04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

1. mál, fjárlög 1936

Ólafur Thors:

Þm. S.-Þ. svara ég að sjálfsögðu litlu, því þeim fækkar stöðugt, sem taka hann alvarlega. Að því leyti sem þessi maður beindi vanstilltum orðum til mín, var viðkvæðið þetta: Ólafur Thors, nei, ekki Ólafur Thors, en hans nánustu hafa o. s. frv.

Ég get ekki rakið ættartölu þessa hv. þm. og þekki ekki hans nánustu, enda sé ég ekki, að gagnrýni á ættingjum þingmanna skipti verulegu máli í þjóðmálunum.

En annars voru mínir nánustu, a. m. k. að því er snerti Gismondisamningana, sem þm. hneykslaðist mest út af, nokkuð margir, þ. a. m. Helgi Guðmundsson bankastjóri, sem fast stóð að þeim samningum. Og hitt þykir náttúrlega ekki tíðindi, þó að launakjör minna nánustu séu meira en helmingi lægri en hann sagði. En hvað heldur þessi maður, að hægt sé að bjóða þjóðinni? Sjálfur er hann nýkominn úr 5 mánaða lúxusflakki a lúxusbíl milli stórborga álfunnar, frá lúxushóteli til lúxushótels. Og nú er hann byrjaður að níða aðra menn. sem vinna frá morgni til kvölds allan ársins hring. fyrir að hafa viðlíka árslaun og hann sjálfur eyðir í lúxusflakk á fám mánuðum. Sannast sagna verkar þetta á mig á svipaðan hátt og þegar hann nýverið brigslaði mér um, að ég væri eitthvað geggjaður.

Hv. þm. lauk rugli sínu með að segja: „Það er stutt mynd, sem ég get sýnt þjóðinni, — en segir þó nokkuð.“

Þetta er satt. Myndin var stutt og ljót, — mynd af myrkri sál, — mynd af honum sjálfum. Ræða hv. atvmrh. lá alveg utan við mín ummæli, og ráðh. greip nú til þess, sem hann er ekki vanur að gera, svo að mjög sé áberandi, — hann sneri út úr og svaraði út í hött.

Þegar ég bendi á, að ekki sé hægt að bæta úr atvinnuleysinu með því að auka saltfiskveiðar meðan saltfiskurinn sé óseljanlegur, svarar ráðh. með því að sanna það, sem ég áður hefi margsýnt, að þegar í stað og markaðirnir opnast, verða Íslendingar að hefjast kröftuglega handa um að endurnýja flotann, og læzt með því vera að afsanna mitt mál.

Þegar ég ræðst á ráðh. og sýni og sanna, að stj. sé búin að drepa niður framtak einstaklingsins, — þegar ég sanna, að þær framkvæmdir, sem ríkið í vankunnáttu og vanmætti er að basla við, séu ekki virði þeirra klyfja, sem fyrir þær eiga á almenning að leggjast, vegna þess að þessir nýju skattar draga úr stórhug þjóðarinnar til þess að ryðja nýjar brautir, — þegar ég krefst þess, að þjóðin fái að vera í friði fyrir stjórnarvöldunum um atvinnureksturinn, jafnt þann, sem til þessa hefir staðið undir þörf þjóðarinnar, sem hin nauðsynlegu nýmæli, þá segir ráðh., að ég krossi mig á brjósti og vilji ekkert gera, af því að ég vil, að það sé þjóðin sjálf, sem gerir allt, en ekki ríkisstjórnin.

Hv. ráðh. er talinn meðal hinna prúðari manna í liði stjórnarinnar, og hafa blóð okkar sjálfstæðismanna haldið því á lofti. En ég verð að játa, að þessi hv. ráðh. verður erfiður andstæðingur, ef hann notar þetta skjól til að snúa út úr, rangfæra og blekkja, eins og hann nú hefir gert.

Ég kem þá að aðaldeilunni um greiðslujöfnuð. Hv. fjmrh. sagði, að ég hefði túlkað rangt ummæli hans. Ég las orðrétt. Ég túlkaði ekkert. Ég Iét áheyrendur dæma, en ef íslenzk orð þýða sama í hans munni og annara, þá er alveg tvímælalaust, að hann lofaði að tryggja greiðslujöfnuð. enda þótt útflutningurinn yrði aðeins 40 millj. og innflutningurinn því þyrfti að vera 32 millj.

Nú er grobbið horfið. Nú vill Eysteinn Jónsson látast aðeins hafa sagt, að hann hefði aðeins vonað, að langt yrði komizt um greiðslujöfnuð um áramót, og þó með ýmsum efnum, þ. e. a. s. hvort útflutningurinn stæðist áætlun. Ég skal gera ráðh. til geðs að láta sem ég trúi honum. Hann hafi aðeins sagt þetta.

En er þá langt komið að greiðslujöfnuði? Það er svo langt komið, að það hefir aldrei verið fjær, því það vantar 11 millj. á greiðslujöfnuð á þessu ári.

Og eru það þá ef-in, sem brugðizt hafa? Nei, ráðh. gerði ráð fyrir aðeins 40 millj. króna útflutningi, — en fékk 46.

Ráðh. sagði, að ég hefði krafizt að ríkisstj. segði af sér út af þessu. Nei. ég krafðist, að hann færi sjálfur, og hann getur ekkert bjargað sér með að reyna að hanga á hinum, þeir eiga nóg með sig.

Þessum útvarpsumr. er nú að verða lokið. Við sjálfstæðismenn höfum nú enn á ný reynt að opna augu þjóðarinnar og birta henni útsýn yfir ástand og horfur atvinnu- og fjármálalífsins. við höfum sannað, að hér er allt að komast á kaf í skuldafenið, jafnt einstaklingar sem ríki. Við höfum sannað, að búið er að brjóta niður dug og framtak einstaklinganna, að atvinnuleysið fer vaxandi og horfur eru á, að eymd og sultur verði nærgöngul. Við höfum sannað, að allt er þetta ávöxtur annarsvegar af óhófseyslu valdhafanna á undanförnum árum, og hinsvegar af illu hugarfari þeirra í garð atvinnulífsins, og við höfum sannað, að ríkisstj., sem nú fer með völdin, sér engin ráð til þess að rétta þetta við, annað en það, að hlaða niður sköttum á þá, sem eru að sligast undan gömlu skottunum. Með skýrum og ótvíræðum rökum höfum við fært sönnur á það, að þær spár, sem við á undanförnum árum höfum í frammi haft og kallaðar hafa verið hrakspár, hafa reynzt sannar, og að nú er svo komið, að rústirnar blasa beint við. Og við þetta er í sjálfu sér engu að bæta, því þeir menn, sem enn ekki sjá þetta, þeir eru blindir og sjá það aldrei, fyrr en þeir þreifa á naglaförunum, þ. e. a. s. kenna sultarins. Og við þá þýðir náttúrlega ekkert að ræða, en við hina, við alla hugsandi og velviljaða menn í öllum flokkum, vil ég segja það, að ég hygg, að tíðindi séu í vændum. Til þess benda svívirðingar þær, sem stjórnarblöðin flytja nú daglega hvort í annars garð. Til þess bendir frv. sósíalista um aukna togaraútgerð í því skyni að aflétta atvinnuleysi, enda þótt vitað se, að saltfiskurinn er óseljanlegur, og til þess benda mörg önnur svipuð mál sósíalista. Og til þess bendir, að Framsfl. er nú síðustu dagana að herða róðurinn, og vekur það nátturlega undrun og jafnvel bros, þegar flokkur ráðh., sem varð að undirskrifa hina auðmýkjandi skuldbindingu gegn erlendum lánardrottni um að freista þess ekki einu sinni að fá nein lán, skuli nú keppast við að flytja frumvörp um nýjar framkvæmdir, sem kosta eiga milljónir og greiðast með lántökum.

Allt þetta og margt fleira bendir til þess, að kosningar muni vera í vændum. mér er að vísu ljóst, að stjórnarliðið hugsar sér að sitja meðan sætt er, en hitt hygg ég sé rétt, að þegar rústirnar blasa svo berlega við, að ekkert er um að villast, þá muni þeir ætla sér að skilja, kenna hvorir öðrum um ófarirnar og leggja til nýrra kosninga.

Ég verð nú að vísu að játa það, að mér fer eins og sjálfsagt svo mörgum öðrum, að ég finn hjá mér nokkra tilhneigingu til að krefjast þess, að þeir menn, sem lagt hafa allt í rústir fari með völdin meðan verið er að súpa seyðið af verkum þeirra. Mér finnst réttlátt, að þeir, sem brotizt hafa til valda með því að gera kröfur til annara, hærri og meiri en undir verður risið, þeir, sem með þessu framferði hafa drepið niður atvinnulíf landsins, en lyft sjálfum sér í öndvegi, að þeir sjái nú þjóðinni, hvernig leysa megi örðugleikana, hvernig fullnægja eigi krofunum, sem þeir sjálfir hafa kennt fólkinu að gera, hvernig alþýðunni farnaðist þegar bölvaðir burgeisarnir eru að þrotum komnir, hvernig eigi t. d. að reka útgerðina fyrir verkalýðinn, en ekki eigendurna, í því skyni að sjómenn fái góða atvinnu, án hliðsjónar til afkomu eigendanna o. fl. o. fl.

Mer finnst réttlátt, að valdhafarnir leysi allar þessar gátur og sýni þar með, hvort þeirra fyrri boðskapur var sannur og réttur, og traustið, sem lyfti þeim til valda, var verðskuldað, eða hvort fólkið sá þá í hillingum tylliloforðanna, — hvort það verður farsæld og blessun, sem marka valdaferil þeirra, eða fátækt, eymd og bölvun.

Ég veit, að á þessa leið hugsa margir flokksbræður mínir, og það er eðlilegt, m. a. af því, að þeir líta svo á, að með öllu sé vonlaust um viðreisn, fyrr en þjóðin er búin að fá raunhæfa þekkingu á afrekum valdhafanna. Hinsvegar mun margur mala, að þegar Héðinn Valdimarsson er farinn að krefjast þess, að skipin hætti veiðum, meðan fiskur er um allan sjó, og þegar Jónas Jónsson er farinn að tala um að spara, þá muni óhætt að treysta því, að fólkið hefir fengið sinn lærdóm, sé búið að sjá og þreifa á naglaförunum, og þá mun margur telja, að kallið og skyldan sé komin að Sjálfstfl.

Ég viðurkenni fúslega, að það væri fásinna af Sjálfstfl. að telja sig sjá örugga leið til að leiða þjóðina út úr þeim ógöngum, sem stjórnarliðið hefir fært hana í, og mér er fullkomlega ljóst, að það er allt í óvissu, hvort nokkur mennskur máttur megnar að bæta fyrir það, sem orðið er, svo þjóðin biði þessa ekki varanlegt tjón. En samt sem áður er flokkur eins og Sjálfstfl. skyldugur til að minnast hins, að það er aldrei með vissu hægt að segja, hverju góðu má til leiðar koma, ef allir beztu menn þjóðarinnar leggja saman vitsmuni sína og þekkingu. í þeim einlæga ásetningi að láta gott af sér leiða, og Sjálfstfl. mun þess vegna aldrei víkjast undan þeirri skyldu að taka á sig þunga örðugleikanna og ábyrgðarinnar og reyna að lyfta þeirri byrði, sem aðrir hafa lagt á þjóðina, en reyndust sjálfir ekki megnugir að bera. Fari það því svo, að kosningar verði bráðlega, og það tel ég líklegt, og fari það svo, að Sjálfstfl. verði þess var, að mikill þorri þjóðarinnar stendur að baki honum, einnig margir þeirra, sem áður hafa treyst andstæðingum okkar, þá mun flokkurinn finna til síns eigin máttar og þess afls, sem að baki honum stendur, og hiklaust taka upp baráttuna við sérhvern örðugleika, í þeirri von og vissu, að meðvitundin um það, að nú sé barizt fyrir lífi og frelsi þjóðarinnar, auki honum ásmegin og efli svo krafta hans, að grettistökin verði viðráðanleg.

Þess vegna, góðir sjálfstæðismenn, og þið aðrir, sem þreyttir eruð á sviknum loforðum, sligaðir af skottunum og skelkaðir við skuldirnar, verið viðbúnir, því ófriður er í aðsigi. Búið ykkur undir bardagann, því barizt verður um frelsi þjóðarinnar.