11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (2599)

131. mál, alþýðutryggingar

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvað ég skal segja um þessa síðustu ræðu. Henni var að vísu ekki beint til mín, en hún fór fyrir ofan mig, að hljómnum til a. m. k., en ég veit ekki, hvort innihaldið hefir verið að sama skapi háfleygt.

Annars var það hv. 6. landsk., sem ég vildi beina til nokkrum orðum. Hv. þm. virðist hafa orðið snortinn af orðum þeim, er ég viðhafði. Bjóst ég þó við, að aðrir myndu fremur taka sér orð mín nærri, sem sé framsóknarmennirnir. Þeir eru nú teknir að þreytast og treysta sér ekki til að ræða málið frekar. Mér fannst einkennilegt, að hv. 6. landsk. skyldi finna hvöt hjá sér til að mótmæla því, sem ég hafði sagt. Hann átti gerst að vita, að allt var satt, sem ég sagði um efni og aðferð þessa máls. Hann reyndi að, færa rök að því, að aldrei hefði verið meiri þörf en nú þessarar löggjafar, sem frv. ráðgerir. Hv. þm. hefir, að því er ætla má, unnið að þessu máli í n., þó að hann virðist reyndar hafa starfað meira að öðru, sem fremur lá honum á hjarta. Orð hans verða ekki skilin á annan veg en þann, að hann blandi saman málum. Hann hefir sagt, að frv. til framfærslul. væri óskylt þessu, og að áliti hans mætti lögleiða það út af fyrir sig, því að það snerti ekki tryggingarlöggjöfina. En ef það verður lögleitt, verður að því svo mikil bót á ástandinu úti um héruð landsins, að þessarar tryggingalöggjafar er ekki þörf. Sannleikurinn er sá, að eins og nú er ástatt í landinu, er langt frá, að nauðsyn beri til að lögleiða slíkan lagabálk. Tryggingalöggjöf þessi myndi aflaga ástandið, en ekki bæta. Og framsóknarmenn virðast t. d. hafa verið sammála um, að ekki væri tímabært að lögleiða kaflann um atvinnuleysistryggingarnar. En nú beygja þeir sig undir ofurefli sósíalista, eins og hv. 2. þm. N.-M., sem verið hefir einn af ákveðnustu andstæðingum þessa. Hann vill vinna það til að lúta þeirra valdi, og efast ég ekki um, að hann hafi hagnazt á þeim kaupum. Má sjálfsart greina þann hagnað í tölum, í kaupi mannsins.

Eins og hv. 8. landsk. tók fram, er því svo farið um allan II. kafla þessa frv., að sumpart bætir hann ekki úr skák, þó að lögleiddur væri. Slysatryggingar eru til og hafa verið framkvæmdar undanfarið. Þær eru nú algerlega fullnægjandi, og er sízt ástæða til að fara nú með ofbeldi að setja þetta allt í eina heild, enda hefir almenningurinn ekki lýst óánægju sinni yfir þeim tryggingum, sem til eru.

Um sjúkratryggingarnar er líku máli að gegna, að ekki er ástæða til að fara nú að íþyngja sveitarfélögum og einstaklingum þeirra vegna, þar sem tilgangi frv. má ná með því fyrirkomulagi, sem nú er. Eftir frv. gæti almenningi ekki orðið bót að þessum breyt., nema þá með tilliti til framtíðarinnar, ef hann vill kosta því til, sem farið er fram á, en almenningurinn er ekki svo stæður nú, að hann geti af þessum ástæðum tekið á sig þungar byrðar.

Enn er svipað að segja um ellitryggingarnar. Að vísu er ekki mjög víðtæk sú ellistyrktarlöggjöf, sem nú gildir. Þó hefir nýlega verið gengið frá endurbótum á henni. Þeir, sem þarna hafa átt hlut að máli, hafa mér vitanlega ekki kvartað, enda hefir úthlutunin orðið ríflegri en áður var.

Þegar framfærslulöggjöfin verður framkvæmd, eru þær endurbætur komnar á, sem nauðsynlegar eru til að aðstoða almenninginn í þessu efni og forða honum frá nýjum álögum. Það er því auðsætt, að það, sem vakti fyrir sósíalistum með þessu frv., voru atvinnuleysistryggingarnar. Og þær gátu þeir ekki framkvæmt með öðru móti en þessu. Þetta ættu þeir að viðurkenna.

Þegar þess er nú gætt, að þessar alþýðutryggingar eru nýjung, sem ekki hefir gefizt tóm til að undirbúa, fer það að verða spurning, hvað þessi flokkur meinar með því að demba yfir þingið þessu frv., sem almenningurinn hefir engin hag af í náinni framtíð, en bindur hinsvegar honum og sveitarfélögunum þungar byrðar. Það getur þá ekki verið annað, sem fyrir þeim vakir, en að hafa eitthvað til að flagga með. Og þá má spyrja: Er það forsvaranlegt að demba þessu yfir án þess að öðrum flokkum gefist kostur á að láta í ljós sitt álit, til þess eins, að sósíalistar geti flaggað með því?

Ég held því fram, að þetta frv. komi ekki að gagni og að þess sé engin þörf, eins og nú er ástatt. Þetta álit liggur til grundvallar fyrir dagskrá minni. Og ég er viss um, að framsóknarmenn væru yfirleitt fúsir til að ljá henni fylgi sitt, ef þeir mættu.

Þegar þess er gætt, að þetta var knúið fram við 2. umr. án atkvæðamunar - því að segja má, að það hafi verið barið í gegn með hálfs atkv. meiri hl., það var ekki heill, heldur hálfur maður, sem úrslitum réð -, þegar þessa er gætt, sé ég ekki, að nein frambærileg ástæða sé til fyrir því að meina þjóðinni að athuga þetta mál, en knýja það í þess stað fram til annarar deildar, sem vonazt er eftir, að komið geti málinu í gegn með minni skömm en hér er hægt.

Stjórnarflokkarnir, sem mest glamra nú um lýðræði, verða að játa, að þeir ætla sér að knýja þetta mál fram með ofbeldi, að þjóðinni forspurðri, til þess að geta svo veifað því framan í almenninginn sem falsaðri dulu, sem ég veit þó, að alþjóð manna mun fljótt sjá í gegnum.