13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (2517)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Umr. eru orðnar langar, svo að ég vil ekki teygja mikið úr þeim. En ég verð þó að mótmæla því, sem hæstv. forseti hélt fram, er hann var að mæla með till. sinni og hv. 2. þm. Árn. Hann segir, að þeir hafi borið till. fram til að samræma ákvæði í frv. landbn. Þetta er hrein fjarstæða. Hann sagði, að ekki hefði verið rétt að blanda nýbýlastjóra eða landbrh. inn í þetta mál, heldur hafi verið réttast að láta það heyra undir stjórn byggingar- og landnámssjóðs. — Það getur verið, að þetta hafi verið bezt, en það gat bara ekki orðið í þessu frv., því að lánin byggjast á því, hvort maður fær þann styrk úr ríkissjóði, sem ákveðinn er í frv. Og það þýðir ekki að veita lán til eins býlis og styrk til annars. En þegar ákveðið er í lögunum, að úthlutun styrksins skuli falin nýbýlastjóra og landbrh., þá verður ekki komizt hjá því, að þeir, sem ákveða styrkinn úr ríkissjóði, segi til um, hverjir eigi að fá lánið. Ef þetta hefði ekki verið svona bundið, þá hefðum við ekki ákveðið neitt um það í frv. En þetta eru einmitt þeir lánaflokkar, sem bundnir eru við þennan styrk. Ef hefði átt að færa ákvarðanir um lánaflokka í Búnaðarbankanum undir sömu stjórn, þá hefði ekki síður verið ástæða til að taka hér með ræktunarsjóð, því að mikill hluti af lánum úr honum fer líka til bygginga. Þetta hefði ef til vill verið æskilegast, en því varð ekki komið við, og við urðum að taka þann kostinn að leggja til að stofna nýjar deildir úr byggingar- og landnámssjóði.

Þá sagði hæstv. forseti, að ekki væri greinilegt eftir frv., hvað væru nýbýli og hvað eldri býli, en ég vil benda honum á, að í frv. eru skýr ákvæði um þetta.

Þá er ákvæðið, sem hv. þm. Borgf. fann að, að í seinni lið till. væri strikað út, að nýbýlastjóri hefði nokkurn ákvörðunarrétt um þessar lánveitingar. Í till. landbn. er ákveðið, að hann taki fullnaðarákvörðun ásamt landbrh., en í brtt. stendur, að nýbýlastjóri leggi till. n. fyrir landbrh., sem tekur um þær fullnaðarákvarðanir. Nýbýlastjóri á þannig aðeins að bera fyrir hann till., en landbrh. tekur ákvarðanirnar. Nýbýlastjóri hefir samkv. brtt. þessari ekki tillögurétt, heldur er hann aðeins sendisveinn frá nýbýlanefnd til landbrh. Það er með ásettu ráði, að við orðuðum till. þannig, að landbrh. taki ákvarðanir ásamt nýbýlastjóra, því að við vildum láta nýbýlastjóra líka hafa hönd í bagga með þessu. Ég vil því ekki ganga inn á það með hæstv. forseta, að ekkert sé athugavert við brtt. þeirra.

Mér finnst það hortittur, þar sem stendur í 1. málsgr.: á sama hátt, og svo er endurtekið í brtt.: á sama hátt, og þó þessi orð fellu niður, þá stendur ettir, að nýbýlanefnd geri till. um lánveitingar úr nýbýladeild byggingar- og landnámssjóðs, og ennfremur, að nýbýlanefnd geri till. um, hverjir skuli fá lán úr byggingar- og landnámssjóði, en það tvítekur nákvæmlega það sama, eins og allir hljóta að sjá. Ef það er ekki hortittur, þá veit ég ekki, hvað er hortittur. Það er alltaf varhugavert að bera fram brtt. við lagaflokka, sem eru heild eins og þessi. Það kemur þá oft röskun á sambandið. — Ég ætla svo ekki að tala meira um þetta.