06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2581)

131. mál, alþýðutryggingar

Forseti (JörB):

Ég vil benda hv. þm. G.-K. á það, að þegar ég gaf það tilsvar, að ég hefði ekkert á móti því fyrir mitt leyti, að gengið væri til atkv. um kaflann, þá hafði enginn látið í ljós ósk um, að til atkv. væri gengið um hann. Ég lét þá í ljós, að ef á það yrði sætzt að ganga til atkv. um kaflann, gæfi ég það eftir, þótt það sé óvenjulegt og óþarft. En nú hafa komið fram andmæli gegn því. Og fyrst hv. þm. hafa ekki orðið ásáttir um þetta, er bezt að halda þeirri þingvenju, sem gilt hefir, og bera kaflann ekki undir atkv. (ÓTh: Hvað segja þingsköp um þetta?). Þau tiltaka ekkert beinlínis um þetta, en þegar greidd eru atkv. um hverja einstaka grein, ber að skoða kaflaskipti og fyrirsögn samþ. án atkvgr. Ég vil benda hv. þm. G.-K. á það, að það hefir komið fram brtt. við kaflann í heild, um að fella hann niður, og hún var felld, og þar að auki hefir hver einstök grein verið samþ. Þetta sýnir, að meiri hl. þm. vill, að kaflinn standi. Vil ég því mælast til, að hv. þm. haldi þessu ekki frekar fram.