11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

131. mál, alþýðutryggingar

Páll Zóphóníasson:

Ég hlýddi á ræðu hv. 3. landsk., sem var að miklu leyti utan við efnið, og þar sem hann kom að efninu, fór hann með svo villandi mál, eins og kannske hæfir þessum málafærslumönnum, að ég get ekki stillt mig um að segja nokkur orð. En til þess að eyða sem minnstum tíma ætla ég aðeins að taka eitt dæmi. Hann tók sér fyrir hendur að reyna að sýna fram á, hver kostnaðurinn yrði fyrir meðalfjölskyldu í Reykjavík vegna sjúkratrygginganna. Það eru ein hjón, sem hafa 3 börn yfir 16 ára aldur. Nú eru 40% af öllum landsmönnum, sem eru giftir, og þessi hjón, sem eiga 3 börn í heimahúsum yfir 16 ára aldur, á þau myndi leggjast um 100 kr., hvað þá að öllu hinu viðbættu. Þetta eru rökin í málinu og sýnir, hver kostnaðurinn er hjá meðalfjölskyldu, en, hv. 8. landsk., ef maður vill fara með rök í máli, verður maður að kynna sér það svolítið betur en þetta.