13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Það fer fjarri því, að mér detti í hug, að hv. þm. Borgf. taki nokkuð aftur af því, sem hann hefir sagt. Ég man ekki til, að þessi hv. þm. hafi nokkurn tíma tekið aftur það, sem hann hefir einu sinni sagt, hvort sem það hefir verið rétt eða rangt. Ég er ekkert að álasa honum fyrir þetta, — fjarri því. Að sumu leyti munu skoðanir okkar eigi mjög ólíkar um það atriði, hvort ákvarðanir þær, sem hér er um að ræða, skuli bornar undir landbrh. Ég álít, að yfirleitt ætti ekki svo að vera. En samkv. frv. eiga styrkveitingar til nýbýla að vera komnar undir dómi ráðh., og eru það fjármunir eigi svo litlir. Ef ráðh. er of pólitískur til þess að ráðstafa einhverjum fjármunum, stundum meiri, stundum minni, til endurbygginga bæja í sveitum, þá getur hann alveg eins verið pólitískur þegar um er að ræða að veita þennan styrk til manna, sem reisa nýbýli. Ég hefði kunnað betur við, að hv. landbn. hefði ekki haft nein slík ákvæði í frv. Vitanlega hefði verið hægt að láta veitingu þessara fjármuna vera undir mati annara manna komnar, og það þurfti ekki annað en tiltaka sérstök skilyrði, sem þeir yrðu að uppfylla, sem styrksins ættu að verða aðnjótandi. Ég ætla þó eigi að standa í vegi fyrir þessum ákvæðum eins og sakir standa. Þessi löggjöf á vafalaust eftir að taka ýmsum breyt., eftir því sem reynslan leiðir í ljós, þegar farið er að framkvæma hana, og því getur maður látið sér hægt, þó eitthvað kunni að vera annað heppilegra heldur en þar er tiltekið. Þó þessi umræddu ákvæði kunni að vera óheppileg að einhverju leyti, þá dettur mér ekki í hug að telja þau háskaleg á nokkurn hátt. Ég held, að það sé hæpið hjá hv. þm. Borgf. að telja það beina undantekningu, að við tökum með í brtt. nýbyggingar á nýbílum og samvinnubyggðum, þó þær hafi áður verið nefndar í gr. Þær koma þarna í nokkurskonar áframhaldi af nýbyggingum á eldri jörðum og falla undir það sama, svo það er ekki alveg tilgangslaust að setja þetta þannig fram. Hinu dettur mér ekki í hug að bera á móti, að með betri tíma hefði mátt koma þessu öðruvísi og betur fyrir.

Ég ætla svo, úr því að ég stóð upp, að víkja nokkrum orðum að hv. þm. Mýr. Hann sagði, að það ætti að koma undir úrskurð ráðh., þegar styrkur væri veittur til nýbýla. Nú er þetta með ýmsu móti; stundum getur verið aðeins um styrk að ræða til nýbýlings, en ekki lán, stundum aftur á móti aðeins lán, og þá kemur ekkert til kasta ráðh. eftir till. hv. landbn. Nú er talað um einhverja skiptingu á sjóðnum, þó ekkert komi fram um það af hálfu n., hvernig sú skipting eigi að vera. Það er fjarri því, að ég hafi nokkuð á móti því, að sjóðnum sé skipt, en ég álít að öllu leyti miklu heppilegra, að báðar deildir hans séu þá undir sömu yfirstjórn. Með því móti á sú yfirstjórn hægara með að gera sér grein fyrir nauðsyn hvers einstaks erindis, sem berst til beggja deilda sjóðsins. Aftur á ræktunarsjóðurinn, sem hv. þm. minntist á í þessu sambandi, ekkert skylt hér við.

Það fer fjarri því, að ég geri þessar till. að stóru atriði. Ég sé í hendi mér, að þessi löggjöf verður tekin til endurskoðunar og breyt. áður en langt um líður, og gerir þá ekki mikið, þó þetta atriði bíði þangað til. En að vera með stóryrði slík sem hv. þm. Borgf. viðhafði hér um svona till., það tel ég allt of mikla orðgnótt. Hvað það snertir, að nýbýlastjóri eigi aðeins að vera sendisveinn milli nýbýlanefndar og ráðh., sem ekkert hafi að segja þegar til ákvarðana kemur, þá tekur það jafnt til till. landbn. eins og till. okkar. Samkv. báðum till. á hann að vera milligöngumaður; það er ætlazt til, að þessir aðilar beri ráð sín saman, en ef þá greinir á, verður ráðh. að skera úr, eftir hvorum till. sem farið er.