11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

131. mál, alþýðutryggingar

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Hv. þm. N.-Þ. ætlaði að færa sterk rök fyrir því, að ekki væri rétt að samþ. hina rökst. dagskrá hv. þm. V.-Sk. En hann játaði þó í hinu orðinu, að þetta mál væri flókið og umfangsmikið og búið að liggja stuttan tíma hjá þm. til athugunar. (GG: Ég minntist ekkert á rökst. dagskrána). Ef þetta er ekki að færa rök gegn sjálfum sér, þá veit ég ekki, hvað er að snúast gegn sjálfum sér með sínum eigin rökvillum.

Hv. þm. N.-Þ. komst að þeirri viturlegu (!) niðurstöðu, að ég hefði fært fram sterk rök fyrir því, að sósíalistar kærðu sig ekki um slysatryggingu og ellitryggingu. En slíkt hefi ég aldrei sagt. Ég sagði, að þeir hefðu ekki lagt svo mikla áherzlu á málið, að þurft hefði að leita afbrigða vegna þess. Því að sjúkratrygging er í l. og ellitryggingin kemur ekki til fullra framkvæmda fyrr en eftir nokkra áratugi. Ég sagði, að það væri þess vegna aðeins eitt mál, sem réði því, að þessu máli væri flýtt svona, og það væri atvinnuleysistryggingin. Þetta voru mín orð. En svo tekur hv. þm. N.-Þ. upp sem mín orð það, sem hv. 6. landsk. sagði, að ég hefði sagt, og sem hann þannig bætti við mín orð, en ég aldrei sagði. Ég veit ekki, hvað er hringsnúningur, ef ekki þetta, að hv. þm. N.-Þ. rennur fyrst braut eftir því, sem ég sagði, og kemur svo inn á spor sósíalista og segir þeirra orð vera mín orð.

Það er eftirtektarvert, að hv. þm. N.-Þ. er sá eini af Framsfl.þm., sem við þessar umr. hefir talað, að undanteknum hv. 2. þm. N.-M., er einnig talaði tvisvar eða þrisvar við 2. umr. Og hv. þm. N.-Þ. er sá eini Framsfl. þm., sem virkilega hefir játað, að það hafi ekki þurft af sósíalistum að neyða Framsflmenn til að fylgja þessu máli, af því að þessi hv. þm. er sósíalisti.

Ég vil benda þessum hv. þm. N.-Þ. á, að hann ætti ekki að tala um hringsnúning hjá öðrum, því að ef nokkur þm. hefir gert sig sekan um hringsnúning, þá er það þessi þm., bæði nú og endranær.