13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég var því miður ekki við 2. umr. þessa máls sökum lasleika. En út af þeim umr., sem nú hafa farið fram, get ég tekið undir það, að þetta úrslitaatkvæði ráðh., sem deilt er um, sé ekki heppilegt. Og mér finnst óþarfi að ganga þannig frá frv., að skipta eigi um þessa nýbýlanefnd á þriggja ára fresti; mér sýnist það vera eins og stílað upp á það, að pólitíska valdið, sem ráðandi er í landinu í hvert sinn, geti skipað sína menn til þessa starfs. Þegar svo á að leggja úrslitaatkv. um allar lánveitingarnar í hendur ráðh., þá virðist mér beinlínis stefnt að því að gera pólitíska valdið alráðandi á þessu sviði. Þó þetta yrði á engan hátt misnotað, mundi samt ávallt liggja sterkur grunur á, að menn yrðu að sæta misjöfnum kostum vegna skoðana sinna, ef svona er í pottinn búið. Það tel ég mjög óheppilegt, auk þess sem ráðh. gæti, ef hann vildi svo við hafa beitt valdi sínu til þess að útiloka beinlínis pólitíska andstæðinga frá þessum lánum. Mig undrar, að svona ákvæði skyldu fara hér gegnum 2. umr., og ég skil ekki, úr því hæstv. forseti viðurkennir hættuna, sem í þessu felst, að hann skuli óska að færa þetta út á víðara svið. Mér finnst hans afstaða ætti að vera sú, að hann vildi ekki ganga skör lengra heldur en þegar hefir verið gert í þessu efni, en notaði fyrsta tækifæri til þess að taka höndum saman við aðra, sem óttast þetta, til þess einmitt að nema þennan agnúa úr lögunum. — Ég vildi aðeins benda á þetta, að mér finnst þarna kenna ósamræmis hjá hæstv. forseta. Vænti ég þess vegna, að brtt. hans nái ekki fram að ganga, því hún mundi verða til að tefja það, að fellt verði burt þetta atriði í frv., sem vægast sagt getur orðið stórhættulegt.