11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

131. mál, alþýðutryggingar

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Það skal ekki verða langt mál. Það er fyrst út af því, að hv. 2. þm. N.-M. var að segja, að ekki væri hægt að draga neina ályktun af útreikningum mínum um, hvað fjölskyldufaðir yrði í mörgum tilfellum að greiða. Hv. þm. hefir e. t. v. ekki heyrt það, sem ég sagði í ræðu minni, að ég teldi þetta geta verið mjög breytilegt, eftir því hvort fleiri eða færri væru í fjölskyldunni. Ég gekk ekki út frá neinni fastri meðaltölu. Ég vil benda honum og hv. 6. landsk. á, að þegur talað er um 5 manna fjölskyldu í þessum l., þá er þetta miklu samtvinnaðra en venjulegt er. Hér er sem sé átt við föður og móður, öll börn yfir 16 ára og aðra skylduómaga; þess vegna ekki átt við hjón og 3 börn. Sé þessi útreikningur ekki í samræmi við þessa reglu um meðalfjölskyldu, þá er það vegna þess, að beinlínis er tekið fram í lögunum, að fjölskyldufaðirinn er skyldur að greiða vegna meðlima fjölskyldunnar, sem ekki greiða sjálfir. T. d. verður hann að greiða vegna konu sinnar, þó þau séu fráskilin. ef þau búa í sama hreppi, fyrir foreldra og fósturforeldra, og þau eiga aftur að greiða fyrir börn sín eða barnabörn eða fósturbörn, sem vinna hjá þeim eða eru á vegum þeirra eða kostuð af þeim til náms. Þá verður að greiða fyrir fósturforeldra, tengdaforeldra o. s. frv., eftir því sem skilgreint er í 84. gr. (JG: Þar stendur að leggja fram gjöld). Það er alveg rétt, - en er hv. 6. landsk. í vafa um það, ef foreldrar leggja t. d. fram gjöld fyrir börn sín, sem eru á þeirra vegum, að þau munu ekki alltaf innheimt né endurgreidd, þó þau séu afturkræf lagalega?

Hv. 6. landsk. segir, að það sé ekki hægt að ætlast til þess, að foreldrar framfæri börn sín eftir 16 ára aldur, og að þau myndu sjálf greiða iðgjöld sín. Tók hann sem dæmi, að þau myndu vinna einhvern tíma ársins og gætu þá greitt iðgjöld sín. Þetta er hugsunarvilla, því ef börnin eru að einhverju leyti á framfæri foreldra sinna, er ekki unnt að ætlazt til, að þau greiði fremur þessi gjöld en önnur. Sama gildir um önnur skyldmenni. Reikningslega er hægt að hugsa sér þetta, en ef börnin eru að einhverju leyti til fjarhagslegrar byrði fyrir foreldra sína, er ekki hægt að segja, að þau greiði fremur þessi gjöld en önnur. Dæmið, sem ég nefndi áðan, er því alveg rétt, enda dytti löggjafanum vitanlega ekki í hug að setja ákvæði um þessa skyldu til iðgjaldagreiðslu á hendur foreldrum eða öðrum framfærendum, ef ganga mætti út frá því í öllum tilfellum að börn yfir 16 ára greiddu sjálf sitt iðgjald.

Hv. 6. landsk. minntist á, að þjónustufólk mundi vinna fyrir þessum iðgjöldum. Ég geri ráð fyrir, að svo sé, en það er annað, sem kemur til greina. Ég vil benda á, að ég veit ekki betur en það sé algengt, að húsbændur greiði sjúkrakostnað fyrir hjú sín. Mér finnst því hart, ef ganga á á rétt þeirra fátækustu og umkomuminnstu í þjóðfélaginu - ef t. d. vinnukona á að greiða 43 kr. fyrir það árlega, sem hún nú fær ókeypis. Ég tel það hreint ekki svo lítið, ef þetta hjú, sem fær í kaup 35 kr. á mán., á þarna að greiða 10% af launum sínum. Þó þetta sé líka tölulega rétt, að hjú vinni fyrir þessu og taka megi af kaupi þess, þá veit ég, að húsbændur almennt, a. m. k. hér í Rvík, og líklega alstaðar á landinu, myndu í mörgum tilfellum telja skyldu sína að greiða þennan kostnað.

Hv. þm. minntist á hjón með 3—4 börn, sem væru meðalfjölskylda. Ég játa fúslega, að heimilisföðurnum gæti orðið mikil hjálp að tryggingum í veikindum. En það má gjarnan taka það með í reikninginn, þegar verið er að ræða um lagaboð þessa kafla, að þessi sami maður hefir nú leyfi til að vera í sjúkrasamlagi Reykjavíkur, ef hann hefir undir 4500 kr. árstekjur. Þessi löggjöf veitir því ekki rétt fram yfir það, sem er, eða neitt það, sem ekki var hægt að afla sér áður. Þetta getur þó réttlætzt að vissu leyti, ef hver fjölskylda nýtur hlunninda eða réttinda móts við iðgjaldagreiðslur sínar.

Þá skal ég skýra frá því, að í S. R. er venja að greiða til læknis aðeins 12 kr. fyrir fjölskylduföður, en samkv. frv. mundi þetta hækka alltilfinnanlega, eins og áður hefir verið bent á og sest á 72. gr. frv., og í þessari greiðslu til læknisins hefir svo verið innifalin öll læknishjálp til barnanna; þannig eru þessi réttindi, sem talað er um, að lögin veiti þungum fjölskyldum, þegar til.

Þá hefir hv. þm. talað um margháttaðan kostnað við barneignir, og taldi þýðingarmikið atriði, að veitt yrði hjálp eða stuðningur undir þeim kringumstæðum. En þetta virðist hv. þm. ekki hafa athugað, þegar hann var að semja frv. Þá var ekki gert ráð fyrir styrkgreiðslu vegna þessara veikinda. Iðgjaldagreiðslur til sjúkrasamlags, allur kostnaður við barnsfæðingu, að viðbættum öðrum lögboðnum iðgjöldum, lenda á barnsföður eða barnsmóður.

Hv. 6. landsk. tók fram, að heimilt væri að setja í samþ. sjúkrasamlags ákvæði um víðtæka hjálp, en ekki gert rái fyrir að greiða að fullu. Ég veit, að hv. 6. landsk. hafði rétt fyrir sér um, að atvinnuleysistryggingarnar eru framsettar í þessu frv. aðeins sem byrjun. Ég veit, að jafnaðarmenn leggja áherzlu á að fá form á þessa löggjöf, því þeir hugsa sér að færa sig upp á skaftið, og er það atriði í mínum augum sízt til þess fallið að vera með frv., að menn eiga von á, að þetta sé aðeins byrjunin. En sósíalistarnir álíta, að þessi löggjöf eigi að verða miklu víðtækari, og þeir hugsa sér að feta sig áfram í áttina til þess frv., sem hæstv. atvmrh. þáver. þm. Ísaf., bar hér fram á sínum tíma. Því verður ekki heldur neitað, að nú skall hurð nærri hælum, þegar það vildi til, að hv. 2. landsk. hélt hér ræðu og mælti eindregið móti frv. En það fór nú svo, að hæstv. forseti Sþ. og hæstv. atvmrh. áttu oft tal við hann og jafnvel form. Framsfl. sást með honum á eintali. Það fór líka svo, að sannfæringin hjaðnaði. Þessi hv. þm. greiddi ekki atkv. með l. gr. frv., eða réttara sagt 1. gr. þessa kafla. En þegar kom að næstu grein, fann hann sig knúðan til að lýsa fylgi sínu við frv., svo það var eins og hv. þm. V.-Sk. sagði, að ekki munaði nema hálfum. En það er mikils virði fyrir sósíalista að eiga þó ekki sé nema hálfan í bakhöndinni.