11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins segja örfá orð út af ræðu hv. þm. Snæf. um brtt. hans. Hann talaði um það m. a., hvað mikil gjöld yrðu af sjúkratryggingunum og öðrum þessum tryggingum í bæjunum. En ég vil aðeins benda á það, að hv. þm. sjálfur og ýmsir flokksmenn hans hafa samtímis verið að segja, að þetta frv. yrði til þess að draga menn úr sveitunum til bæjanna vegna hinna miklu hlunninda, sem menn nytu þar. Það samrýmist ekki vel, að gjöldin verði óeðlilega há í bæjunum, en þó þyrpist menn þangað til þess að komast undir þessi gjöld.

Annars mætti taka fleiri hliðar þessa máls. Við skulum t. d. athuga sjúkrakostnað hjá meðalverkamannafjölskyldu. Það kemur fjöldi af tekjuskattsframtölum til yfirskattanefndar hér, vegna þess, að ef um mikla sjúkdóma er að ræða, þá ber yfirskattanefnd að taka um það ákvörðun, hvort lækka skuli skattinn þess vegna. Og það eru svo miklir kostnaðarliðirnir vegna sjúkdóma, að 200 kr. kostnaður er talinn það venjulega. En það er sú upphæð, sem hv. þm. telur, að geti komið til, að menn þurfi að greiða fyrir meðalfjölskyldu.

Mér sýnist, að hv. minni hl. sé aftur kominn með þá till., sem hann var með síðast, að allir meðlimir sjúkrasamlaga skuli hafa rétt til að njóta þeirra hlunninda, sem þau veita. Mér finnst þetta brjóta í bág við það, sem hv. þm. var að tala um nefskatt. Hvað snertir sjúkrasamlögin, þá er það áreiðanlega ekki í nefskattaformi, að allir skuli gjalda til þeirra, en ekki aðrir njóta þeirra hlunninda, sem þau veita, heldur en þeir, sem ekki hafa hærri árstekjur en 4000 kr. eftir að persónufrádráttur hefir átt sér stað. En hv. þm. vill, að þeir, sem mestar hafa tekjurnar, njóti einnig hlunnindanna.

Viðvíkjandi hinum till. vil ég ekki segja annað en það, að þær eru yfirleitt til þess að draga úr. Og hvað snertir atvinnuleysistryggingarnar, sem hv. þm. er í sjálfu sér á móti, þá ætla ég ekki að fara neitt út í þær - okkur kemur þar ekki saman - að öðru leyti en því, að hann kemur með till. við 72. gr. um það, að stjórn atvinnuleysissjóðs skuli skipa þrír menn, einn tilnefndur af verkalýðsfélagi, annar af hlutaðeigandi bæjarstjórn eða hreppsnefnd og sá þriðji af atvmrh. Það er auðvitað allt öðru máli að gegna um atvinnuleysissjóði heldur en sjúkrasjóði í kaupstöðum, þar sem skyldutrygging er. Þar er eðlilegt, að stjórnin sé kosin af bæjarstjórn. En þar sem hér er ekki um skyldutryggingu að ræða, heldur geta þeir, sem uppfylla sett skilyrði, gengið saman í atvinnuleysissjóð, þá er engin ástæða til þess að skipa stjórn þessara sjóða á þennan hátt, sérstaklega þar sem meiri hl. allshn. hefir flutt brtt. um það, að öll starfsemi þeirra skuli sett undir eftirlit ráðh.

Þá var hv. þm. Snæf. mjög viss um það, að ef eitt félag væri á hverjum stað í hverri starfsgrein, þá yrði það til þess að tryggja yfirráð Alþflmanna. Ég tel það líka mjög líklegt, að Alþflmenn verði í meiri hl. hjá öllum þessum stéttum, sem mynda slíka sjóði, vegna þess að þeir eru yfirleitt fjölmennastir í verkamannastéttinni í bæjunum, en ég skil ekki, hvers vegna það ætti að skapa meiri kostnað og lakara skipulag, til þess eins að leyfa þeim, sem væru pólitískt á móti Alþfl., að vera sér með atvinnuleysissjóði, sem ekki ættu að koma nálægt pólitískum lit.

Þá sagði hv. þm. Snæf., að þetta frv. byggðist á nefsköttum og væri þess vegna óeðlilegt sem tryggingarfrv. Ég skil ekki vel, hvað hann á við með því. Ég hefi haldið, að nefskattar standi yfirleitt undir almennum tryggingum. Það er tryggingin, að menn borga ákveðin iðgjöld, sem ekki eru miðuð við efni manna, heldur tryggingarupphæðina. En það er þó farið öðruvísi að hér með alþýðutryggingarnar heldur en víða annarsstaðar, því það er létt undir með hverjum, sem greiðir sitt iðgjald, að miklu leyti á annan hátt, sem ekki er nefskattur. Þeir vita það óskop vel, sjálfstæðismenn, þegar þeir eru að berjast á móti þessu með því að segja, að nú séu erfiðleikatímar, að það eiga að koma peningar úr ríkissjóði og bæjarsjóðum í þetta, og það er ekki nefskattur. Ef útsvör fara hækkandi og mikill hluti af ríkistekjunum er tekinn með beinum sköttum, þá eru það ekki nefskattar, heldur stighækkandi skattar. Og fyrir utan þetta, þá er líka einn liður, sem alls ekki getur talizt nefskattur, og það er slysatryggingin, að því leyti, sem hún kemur niður á atvinnurekendunum. - Hv. þm. sér því, enda veit hann það ósköp vel, að það eru ekki nefskattar, nema að nokkru leyti, sem standa undir þessum tryggingum.

Hv. þm. talaði mikið um það, að þetta frv. væri íhaldssamt, en hans till. eru þó allar íhaldssamari. Og ef hv. þm. meinar það, að þetta frv. sé íhaldssamt, þá ætti hann að koma með till. um að gera það frjálslegra. Ég og mínir flokksmenn hefðum viljað hafa þetta frv. víðtækara á mörgum sviðum, og vil ég sérstaklega, fyrir utan atvinnuleysistryggingarnar. minnast á ellitryggingarnar, sem okkur finnst mjög leitt, að ekki skuli geta tekið fullkomlega til starfa fyrr en eftir langan tíma. En við tókum tillit til þess, hvernig þingið er saman sett og einnig til hins fjárhagslega ástands, sem nú er, og álitum mest um það vert að byggja grundvöllinn undir tryggingarnar. Hjá nágrannaþjóðum okkar hefir það tekið langan tíma að koma þessum málum í það horf, sem nú er, og væntanlega tekst það einnig hjá okkur, þó að við byrjum á nokkuð svipuðu stigi og þær gerðu fyrir mörgum árum síðan.

Ég skal engu spá um vinsældir þessarar löggjafar. En ég hygg, að það verði þó erfitt fyrir hv. þm. Snæf. að koma og tala við kjósendur sína í Snæfellssýslu, hvort sem það er í sveitum eða sjávarþorpum, eftir að hafa sýnt sig beran að fjandskap við þetta frv.