13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Jón Pálmason:

Mér þótti koma fram skrítnar getsakir hjá hv. þm. V.-Húnv. til okkar í landbn. um að í þessu máli hefði n. gengið inn á eitthvert samkomulag, sem hv. þm. Ak. hefði kúgað okkur hina í n. til þess að ganga inn á, og það væri að ákveða styrkinn og lánin svo lág, að ekki væri hægt að byggja nýbýli fyrir þá upphæð.

Ég skal lýsa því yfir, að í n. hefir í þessu efni verið bezta samkomulag um að fara ekki hærra með þessar fjárveitingar en við gerum ráð fyrir. Ég veit ekki hvort hv. þdm. hafa athugað, hvað hlutfallið raskast mikið, ef till. hv. þm. V.-Húnv. væru samþ., því að það er lágmarkskrafa frá landbn., að til byggingar nýbýlis leggi hlutaðeigandi sjálfur fram 3/17 af stofnkostnaði býlisins, og það virðist ekki vera sérlega há krafa. En verði till. hv. þm. V.-Húnv. samþ., breytist þetta hlutfall þannig, að það verður aðeins 1/17 — einar 500 kr. — sem hlutaðeigandi þarf sjálfur að leggja fram. hér er að miða við það hámark, sem styrkurinn er veittur til, og þá er að athuga í þessu sambandi það, sem kemur til greina, sem er sú ræktun, sem þarna þarf fram að fara. Ég býst við, að menn hafi kannske ekki gert sér grein fyrir því, að til þeirrar ræktunar, sem styrk á að veita til samkv. þessu frv., er ekki ætlazt til, að veittur verði jarðræktarstyrkur. Eftir þessu hefir því hlutaðeigandi bóndi eins og áður fulla kröfu til styrks samkv. jarðræktarlögunum til þeirrar ræktunar, sem hann framkvæmir þar til viðbótar.

Ég skal, ef hæstv. forseti aðeins bíður örlítið við, lesa upp, hvernig þetta er í frv., sem hv. þm. V.-Húnv. flutti hér í fyrra. Hann vill fara með styrkinn upp í 12 þús. kr. til þess að reisa sér nýbýli. (HannJ: Hann þyrfti að vera það). Hann vill færa ríkisstyrkinn upp í 12 þús. kr. til einstakra býla, og ætlast þannig til, að nýbýlin verði eins dýr eins og dýrustu höfuðból á landinu. (HannJ: Það eiga allt að verða höfuðból). Það getur kannske orðið með tímanum, en það er ekki hægt að krefjast þess, að ríkið styrki þau á þann hátt, að þau geti orðið það strax. Það væri óskynsamlegt að gera slíkar kröfur. Viðvíkjandi því, sem í frv. stendur, þá er það krafz frá hv. þm. V.-Húnv., að aldrei verði minna en 34 af kostnaðarverði, sem hlutaðeigendur sjálfir leggja fram. Landbn. hefir ekki gert ráð fyrir hærra en 3/17, en nú vill þessi hv. þm. færa það niður í 1/17.

Annars vil ég ekki lengja umr. frekar. Það er líka óþarfi, vegna þess, að ég býst ekki við, að till. nái fram að ganga. En auðsætt er, hvað vakir fyrir hv. þm., að nota sér á þennan veg, að landbn. sé að skera við neglur sér framlagið, af því hún ætlist til, að ekkert verði úr málinu. En nm. hefir ekki dottið slíkt í hug. Þeir hafa aðeins viljað fylgja skyldu sinni, að gera frv. þannig úr garði, að það gæti orðið hjálp á komandi tímum fyrir sveitir landsins. Svo ætla ég ekki að orðlengja þetta frekar.