06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (2572)

131. mál, alþýðutryggingar

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Mér þótti kynlega við bregða, er hv. þm. N.-Þ. fór að ásaka einstaka þm. fyrir að tala almennt um þetta mál eða vera með almennar hugleiðingar því viðvíkjandi. Satt að segja hélt ég að það væri þegjandi samkomulag um, að ekki væri aðeins rétt, heldur og líka skylt að geta jafnt skoðunar sinnar um stærstu atriðin almennt, hvort heldur væri við einstakar greinar eða kafla frv., sem, eins og þetta gerir, snertir hvern einstakling í landinu, jafnt í sveit og við sjó, og þess vegna ekki gerlegt að ræða um hana almennt, þar sem það tekur til fólksins og snertir almennt þess hag og verður ekki rætt nema koma inn á, hver áhrif samþykkt þessa frv. hefir almennt. Ég ætla því að leyfa mér að fara nokkrum orðum almennt um þetta mál, ekki sízt vegna þess, að þetta stórmál kemur fyrst fram á síðara hluta þingsins, og það mjög síðla á þeim hluta. En fullvíst er, að engin mál liggja fyrir þinginu jafnvandasöm, enda sannað, að þó undirbúningur hafi verið nokkur í orði, hefir hann ekki á borði fullnægt þeim kröfum, sem gera verður. Verður því að ræða þetta mál almennt, og til þess er full ástæða að athuga það vel áður en rasað er um ráð fram að samþ. það, eins og liggur næst að álíta, að þessi hv. þm. ætlist til.

Í öðrum löndum hefir fyrir löngu verið sett löggjöf um tryggingar, en það sannar alls ekki, að hér beri að setja alla þessa löggjöf í einu, enda á allra vitorði, að margar þær þjóðir, sem komið hafa á tryggingum. eru alls ekki ánægðar með þær, hvorki leiðtogarnir eða almenningur, og mjög er rætt um þessi bákn eða stofnanir, sem einstaklingarnir gjarnan vilja breyta til hagsmuna fyrir sig.

Á síðustu 10 árum veit ég ekki betur en á Norðurlöndum hafi t. d. ávallt og alstaðar verið látið hátt um þessi tryggingabákn, og hefir meira að segja komið til orða, hvort ekki væri rétt að afnema það, og setja eitthvað annað í staðinn. Svo er langt frá því, að menn séu ánægðir með þær, jafnvel í þeim löndum, sem lengst eru komin í þessum efnum; menn hafa bara ekki fundið eða komið sér saman um, hvað ætti að koma í staðinn.

Sést því, hvort ekki muni ástæða til að athuga vel þessi mál, sem eru á svo víðtækum grundvelli. Þetta mál hefir sem sé tvær hliðar. Aðra, sem veit að einstaklingnum vegna þeirra byrða, sem á hann eru lagðar, og hina, sem snýr að almenningi, eða félagsheildum almennings, t. d. sveitar- og bæjarfélögum. Það ber að líta á það hér, að það eru meira en lítið áberandi byrðar, sem eftir frv. þessu á að leggja á einstaklinginn, og það er gjald, sem ekki á að leggja á eftir efnum og ástæðum, heldur er þetta nefskattur, eða persónugjöld, sem allir verða að greiða jafnt, án tillits til efnahags, og þessu á að bæta ofan á alla aðra nefskatta.

Nú er það vitað, að allir nefskattar eru illa séðir allt frá gömlum tímum; hvort sem mönnum er það sjálfrátt eða ósjálfrátt, þá er öllum illa við þá, þó þeir séu stundum réttlátir, enda eigu þá allir gjaldendur að njóta sömu hlunninda. Er það meira en lítill yfirgangur eða ágangur að setja nú á slíka nefskatta, sem yfirstíga alla þá skatta, sem almenningur greiðir nú til ríkis, og þó er svo komið fyrir, að illa gengur með alla innheimtu á sköttum, svo sem vitað er, að ég ekki tali um þau gjöld, sem þyngri eru, þ. e. útsvörin, sem þessum nefsköttum er helzt líkjandi við. Ættu allir þm. að vita a. m. k., hve sú innheimta er erfið, og er mikil spurning, hve lengi er hægt að halda áfram, þar sem mikill hluti sveitagjaldanna er kominn í vanskil, og menn sjá nú ekki fram úr, hvernig á því megi ráða bót. Verður það og svo, þegar safnast fyrir gjöld til sveitarfélaganna í vanskilum hjá einstaklingum, að gjöld þeirra til héraðanna stöðvast. Þegar svo er komið um ástæður einstaklinga og hreppa, svo að meginþorri sveitarfélaganna er að komast á vonarvöl, og ennþá hefir Alþingi ekki séð þeim fyrir neinum tekjustofnum, - hvernig kemur mönnum þá til hugar að afgr. slíkt mál sem þetta aths.laust og án þess að stinga við fæti og athuga, hvar skuli stíga, alveg eins og hægt sé að skeiða áfram í blindni.

Ég skal taka dæmi, sem er þessu skylt. Eins og hv. þm. vita, er skylt samkv. l. að tryggja hús sín hjá Brunabótafélagi Íslands, og þar af leiðandi inna af hendi iðgjaldagreiðslur, sem alls ekki geta talizt háar frá almennu sjónarmiði, eða kannske svona 10 kr. á hvert býli. En viti menn, þetta eru alveg ný ákvæði, en það eru þegar mestu vandræði um innheimtu á þessum gjöldum, sem þó fara nokkuð eftir efnum og ástæðum, sem sé eftir mati á húseignunum, en eru ekki nefskattur, sem lagður er á eftir nafni eða persónu. Ég sé því ekki neina ástæðu til, né heldur neitt vit í því, að demba hugsunarlaust slíkri gjaldabyrði yfir þjóðina, sem hér er gert ráð fyrir. Það má vitanlega segja, að þetta mál sé svo þarft og gott, að vel megi leggja mikið í sölurnar fyrir það. En jafnframt og löggjafanum er skylt að meta tilganginn og dæma, verður hann og að líta á, hvort aðnjótendur eru þess umkomnir og ástand þeirra þolir að taka við því.

Ég er sömu skoðunar og þeir aðrir þm., sem hér hafa lýst þeirri skoðun sinni um einn bálkinn, þ. e. atvinnuleysistryggingarnar, að það sé alls ekki tímabært að samþ. hann, vegna þess að við erum ekki viðbúnir að taka við afleiðingunum. Má segja, að ástandið hér heima er allt öðruvísi en annarsstaðar í þessum efnum, svo það er að renna algerlega blint í sjóinn, hvernig þetta muni verka hér, og verður tími og skipulag að leiða það í ljós, hvort verið er að reisa hurðarás um öxl. En það getur vel komið fyrir, að allt um þrotni, ef ekki er hugsað um annað en bruðla ráðlaust, og eins ef það kynni að koma fyrir, sem mig uggir, að ekki standi allir í skilum, en ef ekki næst allt, sem ætlað er að fáist, þá er allt hrunið, öll áætlun brotnuð niður. Ég tel því, að mál þetta sé illa undirbúið, og það er t. d. ekki hægt að segja verkamönnum, hvernig þetta verði.

Ef við skoðum þetta mál frá báðum hliðum, og þá sérstaklega þennan kafla, sem er enganveginn tímabær, þá er engin leið að rökstyðja, hvort þetta kemur að tilætluðum notum. Það hefir verið sagt, að á síðustu stundu hafi myndazt samningur milli stjórnarflokkanna m. a. um þetta mál. Ég er nú ekki hörundssár fyrir því, þó að stjórnarflokkarnir geri samning, en það er ekki sama, hvernig þeir semja, þegar þess er gætt, að það snertir nálega alla, sem í sveitum búa, sjómenn, verkamenn og iðnaðarmenn, eða m. ö. o. hagsmuni þjóðarinnar allrar. Samningur þessi er mjög gálauslega gerður, þar sem þetta mál hefir ekki verið lagt fyrir þjóðina. (Fjmrh.: Það var gert við kosningar).

Ég hygg, að stjórnarliðar megi vara sig á slíkum aðförum; þó þeir séu sterkir og þykist fastir í sessi, þá geta þeir nú oltið eins og ýmsir aðrir, og vita ekki fremur en aðrir dauðlegir menn, hvort þeir standa fyrr yfir sínum moldum eða annara. Ég tel þetta hreint og beint gáleysi, að ætla að keyra þetta mál í gegn, bara vegna þess að samið var á síðustu stundu, svo að þeir geti hangið við stjórn ríkisins enn um stund.

Ýmsir menn í Framsfl. hafa sagt það bæði í mín eyru og annara, að þeir væru á móti atvinnuleysistryggingum. Þetta þýðir m. ö. o. ekki annað en það, að þeir hafa selt skoðun sína, eða það, sem verra er, því svo þekki ég suma þeirra, að ekki hafa þeir skipt um skoðun á fáum dögum. Þjóðin hefir ekki átt kost á að kynna sér þetta mál, hvorki þeirra kjósendur né aðrir, og má þó segja, að skylt væri að leggja það fyrir þjóðina, svo varðar þetta allan almenning í landinu. Ég veit raunar, að sósíalistar hafa gert sér far um að síma út um land og sagt sínum félögum að fá samþ. á fundum áskoranir til Alþingis um að samþ. þessa löggjöf, sem enginn þeirra hefir séð, og sé ég ekki annað en þetta sé byggt á hreinum svikum málefnalega séð. Þó ýms félög, sem símað hefir verið til úti um land og sagt hefir verið að lýsa samþykki á frv. þessu, hafi gert það, þá sé ég enga ástæðu, jafnvel ekki fyrir framsóknarmenn, að fara eftir því, þegar þeir vita, að um svona glæfralegar aðfarir er að ræða.

Mér skilst, að þessir flokkar vilji hanga á lýðræði, en mér virðist, að þetta sé ekki byggt á lýðræði eða þeir virði lýðræði nokkurs, þegar þeim kemur til hugar að keyra fram þetta mál með ofurkappi, sem leggur þungar byrðar á herðar almenningi. Þess vegna legg ég til, að þetta frv. verði ekki samþ. á þessu þingi, heldur verði látið bíða næsta þings og fólki þar með gefinn kostur á að kynna sér það og fengi eitthvað um það að segja. Ætla ég mér að gera tilraun til að beina málinu inn á aðrar brautir; hvort ég geri það nú við þessa umr. er ekki víst, eða ég bíð eftir að sjá atkvgr. við þessa umr. (BÁ: Vísa málinu til stjórnarinnar?). Ég mun freista þess að vísa þessum kafla frá með rökstuddri dagskrá við 3. umr., og finnst mér það vel við eigandi. Getur vel verið, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki tryggt sér nægt atkvæðamagn með frv. þessu, og væri þá betur farið en heima setið.

Ég get látið mér nægja þessar hugleiðingar, og tel ég á fullum rökum byggt, þó að talað sé á almennum grundvelli um mál þetta, og mun ég láta það óátalið af minni hálfu.