11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

131. mál, alþýðutryggingar

Jónas Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég var einn af þeim, sem gerðist flm. þessa frv. og þar sem ég sé ekki, að neinn hv. þm. hafi kvatt sér hljóðs, þá finnst mér ekki rétt, að þagað sé yfir öllum þeim staðleysum og fjarstæðum, sem hv. þm. V.-Sk. jós út úr sér í þessari stuttu ræðu sinni. - Hann sagði, að með löggjöf þessari væri engu létt af bæjar- og sveitafélögum, heldur væri þeim með henni íþyngt á allan hátt. Ég verð að álíta, að ef þetta er mælt af heilum hug, þá stafi það af því, að hv. þm. hafi ekki einu sinni lesið frv., hvað þá að hann hafi gert sér nokkra grein fyrir því, hvernig þessi löggjöf mun verka. Hann veit ekki, að alstaðar þar, sem sjúkrasamlög hafa starfað, hafa þau létt þungum byrðum af bæjar- og sveitarfélögunum, og hér er reynslan hin sama með þá einu grein trygginga. slysatrygginguna, sem starfrækt hefir verið hér nokkuð að ráði. Hvað heldur hann, að sveitar- og bæjarfélögum hefði þurft að blæða vegna slysatilfella, ef slysatryggingin hefði ekki verið? Að sínu leyti nákvæmlega eins og þessum stofnunum blæðir enn í dag vegna elli- og sjúkrastyrkja, og gerir fátækraframfærið svo erfitt sem raun er á. Það er tiltölulega lítið, sem sveitarfélögin þurfa að greiða í fátækrastyrki vegna atvinnubrests, óhappa eða annars slíks. Langsamlega mest af framfærslukostnaðinum er elli- og sjúkratryggingar, og það er það, sem frv. á að létta af bæjar- og sveitarfélögunum. Frv. skipar fyrir um, að þessar tryggingar komi þegar til framkvæmda í 8 stærstu héruðum landsins, kaupstöðunum, og heimilar, að sjúkrasamlog séu stofnuð í kauptúnum og sveitum. Hvort sveitirnar telja sér eins mikla nauðsyn á þessum tryggingum, eftir að fátækralöggjöfinni hefir verið breytt, er ekki víst, því þau njóta mestra fríðinda vegna þeirra laga og þeim er ætlað að ganga fram á þessu þingi.

Þá vildi hv. þm. gerast bakhjallur framsóknarmanna, svo þeir þyrftu ekki að selja okkur Alþfl.mönnum frumburðarrétt sinn. Hann sagði, að rubbað hefði verið upp grg. um þetta frv. og að enginn hefði átt þess kost að kynna sér málið. Samt er það búið að liggja frammi frá því á öndverðu sumri; það var víst fullbúið í maí í vor. (GSv: Hvers vegna var því ekki útbýtt meðal þm.?). Frv. var útbýtt í haust, en það var fullbúið í vor. (TT: Því fengu engir að sjá það fyrr en í haust?). Það fengu allir að sjá það, sem vildu, en áhuginn hefir máske ekki verið mikill hjá öllum. (TT: Þm. vissu ekkert um frv.). Ég vil bæta því við, að þegar í stað er vinningur fyrir sveitar- og bæjarfélögin að fá ellitryggingarnar. Í staðinn fyrir það, að bæjar- og sveitarfélög hafa nú ekki nema 80 þús. kr. til þess að útbýta í ellistyrk meðal gamalmenna í landinu, þá eiga þau eftir frv. að fá til þess frá því opinbera á þriðja hundrað þús. kr., auk þess, sem þau sjálf leggja fram.

Hv. þm. segir, að frv. sé svo sáralítið undirbúið, að það eigi að vísa því frá með dagskrá. Að sjálfsögðu á að fella þá dagskrá. Þó einhverju kunni að vera ábótavant við tryggingalöggjöf þessa, þá grípur hún ekki það inn í líf þjóðarinnar strax, nema að því er snertir sjúkratrygginguna í kaupstöðum, að það komi nokkuð að sök, því það, hvort menn eru látnir greiða 5, 6 eða 7 kr. til ellitrygginganna, skiptir engu máli, en hitt skiptir meiru, að nú fæst svo miklu hærri upphæð til úthlutunar til gamalmenna en áður. Það vita allir, að hvert einasta heimili greiðir árlega í læknishjálp og meðul meira en frv. gerir ráð fyrir, að það greiði í hinn sameiginlega sjúkrasjóð, og það svo margfalt meira þau heimili, sem mikið hafa að greiða, að slíkt er ekki sambærilegt. Auk þess verða sveitar- og bæjarfélögin nú að hjálpa þeim, sem ekki geta sjálfir staðið straum af sjúkrakostnaði sínum, og ég er sannfærður um, að það er miklu meira en þau þurfa að greiða til þeirra trygginga samkv. frv.

Hér liggur auk þess fyrir þinginu annað athyglisvert frv. um tryggingu sjúkra manna og örkumla, sem ætlað er, að gangi fram, og það léttir einnig á sveitar- og bæjarfélögunum þeirri byrði, sem erfiðust er. (GSv: Þora sósíalistar að fylgja því frv.?). Já, vitanlega, og það kemst fram, ef sjálfstæðismenn ekki bregðast. (GSv: Ég hélt, að þar ætti að treysta á framsóknarmenn). - Ég læt hér svo staðar numið. Mér fannst ekki viðeigandi að taka þegjandi þessari gusu frá hv. þm. V.-Sk., enda lenti hún mest á mér, þar sem ég sat í mínu skrifarasæti, og þess vegna svaraði ég honum.