eru þessar ástæður, sem ég vildi reyna að fullnægja með þessu ákvæði í brtt. minni um, að þessir framlagsmöguleikar til nýbýlanna séu tilfæranlegir eftir því sem bezt hentar í hverju einstöku tilfelli. Mér er kunnugt um, að það getur verið dálítið mismunandi, hvað menn komast at með í byggingarkostnað, eftir því hvað þeir eru hagsýnir í því efni. Mér hefir t. d. verið tjáð, að byggingar- og landnámssjóðshús hafi orðið ódýrara en annað nákvæmlega eins. Þrátt fyrir að sömu skilyrði voru að öllu leyti til bygginga, hafði mismunurinn á kostnaðarverði orðið allt að því tvö þúsund krónur. Nú finnst mér ekki nema gott og blessað, að þeir, sem gætu komið upp byggingum, en dregið niður kostnaðarverðið að verulegum mun, fengju rýmri aðstöðu til þess um leið að leggja það, sem þeir hefðu sparað á byggingarkostnaði, í aukna ræktun og fengju betri aðstöðu að öðru leyti til nýbýlastofnunar. Það á ekki að refsa þeim fyrir þetta, heldur að sýna þeim fulla sanngirni, með því að skapa þeim betri aðstöðu til þess að fá býlin sem bezt úr garði gerð. Ég vil því vona, að hv. landbn., þó að þeir séu búnir að koma sér saman um afgreiðslu þessa máls á þeim grundvelli, sem hér er lagður, þá standi þeir ekki á móti brtt. mínum, sem þeir hljóta að viðurkenna, að eru gerðar með það fyrir augum, að þeir, sem nýbýli stofna, fái betri tækifæri til þess að skapa sér lífvænlegri skilyrði, og það án þess að nokkur ástæða verði til þess að óttast, að það verði til að lokka menn meir en hófi gegnir frá gömlu býlunum sínum. Ég skal taka það fram, að ég teldi það ekki mikið tjón, þó að einstaka afdalajarðir legðust í eyði. Það eru lítil framtíðarskilyrði fyrir menn, sem búa á slíkum jörðum, og á undanförnum árum hefir alltaf verið að ganga meir og meir á þessi heiðabýli og menn hafa fært sig í þéttbýlið og reynt að koma sér þar fyrir. Hinsvegar skal ég játa, og hefi alltaf haldið fram, að það ber skylda til þess að halda við gömlum býlum eftir því sem frekast er unnt, nema þeim, sem liggja mjög afskekkt.

Ég vil svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en þó endurtaka og undirstrika, að mínar brtt. eru ekki í því formi, sem ég hefði helzt kosið, heldur hefi ég mynt að laga mig eftir því, sem n. hefir lagt til í málinu, og greiða fyrir því án þess að það geti á neinn hátt orðið til þess að auka á hættu fyrir málið sjálft og byggt mínar till. alveg á þeim grundvelli, sem n. sjálf leggur til. Ég vil beygja mig fyrir þeirri stefnu, sem þar hefir orðið ofan á, en reyna að færa hana lítilsháttar til betri vegar frá því, sem ég tel, að sé í frv. sjálfu.