11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

131. mál, alþýðutryggingar

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég held, að brtt. þessa megi nánast skoða sem leiðréttingu. Í till. eins og hún nú er orðuð stendur: „Einhleypir menn skulu ekki eiga rétt til styrks úr sjóðnum í desember og janúar ár hvert, nema sérstaklega standi á og samþykki ráðherra komi til.“ - Nú getur það ekki verið tilgangurinn, að maður, sem hefir byrjað að fá styrk í nóvember, missi hann svo aftur í desember. Hitt skil ég, að svo sé litið á, að einhleypur maður eigi ekki að komast á styrk í þessum mánuðum, og get fallizt á, að það sé rétt. En sé maðurinn farinn að njóta styrks, þá er ekki eðlilegt, að sá styrkur falli niður. Að þessu miðar brtt. mín, og ég hygg, að þetta sé ætlun flm.