06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

131. mál, alþýðutryggingar

Magnús Torfason:

Sakir þess, hvað merkilegt mál er hér um að ræða, þá þykir mér rétt að breyta út af venju minni og gera grein fyrir atkv. mínu. Sumt af því, sem hér er lögboðið um og sett í kerfi, eru gamlir kunningjar, svo sem slysatryggingarnar og ellitryggingarnar. En það nýja í þessum l. eru sjúkratryggingarnar og atvinnuleysistryggingarnar. Að því er sjúkratryggingarnar snertir, þá eru þær þó til í landinu og hafa verið viðurkenndar af því opinbera, svo að það er nokkur reynsla fengin að því er þær tryggingar snertir. Það er enginn vafi á því, að þær eiga vel við, sérstaklega þar, sem fjölmenni er, og því fremur sem þar virðist vera að verða örðugra og örðugra að sjá um sjúklinga í heimahúsum. Það hefir verið ýmislegt sagt um þessi mál, og m. a. lögð áherzla á, að málinu sé hraðað óbærilega mikið. Ég verð að játa, að mér finnst fyrir mitt leyti ekki ástæða til að hraða málinu svo, að l. þurfi að ganga í gildi með næsta ári. Ég lít svo á, að hér sé um stórmál að ræða, og að það hefði verið rétt að lofa almenningi að kynnast málinu, og að um það hefði verið talað fyrir alþjóð manna a. m. k. á einum þingmálafundum, sem haldnir væru að sumarlagi, og beðið eftir því að fá till. manna um þessi efni. En ég verð hinsvegar að viðurkenna þann mikla fórnaranda, sem hv. jafnaðarmenn hafa sýnt í þessu máli. Með þessum tryggingarmálum fylgir það, að það verður að leggja talsverðan nefskatt á fólkið, jafnt fátæka sem ríka. En slíkir skattar hafa jafnan reynzt óvinsælir, og er óhætt að segja, að hver slíkur skattur, sem á hefir verið lagður, hefir jafnan tekið atkv. frá þeim flokki, sem hefir lagt hann á. Af minni reynslu get ég vottað það, að slysatryggingunum fyrstu var illa tekið af almenningi, og sem valdsmaður varð ég að beita töluverðri hörku til þess að innheimta þau gjöld. Það var vitanlega ekki vegna þess, að menn hefðu nokkuð á móti því að uppskera af þeim, heldur var það af því, að menn áttu að greiða nokkurn nefskatt til þess að verða þessara hlunninda aðnjótandi.

Mér hefir áður virzt, að menn væru allvarfærnir í því að demba nefsköttum á fólkið. Ég hefi sjálfur þá reynslu, að fyrir 16 árum, á þinginu 1919, leit þingið svo á, að jafnvel í því mikla velgengnisári væri ekki heppilegt, kjósendanna vegna, að hækka nefskatt nokkuð að ráði. Það, sem ég á við, er, að á þinginu 1919 bar ég fram frv. í Ed. um hækkun á gjaldi til ellitryggingasjóðs upp í 4 kr. á karlmann og 2 kr. á kvenmann, eða m. ö. o. að hækka það um helling frá því, sem það þá var. Á þeim tíma hafði kaup fólks hækkað svo mikið, að það nam miklu meira hlutfallslega en þessi 100% hækkun á gjaldinu til ellitryggingarsjóðs. Um þetta mál er það að segja, að það var samþ. með semingi í Ed., þar sem ég átti sæti, en Nd. sinnti því ekkert. Það var víst ekki svo mikið sem eitt orð sagt um málið. Því var vísað til n. snemma á þinginu, en það kom ekkert nál., og málið var látið liggja þar. Í samtali við n., er ég var að reyna að ýta á eftir málinu, kom það í ljós, að ekki þótti ráðlegt að hækka nefskatta á fólkinu. Ég skal taka það fram, að engin önnur ástæða var færð fram, því allir voru sammála um, að nauðsynlegt væri að styrkja ellitryggingarsjóðina. Menn sjá nú, að við hefðum verið betur settir í þessu efni, ef þetta hefði verið gert 1919. Að fróðra manna sögn, þá væru ellitryggingarsjóðirnir helmingi meiri en þeir eru nú. Ályktun mín af þessu er því sú, að fyrir 16 árum er enginn áhugi vaknaður fyrir tryggingum í landinu, jafnvel ekki á því háa Alþ. Það getur því ekki annað en glatt mig að verða var við, hversu mjög er um skipt í þessu efni. Og ég fagna því að mörgu leyti, að þetta frv. er fram komið, sem tekur svo fast á þessu máli. Hinsvegar hefi ég litið svo á, og þar verð ég að vera á sama máli og blessað íhaldið, að réttara hefði verið að fara sér hægar í þessu. En Sjálfstfl. hefir yfirleitt hallazt að aðalstefnunni í þessu máli, og ber mér því ekki að vera fyrir aftan sjálft íhaldið. Ég get því fylgt frv. bæði að því er snertir slysatryggingarnar, ellitryggingarnar og sjúkratryggingarnar, þó að ég sé ekki í vafa um, að örðug verði innheimtan á þessu gjaldi, og kemur mér það ekki á óvart, þó að nokkur þurrður verði þar á. Vitaskuld verð ég að játa, að ellitryggingarsjóðsgjaldið hefir innheimzt nokkurnveginn hingað til, þó að nokkur misbrestur hafi orðið á því á seinni árum. En nú þegar gjaldið er hækkað allmikið, þá er það sýnt, að innheimtan verður erfiðari og vanskilin meiri en áður. Það er sjálfsagt með tilliti til þess, að innheimtan á gjaldinu verður erfiðari, sem strikuð er út þessi litla þóknun, sem sýslumenn og bæjarfógetar fengu fyrir innheimtuna á þessu gjaldi, en það var 2%. Ég skal ekki harma það í sjálfu sér. Ég játa, að með launalögunum frá 1919 var hugsunin sú, að sýslumenn og bæjarfógetar hefði laun sín afskömmtuð, en væru ekki upp á „prósentur“. Þetta er réttmætt að þessu leyti. En í þessu sambandi vil ég geta þess, að það er að nokkru leyti tekinn réttur af þessum mönnum. Skrifstofufé þeirra er fastákveðið með l., með tilliti til aukatekna þeirra, sem þeir nú hafa, og að þessu leyti er gengið á gerða samninga. En þetta munar svo litlu, að það tekur því varla að tala um það. Ég vildi þó aðeins minnast á það hér.

Ég sagði áðan, að við hefðum haft nokkur kynni af sjúkratryggingunum, en þær eru ekki lögboðnar áður. En ég er í engum vafa um, að þær tryggingar munu þurfa breyt. við síðar meir, ef það gengur með þær hér líkt og í öðrum löndum. En úr því að farið var út í þessar tryggingar, þá mun rétt vera að taka þetta djúpt í árinni, ella koma þær að litlu liði.

Aftur á móti eru atvinnuleysistryggingarnar nýtt fyrirbrigði hjá þessari þjóð. Ég var minntur á það í sumar í viðtali við mann, sem þótti heldur í íhaldssamara lagi, að ég hafði út af því, að hnýtt var allmikið í atvinnubótastyrkinn, sem lagður var fram, sagt honum það, að ég teldi engin vandræði í því. En ég sagði honum það, að ég feldi það verra, ef þyrfti að taka upp atvinnuleysistryggingar eins og gert hefði verið í öðrum löndum. Ég lét þess getið, að við værum sælir meðan þess þyrfti ekki, og ég mundi vilja ljá aðstoð mína til þess að efla atvinnubæturnar, svo að það þyrfti ekki að koma fyrir. Ég játa, að ég hafði ekki búizt við því, að atvinnuleysistryggingarnar væru teknar hér með. Þær eru annars eðlis en hinn hluti lagabálksins og hefðu því vel mátt geymast. Ég hefði líka talið eðlilegt, að það hefði beðið vegna þess, að hér er öðruvísi ástatt en í öðrum löndum. Allar ráðstafanir og reglur um þessi efni verða að byggjast á okkar eigin brjóstviti og reynslu. Það er margt, sem gerir það að verkum, að það er alls ekki hrapandi að því að samþ. þær. Ég þarf ekki annað en benda á það, að við höfum hinn íslenzka vetur, sem við hofum alltaf haft. Það var talað um það í gamla daga, að nóvember, desember og janúar væru vinnuleysismánuðir. Það var talið þá, að menn yrðu að haga því svo til, að þeir gætu lifað þá mánuði án þess að hafa atvinnu. Þó að mikil breyt. hafi orðið á viðhorfinu, hvað þetta snertir, þá er það víst, að það er líkara hér því, sem það var í gamla daga, heldur en það er með öðrum þjóðum. Ég vil sérstaklega benda á, að sá maður einhleypur, sem hefir atvinnu allt árið, nema þessa 3 mánuði, á að geta fleytt sér fram þann tíma, þó að hann hafi litla eða enga atvinnu. Hér á landi verða menn að hafa hina gömlu reglu, að geta legið í híði yfir háveturinn, án þess að þeir hafi verulega atvinnu. Ég get ekki neitað því, að mér finnst bálkurinn lausari og losaralegri að því er þennan hluta snertir. Þetta er vorkunnarmál, því þetta er svo nýtt. Ég hefði þó haldið, að það væri sæmra af löggjafanum að taka fleiri atriði og ákveða þau nánar en hér er gert. Í þessum bálki er aðeins eitt ákvæði, sem ekki gæti verið reglugerðarákvæði. Ég játa, að það er eðlilegt, að í þessum bálki sé margt ákveðið með reglugerð. En ég hefði haldið, að það hefði mátt festa þetta betur en gert hefir verið. Þetta er ákvæðið um það, að veittur styrkur megi aldrei nema meiru en 3/4 af þeim launum, sem greidd eru í hlutaðeigandi starfsgrein á sama tíma. Þarna er aðeins skorinn 1/4 af fullum launum. Hvað þetta atriði snertir, þá mun óhætt að segja, að hvergi muni vera síður að láta menn fá meira en 3/4 af kaupi sínu sem atvinnuleysisstyrk, svo í raun og veru mun þess ákvæðis frv. ekki hafa þurft við.

Í næstu grein er minnzt á biðtíma, en í frv. er ekkert ákvæði um hann annað en það, sem í þeirri grein stendur, en það er einmitt það atriði frv., sem ég hefði haldið, að taka hefði þurft föstum tökum, eftir því sem ástandið er hér á landi, og ég fyrir mitt leyti myndi telja, að ef þetta atriði yrði ekki fastákveðið, þá sé málinu alls ekki sæmilega skipað.

Ég sagði áðan, að í þessu efni stæði öðruvísi á hjá okkur en með öðrum menningarþjóðum, við gætum alls ekki jafnað til annara þjóða um þessar tryggingar. En þó er það svo, að það er eitt atriði í þessu efni, sem við getum fest hönd á hjá öðrum þjóðum, en það er atvinnuleysið, hversu það er mikið. Ég hefi ekki átt kost á að kynna mér, hve mikið það er hjá hinum ýmsu þjóðum, en eftir síðustu skýrslum mun tala atvinnulausra manna í Danmörku vera um 3%. Þá minnir mig, að ég hafi séð það, að eftir síðustu skýrslum voru um 900 menn taldir atvinnulausir hér á landi, eða tæplega 1% landsmanna. Það munar því ekki svo litlu, hversu ástandið er betra hér en í Danmörku hvað atvinnuleysismálin snertir. Þegar litið er á þetta atriði frá því sjónarmiði, sem þessar tölur sýna, þá hefði ég haldið, að líta mætti svo á, að ekki hefði borið mjög bráðan að hendi með setningu þessara laga, en aftur á móti hefði mátt athuga, hvort ekki mætti fara lengra á þeirri braut, að auka atvinnu manna, og segi ég þetta sakir þess, að ég hefi spurt menn úr ýmsum flokkum um það, hvort þeir kysu frekar atvinnuleysistryggingar eða atvinnutryggingar, og voru allir, sem ég átti tal við um þetta, að undanteknum einum úr flokki sameignarmanna, á einu máli um það, að kjósa heldur atvinnutryggingarnar. Þetta styrkir mig í þeirri skoðun, að ekki sé nauðsynlegt að setja lagabálk um þetta efni nú, eða a. m. k. ekki á meðan ekki er útséð um, að unnt sé að sjá flestöllum atvinnubærum mönnum fyrir atvinnu í þessu landi. Jafnframt finnst mér, að því síður sé ástæða til þess að hrapa að þessari lagasetningu, þar sem hér í landi gilda mýkri lög um styrki frá hinu opinbera til snauðra manna en gilda munu yfirleitt annarsstaðar. Þannig höfum við t. d. nýlega ákveðið, að fátækrastyrkur svipti styrkþegana ekki borgaralegum réttindum. Samkv. því, sem ég nú hefi tekið fram, hefði ég talið rétt að athuga fyrst, hvort bæjar og sveitarfélögin hefðu ekki getað séð um fólk sitt upp á eigin spýtur, áður en horfið yrði að því að lögbjóða atvinnuleysistryggingar. Sömuleiðis hefði mér fundizt réttara og eðlilegra, að kröfurnar um þetta atriði hefðu komið neðan frá, en ekki ofan frá, — hefðu komið frá alþýðunni sjálfri, en ekki frá foringjum stjórnmálaflokkanna.

Að síðustu vil ég geta þess hvað málið almennt snertir, að sumstaðar erlendis hefir sú aðferð verið viðhöfð, að myndaðir eru miklir sjóðir, sem lagðir eru fyrir áður en tryggingarlöggjöfin sjálf er látin ganga í gildi. Þar voru tryggingarnar taldar svo mikið átak, að ekki þótti fært að leggja út í þær, nema áður hafi eitthvað verulega verið lagt af mörkum til þess að standa undir þeim.

Með þessu tel ég mig hafa gert grein fyrir atkv. mínu, en það taldi ég rétt í slíku máli sem þessu, og sérstaklega taldi ég þó rétt, að skoðun mín á atvinnuleysistryggingunum kæmi skýrt fram. Um brtt. þær, sem fyrir liggja, mun ég leiða hjá mér að tala. Mun láta atkv. mitt nægja hvað þær snertir.