13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Húnv. gat þess, að nú hefðu þrír þm. úr landbn. staðið upp til þess að andmæla hans brtt. Ég held, að það sé rétt, að ég standi upp sem fjórði maður til þess að andmæla þeim. — Ég veit vitanlega ekki, hvað einstakir landbnm. aðrir en ég hafa hugsað sér um hámarksákvæði fyrir lánum og styrk til nýbýlabygginga. En ég veit það, að n. var sammála um, að ekki mætti fara hærra, til þess að ekki væri veruleg hætta á því, að menn hlypu frá býlum sínum til þess að verða aðnjótandi þeirra fríðinda, sem gert er ráð fyrir, að þeir, sem stofna nýbýli, fái, eða a. m. k. verði allháværar kröfur um að komast í þá aðstöðu.

Hv. þm. V.-Húnv. lagði sérstaka áherzlu á það, að hér væri ekki farið fram á aukinn styrk, heldur aðeins hækkuð lán. Það gerði svo sem ekkert til, skildist mér, þó að nýbýlin þyrftu að standa undir hærri lánum — það skipti svo sem ekki miklu máli. Ég vil benda hv. þm. á í fullri alvöru, hafi hann ekkert lært af skuldasöfnun bænda á undanförnum árum, ekkert lært af því, að byggingar- og landnámssjóður byrjaði á því að lána um 30 þús. kr. út á jarðir, sem ekki kostuðu nema 3—5 þús., að stjórn byggingar- og landnámssjóðs hefir lært það af þeirri reynslu, sem hún hefir af þessu hlotið, að hún hefir fært lánin stórkostlega niður. Ég hygg, að nýbýlingar verði þakklátir þeim mönnum, sem ætlast ekki til þess, að inn á þá verði troðið lánum eða gert allt of auðvelt um að hrúga lánum á býlin. Ég hygg, að þeir megi vera þakklátir þeim mönnum, sem benda þeim, þó óbeint sé, á þá leið að leggja minna í kostnað í byrjun, en þó þannig, að sómasamlegt megi teljast og að líkur séu til, að þeir geti risið undir kostnaðinum.

Að því er snertir brtt. hv. þm. Árn., þá er ég þeim mótfallinn og get tekið undir þau rök, sem hv. form. landbn. færði gegn þeim.