11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Það eru ýms atriði í ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem ég þarf að svara. Ég get verið fáorður vegna þess, að flokksbræður mínir hafa þegar svarað ýmsum atriðum, sem við deildum um. - Mér virðist hv. þm. blanda saman sjúkrasjóðum og atvinnuleysistryggingum. Ég vildi staðhæfa, að fólk léti atvinnuleysistryggingarnar blekkja sig úr sveitinni til sjávarins. Þetta stendur ómótmælt, og reynslan mun sanna það, sem ég hefi sagt. Hv. þm. sagði, að þetta kæmi illa heim og saman við, að ég sagði, að iðgjöldin til sjúkratrygginganna væru há og tilfinnanleg fyrir almenning. En þetta getur vel staðizt, því almenningur gerir sér ekki ljóst, hve há þau eru, fyrr en hann hefir fundið það eða reynt sjálfur.

Þá vildi hann eyða því fyrir alla muni, að ríkið eða bæjarfélögin hefðu íhlutun um stjórn atvinnuleysissjóðanna. Hann sagði, að það væri ekki rétt, þar sem þetta væri ekki skyldutrygging, eins og t. d. sjúkratryggingin. Það er nú svo, þó þetta sé ekki skyldutrygging, heldur í valdi verkalýðsfélaganna, þá ber ríki og bæjum að greiða sitt framlag; það er lögákveðið, ef verklýðsfélögin setja slíka sjóði upp. Það er því rétt, eins og ég hefi áður sagt, að ríki og bæir hafi íhlutun um, hverjir njóta þess fjár, sem varið er af almennu fé, og fyrirbyggja, að það. verði notað vissum pólitískum flokkum til framdráttar. Hann sagði, að með brtt. á þskj. 747, 5. lið, væri tryggt, að ríkið hefði sína íhlutun, en þar segir, að atvmrh. skuli hafa eftirlit með sjóðnum. Ég hélt að atvmrh. hefði nógum störfum að sinna og kæmist ekki einu sinni yfir þau. Þess vegna held ég, að það sé heilbrigðara og tryggi betra eftirlit, að ráðh. skipi mann í sjóðstjórnina; auk þess er einnig rétt, að sveitar- eða bæjarstjórnir hafi sinn fulltrúa í stjórnum þessara sjóða, til eftirlits um, hvernig fé þeirra er ráðstafað. verður það ennþá eðlilegra, þegar athugað er, að mjög margir þeirra manna, sem kæmu til með að njóta atvinnuleysisstyrks, yrðu að líkindum sömu mennirnir og njóta fátækrastyrks. Það er og líklegt, að þeir, sem þekkja bezt nauðsynina vegna afskipta sinna af stjórn fátækramálanna, geti séð um, að ekki verði aðrir aðnjótandi styrksins en þeir, sem mest eru þurfandi.

Hv. 2. þm. Reykv. sagðist ekki sjá ástæðu til þess að leyfa öðrum en Alþfl.mönnum að stjórna sjóðum þessum. Þarna hefir hann víst sagt meira en hann ætlaði að segja, því það er auðséð af þessum ummælum, að þessir opinberu sjóðir eru ætlaðir til að styrkja flokksstarfsemi Alþfl., og verður að telja, að hann hafi með orðum þessum sannað þann tilgang, enda lagt mikið kapp á og sagt af atvmrh., að það eigi að ná fram að ganga.

Hv. þm. var að reyna að snúa út úr orðum mínum, að ég hefði talað um óeðlilegan nefskatt, en ég hefi einmitt sagt, að tryggingargrundvöllurinn væri sá, að allir ættu að greiða, og þá líka allir að njóta. Ég segi, að mér þykir þetta frv. einkennilegt frá sjónarmiði sósíalista, og er það allt í heild sinni mjög íhaldssamt.

Hv. þm. sagði, að það væri lítill hluti, sem greiddur væri með persónulegum iðgjöldum, en eftir frv. eru það 36 kr., sem einstaklingarnir eiga að greiða til sjúkratrygginganna á móti 18 kr. frá ríki og bæ. Einstaklingarnir greiða því helmingi meira en ríki og bær til samans; það er því ekki lítill hluti, sem er nefskattur, heldur allverulegur hluti, sem hvílir á einstaklingunum.

Hv. þm. endaði ræðu sína á því, að mér mundi erfitt að koma í mitt kjördæmi eftir að hafa talað á móti þessu frv. og sýnt því fjandskap. Ég er ekki hræddur við að verja þar mína afstöðu. Við sjálfstæðismenn höfum reynt að koma viti í frv. við erum samþykkir sjúkra- og slysatryggingu, en við teljum ótímabært og varhugavert að taka þetta fyrirkomulag upp á erfiðum tímum, að lögþvinga menn til að greiða iðgjöld. Við vitum, að það verður óvinsælt að greiða þessi gjöld, og því verður ekki neitað, að af tryggingunum leiðir mikinn kostnað.

Hv. þm. sagði, að meðalkostnaður verkamannafjölskyldu vegna veikinda væri um 200 kr. Ég hygg, að þetta sé rangt hjá hv. þm., því hér starfar sjúkrasamlag Reykjavíkur, og iðgjöldin þar eru miklu lægri en þm. vildi gefa í skyn, en einmitt mikill hluti verkamanna hér í Rvík notar sér af starfi S. R. og greiða þess vegna minna en þeir hefðu annars þurft.

Ég vil segja hv. þm., að ég er alveg óhræddur að ræða við kjósendur um þessi mál. Ég veit, að til sveita muni þetta mælast illa fyrir ofan á allt annað, sem gert er til að erfiða aðstöðuna í sveitunum af hálfu ríkisvaldsins. Ég staðhæfi, að atvinnuleysistryggingarnar eru settar til að torvelda bændum og búaliði að halda fólkinu í sveitunum. Og ég veit, að almenningi í kauptúnum og kaupstöðum verður erfitt að inna af höndum iðgjaldagreiðslurnar. Ég er því alveg óhræddur að ræða við hv. 2. þm. Reykv. um þessi mál. Ég geri ráð fyrir, ef við ræðum um þau annarsstaðar en í verkamannafél. Dagsbrún, þar sem þessi hv. þm. er einvaldur og ræður öllu, þá verði það ekki eins vel þegið og hann heldur, hve hart hann gengur fram í því nú að fá mál þessi fram.