19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Pétur Magnússon [óyfirl]:

Það er sjálfsagt tilgangslítið fyrir okkur Ed.-þm. að vera að taka til máls um nokkuð af þeim stórmálum, sem hrúgast nú að deildinni þessa síðustu daga. Vinnubrögðum þingsins er nú þannig hagað, að flest stærstu málin hafa komið síðan um helgi, þó þingið sé búið að sitja marga mánuði á rökstólum. Þar af má nefna frv. um alþýðutryggingar, frv. til framfærslulaga og frv., sem hér er til umr., sem öll hafa komið til Ed. eftir síðustu helgi, og þó er gert ráð fyrir, að þinginu verði slitið á laugardag. Þetta er farin að verða hættuleg bending um það, hvað gersamlega áhrifalausir við Ed.-þm. erum orðnir um úrslit hinna mikilvægustu mála, því þó að segja megi, að við getum komið með brtt., þá eru rær í fyrsta lagi allar strádrepnar — ég tala nú ekki um frá stjórnarandstæðingum —, og auk þess erum við látnir vita, að við getum sparað okkur ómak að bera þær fram, það sé þýðingarlaust, því að þær verði felldar. Með þessu er Ed. gerð að tómri málamyndastofnun. En þetta fyrirkomulag brýtur algerlega í bág við grundvallarskipun þingsins, að báðar deildir hafi sömu áhrif á úrslit mála. Það er algerlega óþolandi, að önnur deildin sé gerð að einhverskonar minni háttar stofnun. Ég leyfi mér því að beina þeirri áskorun til hæstv. forseta, sem er gamall Ed.- þm., að hann hlutist til um það, að þetta eigi sér ekki stað framvegis. — En þrátt fyrir það, að mér er fullkomlega ljóst, hvað það hefir litla þýðingu að vera að tala í þessu máli, þá til ég samt með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til frv.

Frsm. landbn. gat þess, að við yfirlestur frv. sáum við margt, sem betur mátti fara, en þar eð við vissum, að þýðingarlaust var að flytja brtt. við frv., þá varð það að samkomulagi að láta slíkt undir höfuð leggjast. því að ekki þótti eyðandi tíma í að gera aths. við ágalla formsins, heldur ágalla málsins í heild, efni þess.

Það eru aðallega tvö eða þrjú nýmæli, sem koma fram í frv.: 1. að setja reglur um skilyrði til nýbýlastofnunar. 2. að leggja fram styrk úr ríkissjóði til stofnunar nýbýla. 3. að setja ákvæði um stofnun samvinnubyggða.

Skilyrði til stofnunar nýbýla eru m. a. þau, að rannsókn fari fram áður en til framkvæmda kemur, að athuguð séu náttúruskilyrði, að afstaða býlanna til markaðs og samgangna sé þannig, að líkur séu til þess, að framleiðslan geti borið sig.

Tilgangur þessarar löggjafar er einkum sá, að stöðva fólksstraum úr sveitunum til sjávarins, sem gætt hefir nú um langt skeið. Með tilrauninni til að fjölga býlunum á að tryggja afkomumöguleika þeirra, sem í sveitunum búa, og um leið að taka móti hinni árlegu fólksfjölgun í sveitunum.

Nú liggur í augum uppi, eins og ástandið er hjá atvinnuvegum í kaupstöðum landsins, að það er fyllsta nauðsyn til að hefta hinn öra straum fólksins í kaupstaðina. Atvinnuvegir kaupstaða og sjávarþorpa eru langt frá því nægilegir til að veita lífsframfæri öllum þeim, sem koma til kaupstaðanna og ekki hafa annað að byggja á. Ég þarf ekki að lýsa afleiðingunum af því, ef fólkið heldur þannig áfram að flytja úr sveitunum. — Það eru ekki skiptar skoðanir um það, að eitthvað verður að gera til að bæta aðstöðu þeirra manna, sem í sveitunum búa, svo að þeir telji sér fært að búa þar áfram.

Ég hefi orðið þess var, og sérstaklega hjá bændum, án tillits til stjórnmálaskoðana, að þeim finnst hæpin braut að verja fé úr ríkissjóði til þess að stofna nýbýli, meðan fleiri og færri býli leggjast í eyði. Þessir menn segja, að fyrst eigi að stöðva það, að gömlu býlin fari í eyði, og síðan að auka býlafjöldann. Mér er það ljóst, að þessir menn hafa nokkuð til síns máls, því að sannleikurinn er sá, að það gengur svo, að á hverju ári leggjast býli í eyði, og nú tugir, ef ekki hundruð komin í eyði, og það í sveitum, sem hafa bezta aðstöðu til þess, að búskapur geti borið sig, sveitum, sem liggja vel við samgöngum og njóta góðs markaðar, eins og t. Árnessýsla. En ég veit, að þar hefir mjög borið á þessu, að býli hafa lagzt í eyði. Þetta er sorglegur sannleikur, og hættan fer vaxandi með hverju ári, og sýnir þetta bezt, hvað sú stjórnarstefna, sem nú er ríkjandi, er bágborin, og hefir a. m. k. annar stjórnarflokkurinn, sem með völd fer, talið það efst á stefnuskrá sinni að styðja landbúnaðinn. En þetta ástand í sveitunum sýnir, hversu sorglega þessir menn hafa skotið framhjá marki, að það skuli fara með hverju ári versnandi afkomumöguleikar þeirra manna, sem þessa atvinnugrein stunda.

Það liggur í augum uppi, að þessi nýbreytni, að stofna með aðstoð ríkisins nýbýli í sveitum, verður því aðeins að gagni, að breytingin í sveitunum verði til þess, að atvinnugreinin geti borið sig. Ef það heldur áfram eins og á undanförnum árum, að allur þorri bænda verði að reka búskap sinn með tapi, þá er vonlaust um, að nýbreytnin verði að því gagni, sem allir óska, að hún geti orðið.

En þrátt fyrir það, að ég sjái vel, hvað mikið þeir hafa til síns máls, sem fyrst vilja stöðva það, að gömlu býlin leggist í eyði, þá hika ég ekki við að ljá frv. fylgi mitt. Ég geri það af því, að mér er það ljóst, að það er lífsnauðsyn fyrir þjóðina í heild að stöðva strauminn til sjávarins, því að það vofir yfir þorra þeirra, sem til sjávarins flytja, ekkert annað en atvinnuleysi, og getur endað í bókstaflegri neyð. Og þó það sé svo, að mörg gömul býli hafi farið í eyði, þá er ég ekki sannfærður um, að þessi tilraun geti ekki komið að einhverju gagni, jafnvel að óbreyttum þeim kringumstæðum, sem nú eru. Ég byggi aðallega á því, að ætlazt er til, að rannsókn fari fram á möguleikum fyrir því, hvernig búskapurinn getur bezt borið sig á þessum býlum. Sannleikurinn er sá, að við rennum blint í sjóinn, hvaða tegund landbúskapar á bezt við á hverjum stað á landinu; við vitum ekki, hvaða grein innan landbúnaðarins er bezt að stunda, hvort heldur sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu eða garðyrkju. En með því að rannsaka, hvaða tegund landbúskaparins er heppilegast að stunda á hverjum stað, þá ætti það ekki að vera svo lítill ávinningur, náttúrlega með því móti, að það sé meira en tómt kák og rannsakað sé til hlítar, hvort hægt sé að reka með hagnaði eina tegund búskaparins á sérstökum stöðum.

Þar að auki álít ég, að ekki sé útilokað, að samvinnubyggðir geti þrifizt, sérstaklega þar, sem er einvörðungu mjólkurframleiðsla og sparnaður getur verið að því, að menn vinni saman, en ekki eins og nú hver út af fyrir sig. Menn geta t. d. sameinazt um verkfærakaup, og það er ekki lítið kapítal, og fleira mætti benda á. Hinsvegar er mér ljóst, að árangur þessa máls veltur ekki fyrst og fremst á löggjöfinni, heldur á því, hvernig hún verður framkvæmd.

Þá er annað atriði, sem ég vildi leggja höfuðáherzlu á, að ýtarleg og gagngerð rannsókn færi fram á öllum skilyrðum og aðstöðu, þar sem hugsað er til nýbýlastofnunar, svo fénu sé ekki kastað á glæ þangað, sem búskapur getur ekki staðið á eigin fótum. Því þessi höfuðatvinnuvegur, landbúnaðurinn, jafnþýðingarmikill og hann er, verður að standa á eigin fótum, enda enginn annar atvinnuvegur, sem getur komið honum til hjálpar. Hitt höfuðatriðið, sem ég vil leggja áherzlu á, er, að ekki sé flaustrað að neinu, en farið sé að öllu gætilega, því það mun vera hyggilegast að láta reynsluna kenna, hvað bezt er, með því að prófa sig áfram , — leggja ekki í byrjun í mikinn kostnað fyrir ríkissjóðinn, en ef þetta gefst svo vel, að útlit sé fyrir, að það geti orðið arðvænlegur atvinnurekstur, er betra að auka framlagið síðar en að fara of geyst af stað. Nú er áætlað til nýbýla 180 þús. kr. sem styrkur úr ríkissjóði. Ég tel þetta of geyst byrjað. Ef veittar eru 3 þús. kr. til hvers býlis, held ég, að nóg væri að byrja með 20 býlum, en auka svo við, ef reynslan verður góð. Nú getur sannarlega enginn sagt fyrirfram, hvernig um þessi mál skipast og hvaða breyt. reynslan kann að sýnn að nauðsynlegt verði að gera í sambandi við stofnun nýbýlanna. Og þar sem til þess er ætlazt, að vel sé til þeirra vandað, er vissast að fara gætilega meðan engin reynsla er fengin. En eftir 1—2 ár, þó það sé ekki langur tími, færi þó dálítið að koma í ljós, hvernig gengur og hvort þeir, sem býlin taka, muni rísa undir kostnaðinum af stofnun þeirra.

Mér er vitanlega ljóst, að þýðingarlaust er að vera að tala um málið nú, en fannst rétt að lýsa þessari afstöðu minni áður en frv. verður afgr.