06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

131. mál, alþýðutryggingar

Bergur Jónsson:

Aðeins örfá orð út af því, sem hv. þm. Snæf. sagði áðan. Hann virtist helzt kvarta yfir því, að ég væri ekki nógu langorður, og kom mér það hálfóvart, því að ég er ekki vanur því að vera með sérstaka mælgi hér á Alþingi. Hann undraðist það, að hv. þm. N.-Þ. sagði, að hér væri um stefnumál að ræða, en ég tel ekki, að neitt undarlegt geti verið við slíkt, — því er það kannske ekki stefnumál allra góðra manna að reyna að bæta úr atvinnuleysisbölinu? Hingað til hefir sú leið verið farin hjá okkur, að veita fé til atvinnubóta, en nú á að reyna þá leið að koma á atvinnuleysistryggingum. Þá er það ekki rétt hjá hv. þm.till. þær til breyt. á frv., sem við framsóknarmenn höfum gert að skilyrði fyrir fylgi okkar við alþýðutryggingarnar, séu þýðingarlausar. Ég tel alls ekki einskisvert atriði, hvort það er sett inn í frv., sem ekki var þar áður, að þeir menn, sem fá greitt hundraðsgjald af afla og hluti at afla, skuli ekki fá atvinnuleysisstyrk, en að slíkt teljist kaupgjald. Það er ekki heldur lítið atriði, sem bætt verður inn í frv., að hver sá einhleypingur, sem býðst vinna í sveit eða annarsstaðar gegn greiðslu, er nægi þeim til fulls lífsframfæris þann tíma eða hluta af þeim tíma, er gera má ráð fyrir, að hann verði atvinnulaus, skuli ekki heldur fá atvinnuleysisstyrk. Þá hefi ég og sjálfur borið fram brtt. þess efnis, að menn geti ekki fengið atvinnuleysisstyrk, sem nemi meiru en 2/3 hlutum af launum þeim, sem greidd eru í hlutaðeigandi starfsgrein á sama tíma, í stað þess sem frv. gerir ráð fyrir, að styrkurinn megi nema allt að 3/4 hlutum, miðað við kaup. Þetta eru ekki svo litlar breyt. á frv. frá því, sem það er nú. Þá eru og í brtt. ákvæði um það, að fjárveitingavaldið geti á hverjum tíma sett nokkrar skorður á hvað fjárframlög snertir. Í þessu öllu eru talsvert miklar hömlur, sem leiða til þess að koma frv. á skynsamlegri grundvöll en það stendur nú á.

Út af þeim ummælum, sem fallið hafa um það, að hér sé um stefnumál að ræða, vil ég taka það fram, að ég finn ekki mikinn eðlismun á því, hvort ríkið tekur upp þá leið, að koma upp stofnun, sem styrkt er einnig úr bæjar- og sveitarsjóðum, til þess að bæta úr atvinnuleysisböli manna, eða leggja árlega fram fleiri hundruð þús. til atvinnubóta. Eins og hv. þm. Snæf. sagði, þá er þetta vitanlega stefnumál hv. þm. N.-Þ. o. fl., en það má eins segja, að það sé og stefnumál hans sjálfs. Hann vill sjálfur bæta úr atvinnuleysi manna, eftir því sem hann hefir föng á, a. m. k. segir hann, að daglega komi til sín fleiri og færri menn í atvinnuleit, og hann reyni að bæta úr fyrir þeim sem honum er unnt. Hann getur því ekki áfellzt okkur framsóknarmenn, þó að við viljum gera hið sama, að reyna að bæta úr vegna atvinnuleysis manna, eftir því sem föng eru til.