07.12.1935
Sameinað þing: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

1. mál, fjárlög 1936

Frsm. 3. kafla. (Þorbergur Þorleifsson):

Frsm. 1. kafla, hv. 6. landsk., hefir gefið ýtarlegt yfirlit yfir heildarstarf n., og ætla ég þar engu við að bæta, en mun eingöngu halda mér við að tala um þennan 3. kafla fjárl., sem ég hefi framsögu um, og byrjar á 16. gr.: Verkleg fyrirtæki. Mun ég þá fyrst, áður en ég geri grein fyrir hinum einstöku brtt., tala nokkuð um 16. gr. sérstaklega, en það er sú grein, sem mestar breyt. hafa verið gerðar við, og eru aðalbreytingarnar tvennskonar. Í fyrsta lagi leiðréttingar, sem hækka greinina um meira en 1/2 millj., og í öðru lagi lækkunartill. n., sem nema nokkuð á þriðja hundr. þús. kr. Hækkunartill. n. við þessa grein eru aftur á móti bæði fáar og smávægilegar. En þrátt fyrir það hækka heildarútgjöld gr. allmikið frá því, sem upphaflega var í frv.

Leiðréttingarnar við frv. eru gerðar í samráði við hæstv. fjmrh. og eftir till. hans. Eru það sumpart leiðréttingar samkv. reynslu síðasta árs, og er það í fyllsta samræmi við þá stefnu, sem fjmrh. hefir markað, um að taka jafnan upp í fjárlög allar þær greiðslur, sem vitað er um, að komi til útborgunar á árinu. Sumpart eru þetta leiðréttingar vegna þál. og l. frá þinginu í vetur.

Leiðréttingarnar eru þá þessar: Gjöld samkvæmt jarðræktarlögunum: Jarðabótastyrkur 110000 kr, og til verkfærakaupasjóðs 20000 kr., alls 130000 kr. Til búfjárræktar 3000 kr., til fjárkláðalækninga 8000 kr., til veðurstofunnar 4000 kr. Kostnaður vegna laga um lax- og silungsveiði 2000 kr. Til erindrekstrar í Miðjarðarhafslöndum 4000 kr. Gjaldeyris- og innflutningsnefnd 10000 kr. Skrifstofukostnaður húsameistara ríkisins 3000 kr. Auk þess 2 smáupphæðir, 500 kr. hvor. Ferðakostnaður vegna eftirlits með skipum og laun skógræktarstjóra 1000 kr. Þessar leiðréttingar samkv. reynslu síðasta árs nema samtals 170000 kr., en þar við bætast margar og stórar upphæðir, sem ber að taka upp í greinina vegna nýrra lagasetninga. Þessar upphæðir eru t. d.: Greiðsla vegna ofveðurstjóns á Norðurlandi 60000 kr., til skuldaskilasjóðs útvegsmanna 160000 kr., til iðnlánasjóðs 25000 kr., til greiðslu vaxtahluta af fasteignaveðslánum bænda 75000 kr. Mjólkurbúastyrkur 55000 kr.,frystihúsastyrkur 20000 kr., til útrýmingar fjárkláða 10000 kr. Gerir þetta samtals 405000 kr. Þar við bætast áðurnefndar 170000 kr. Verða þá þessar leiðréttingar við greinina alls 575000 kr. Heildarútgjöld gr. voru upphaflega í frv. eins og það kom frá stj. 2599625 kr. En eflir leiðréttingar n. 3180825 kr. Ber þessari upphæð ekki alveg saman við nál., en það liggur í því, að nokkrar upphæðir, flestar smávægilegar, hafa fallið úr við uppgjörið, þegar nál. var samið.

Hækkunartill. þær, sem n. gerir við þessa grein frv., fyrir utan þær hækkanir, sem leiðir af áður umgetinni leiðréttingu, eru, eins og áður er sagt, litlar og nema alls aðeins um 24 þús. kr.

Nokkrar þær hækkunarleiðréttingar, sem n. gerði við þessa gr. frv., voru felldar aftur niður í sparnaðarskyni, og eru því raunverulega lækkun á útgjaldalið frv. frá því, sem það annars hefði orðið frá n. En þær eru þessar:

Til verkfærakaupasjóðs 20000 kr., til búfjárræktar 3000 kr., til veðurstofunnar 4000 kr., kostnaður vegna laga um lax- og silungsveiði 2000 kr., til erindrekstrar í Miðjarðarhafslöndum 4000 kr., skrifstofukostnaður húsameistara ríkisins 3000 kr. Samtals 41000 kr.

Hinar aðrar lækkunartill. n. eru;

Til Búnaðarfélags Íslands 20000 kr., Sandgræðslan 3000 kr., verkfærakaupasjóður 5000 kr., búfjárræktin 12000 kr., Byggingar- og landnámssjóður af tekjum tóbakseinkasölu 50000 kr., Ræktunarsjóður, hluti af útgjaldi 40000 kr., tillag til byggingarsjóða kaupstaða og kauptúna af tekjum tóbakseinkasölu 70000 kr., vegna ráðstafana um tilb. áburð 5000 kr. Garðyrkjufélagið 3000 kr., Fiskifélagið 8000 kr. Skrifstofukostnaður húsameistara 2000 kr.

Lækkanir n. við greinina, þegar með eru teknar áður nefndar 41000 kr., nema þá 259000 kr., sem er dálítið lægri upphæð en talið er í bráðabirgðayfirliti n. í nál., en þrátt fyrir allar þessar lækkanir nema hækkanirnar allmiklu meira, eða um 346000 kr. Er því frvgr. nú, eftir að n. hefir fjallað um hana, 2945623 kr., en var í frv. 2399625 kr.

Um hinar einstöku brtt. n. get ég vísað til nál., en mun þó minnast á sumar þeirra nokkuð ýtarlegar en þar er gert. Um lækkunartill. n. er það að segja, að ýmsar þeirra eru við þá liði, sem eru viðkvæmir. og því ekki með öllu sársaukalaust fyrir n. að lækka, og verða sjálfsagt eitthvað skiptar skoðanir um það, hvort rétt hafi verið að lækka. En ég vænti samt, að hv. þm. taki þeim vel og skilji það, að það er ekki hægt að skera niður á fjárl. um eina millj. króna hina ýmsu liði, sem þar hafa staðið, án þess að koma einhversstaðar nálægt kviku.

Ég skal þá fyrst minnast á 158. brtt., um að færa niður framlagið til Búnaðarfélags Íslands um 10 af hundraði, úr 200 þús. niður í 180 þús. kr. N. hefir fært þetta niður í þeirri von, að félagið geti í bili dregið eitthvað saman starfsemi sína, án þess það komi að mikilli sök. Eins og segir í brtt. og getið er um í nál., vill n. taka sérstaklega fram, að styrkurinn til búnaðarsambandanna úti um landið verði ekki lækkaður um meir en 10 af hundraði.

159. brtt. er við sandgræðsluna, að fyrir 30 þús. kr. komi 27 þús. kr. Á þessum lið er fylgt sömu aðferð og við Búnaðarfélagið, að færa heildarupphæðina niður um 10 af hundraði. Um hvernig sú niðurfærsla verði framkvæmd hefir n. engar sérstakar till., en gengur út frá því, að þau sandgræðslufyrirtæki, sem byrjað er á og fyrirfram búið að lofa framlagi til að ljúka við, verði ekki færð niður.

160. brtt. fjallar um jarðabótastyrkinn. N. hefir ekki viljað lækka jarðræktarstyrkinn, enda litið svo á, að það sé ekki hægt nema með lagabreyt. Og vitanlega er ekki hægt að breyta lögum þannig, að þau verki aftur fyrir sig. Jarðabætur þær, sem l. samkv. á að greiða styrk til á næsta ári, er þegar búið að taka út. Og allir bændur, sem hafa látið taka út þessar jarðabætur, reiða sig fastlega á, að þetta verði greitt eins og hver önnur lögboðin greiðsla úr ríkissjóði. N. hefir hækkað þessa upphæð um 110000 kr., sem er leiðrétting samkv. reynslu síðasta árs, og er útlit fyrir, að jarðabæturnar verði ekki minni í ár. og því ekki varlegt að áætla þessa upphæð lægri.

Þá er 161. brtt. 4 b. verkfærakaupasjóður. Samkv. reynslu síðasta árs hefir þessi upphæð orðið 85000 kr. Í frv. stóð 65000 kr. Hefir n. gert till. um að fella niður leiðréttingu og 5000 kr. í viðbót. Lækkar því framlagið samkv. till. n. um allmikla upphæð.

Þá kem ég að 162. brtt. Búfjárrækt. Leggur n. til, að sá liður verði færður niður frá því, sem í frv. stendur, um 12000 kr. Þetta er okkur bændunum viðkvæmur liður, og þótt n. hafi neyzt til að lækka hann í þetta skipti, getur sú lækkun ekki orðið til frambúðar. Eins og kunnugt er, njóta fleiri greinar búfjárræktarinnar styrks á þessum lið í einu lagi. Sumar þessar greinar búfjárræktarinnar eru þannig, að ekkert má skerða þann styrk, er þær njóta. En n. álítur aftur á móti, að fresta megi að framkvæma um eitt ár einu atriði viðkomandi búfjárræktinni, er styrks nýtur á þessum lið, en það eru sýningar búpenings, en varla svo neinu verulegu nemi öðrum greinum á þessum lið.

Næsta till., sem er 163. brtt., er um að lækka framlagið til byggingar- og landnámssjóðs af tekjum tóbakseinkasölu um 50000 kr., og er þá bezt, að ég minnist um leið á 165. brtt., sem er hliðstæð, en hún er um að lækka framlagið til byggingarsjóða kaupstaða og kauptúna samkv. l. um verkamannabústaði, einnig af tekjum tóbakseinkasölu, um 70000 kr. Útlitið er þannig sem stendur, að ekki verður hægt að flytja inn byggingarefni alveg takmarkalaust, eins og verið hefir, og mun því verða að draga úr byggingum. Þess vegna mun þetta ekki beinlínis koma að mikilli sök, þó að framkvæmd þessara l. verði frestað eitt ár.

164. brtt. er um að fella niður 40000 kr. framlag til ræktunarsjóðs, sem er hluti af útflutningsgjaldi.

166. brtt. er um að lækka ofurlítið framlagið vegna ráðstafana um tilbúinn áburð, eða binda það við hámarksupphæð.

Styrkurinn til garðyrkjufélagsins hefir verið lækkaður um 3000 kr., sem nemur launum Einars Helgasonar garðyrkjustjóra, sem nýlega er látinn.

Þá verður næst fyrir skógræktin. 169. brtt. er um að hækka framlag til skóggræðslu um 15 þús. kr., úr 8 þús. kr. í 23 þús. kr. Þar sem þetta stingur mjög í stúf við aðrar till. n., og þetta er ein af örfáum hækkunartill., sem n. hefir séð sér fært að koma fram með, tel ég rétt að gefa á þessu nokkra skýringu, til viðbótar því, sem stendur í nál. Á venjulegum tímum mundi nú þessi hækkun að vísu ekki þurfa mikillar skýringar við, því það er yfirleitt viðurkennt, að skógræktin sé eitt hið mesta menningarmál og eitt af þeim fáu hugsjónamálum, sem nær til alls almennings í landinu, auk þess sem það er hugsmunamál fyrir alla þjóðina, að það sé tekið réttum tökum. En skógræktin hefir verið í undarlegri niðurlægingu, og framlög til hennar frá því opinbera ekki í samræmi við þá hugsun og þá von, sem Jónas Hallgrímsson brenndi inn í vitund þjóðarinnar með hinum látlausu spámannsorðum:

„Fagur er dalur og fyllist skógi, og frjálsir menn þegar aldir renna“. En fyrir 5 árum virðist hv. Alþ. hafa gleymt þessu, því þá var framlag til skógræktar lækkað, og smám saman síðan, þar til starfsfé skógræktar var komið niður í um 8000 kr., úr 20000 kr., sem það var fyrir 5 árum. Skógræktin hefir því komizt í skuldir, eymd og niðurlægingu, sem á engan hátt er sæmandi. Fer nokkuð af þessari hækkun til þess að greiða gamlar skuldir og koma skógræktinni á réttan kjöl fjárhagslega. Hefir hinn ungi og áhugasami skógræktarstjóri látið það í ljós við n., að hann hafi hug á að auka tekjur skógræktarinnar í framtíðinni, svo að hún geti betur staðið undir sér sjálf fjárhagslega en hingað til hefir verið. En grundvöllurinn undir því er sá, að skógræktin geti eignazt sinn eiginn vörubíl, sem geti gengið fyrir viðarkolum, sem tiltölulega ódýrt er að framleiða úr skógarkjarrinu. Er ætlazt til, að nokkuð af þeirri fjárveitingu, sem n. leggur til, að verði veitt, fari til þess að kaupa einn slíkan bíl. Þegar viðarkolabíllinn er fenginn, verður miklu ódýrara að koma afurðum skóganna um landið og selja með hagnaði, til ágóða fyrir skógræktina. Einnig ætlast skógræktarstjóri til, að skógræktin geti haft nokkrar tekjur af plöntuuppeldi.

Þá er 172. brtt. um að taka upp 200 kr. til Eggerts Guðmundssonar, til þess að stunda dýralækningar við Gilsfjörð. Er hann einn af þessum sjálfmenntuðu dýralæknum, sem oft geta hjálpað í því dýralæknaleysi, sem er úti um landið. Áður hefir þingið launað ýmsa í þessu skyni, svo hér er fordæmi fyrir.

N. hefir samkv. tilmælum landbráðh. tekið upp í 173 brtt. — „til fjárkláðalækninga — útrýmingarboðun“, eins og það er orðað — 24000 kr. Á þinginu í vetur voru samþ. l., sem heimiluðu landbráðh. að láta fara fram slíka útrýmingarboðun, og nú hefir landbráð. skýrt n. frá, að hann muni nota þessa heimild, ef heyfengur verði sæmilegur næsta haust.

174. till. er um það, að laun forstöðumanns efnarannsóknarstofunnar verði færð niður til samræmis við aðra starfsmenn ríkisins. Hefir hann haft. auk fastra launa, 25% af öllum tekjum stofnunarinnar. Leggur n. til, að þetta verði fært niður í 10%.

175. till. er nýr liður, til Þykkbæinga, um styrk til skurðgröfu við framræslu Safamýrar, enda fái þeir ekki styrk eftir l. nr. 59 1930. Í síðasta árs fjárl. höfðu þeir styrk í sama skyni; er þetta þýðingarmikið fyrirtæki, sem þeir hafa með höndum, og leggur n. til, að þeim verði veittur þessi styrkur.

176. till. fjallar um lækkun á framlagi til Fiskifélagsins um 10%, úr 80000 kr. niður í 72000 kr. Er það hliðstætt þeirri lækkun, sem n. leggur til, að gerð verði á framlagi til Búnaðarfélagsins og fleiri liðum.

177. till. gerir ráð fyrir, að skipaskoðunarstjóri, sem er vel launaður, hjá ríkinu, skuli hafa eftirlit með skipum ríkisins án nokkurs sérstaks endurgjalds. Áður hefir orðið að greiða sérstaklega fyrir þetta, leggur n. því til, að þetta verði gert í sparnaðarskyni.

178. till., um að ferðakostnaður vegna skipaeftirlits hækki, er leiðréttingartili. samkv. undanfarandi reynslu.

179. till. er hugtaksbreyting, sem gerð er í sparnaðarskyni. Eins og ég gat um hér að framan í ræðu minni, var ein af leiðréttingartill., sem gera þurfti við frv., hækkun til erindrekstrar í Miðjarðarhafslöndunum, 4000 kr. að upphæð, samkv. undanfarandi reynslu. Leggur n. til, að sú orða- eða hugtaksbreyting verði gerð á liðnum, að í stað „erindrekstrar“ komi fiskifulltrúa, og að kostnaður megi ekki fara fram úr 8000 kr. úr ríkissjóði, en ef fiskifulltrúinn þarf að ferðast í markaðsleitarerindum, þá skal ferðakostnaður hans greiddur úr markaðsleitarsjóði.

180. till. er hækkunartill. Einnig er sú breyt. gerð á liðnum, að bætt er við hann nýrri svo hljóðandi setningu: „gegn tvöföldu fjárframlagi annarsstaðar að“. Þetta er kostnaður við gjaldeyris- og innflutningsnefnd.

181. till. gerir ráð fyrir 300 kr. framlagi til landssambands bænda. Á undanförnum árum hafa bændur landsins sýnt mikinn áhuga í því að koma saman á fund alstaðar að af landinu einu sinni á ári, til þess að ræða velferðarmál bændastéttarinnar. Þessir fundir hafa verið haldnir hér í Reykjavík og nefndir landsfundir bænda. Þrjú ár í röð hafa þessir fundir verið haldnir, og hafa nú fengið fast form með stofnun landssambands bænda, sem stofnað var á síðasta landsfundi, sem haldinn var hér í Rvík í fyrravetur og margir hv. alþm. tóku þátt í. Landssambandið hefir sótt um styrk til Alþingis til starfsemi sinnar, og vill n. leggja til, að tekin sé upp í fjárl. ofurlítil upphæð í þessu skyni.

182. till. er um framlag til vinnumiðlunar. vegna skipulagsbreytingar á þeim málum ber að fella niður aths., „þar af til vinnumiðstöðvar kvenna 2000 kr“. En liðurinn helzt óbreyttur að öðru leyti.

183. till. er viðvíkjandi Ungmennafélagi Íslands. Þegar þessi félagsskapur var stofnaður, var eitt aðaláhugamál hans að efla bindindi. Íþróttir, skóggræðsla og bindindi voru allt mál, sem voru ofarlega á stefnuskrá þessa félagsskapar. Margir þeirra manna, sem nú eiga sæti á hv. Alþingi, hafa aukið sinn þroska innan ungmennafélagsskaparins, og ekki sízt fyrir það, að þeir lærðu þar að afneita Bakkusi. Á seinni árum hefir þessi félagsskapur hætt að vinna að bindindismálum. Bindindi er víðast hvar gert útlægt úr félagsskapnum, og síðan er hann eins og visnandi hönd, máttlaus og þróttlaus og virðist lítið afl hafa til þess að þroska meðlimi sína. N. telur illa farið, að ungmennafélagsskapurinn hætti að vinna að bindindismálum, og leggur því til, að skilyrði fyrir útborgun styrksins sé, að Ungmennafélag Íslands vinni að eflingu bindindis. Orðast því liðurinn svo nú: „Handa Ungmennafélagi Íslands, til eflingar íþrótta, skóggræðslu og bindindis, 4000 kr.“ Er það sama upphæð og félagið hafði í síðustu fjárlögum.

184. till. fjallar um skrifstofukostnað húsameistara. Er gert ráð fyrir að létta nokkru af skrifstofukostnaðinum af ríkinu, með því að ákveða, að skrifstofan skuli hafa dálitlar tekjur af teikningum, sem húsameistari lætur gera, þannig að skrifstofan taki allt að 25% af venjulegum taxta, sem greiddur er fyrir teikningar. Þetta munar tiltölulega litlu á verði bygginganna, en það venur menn hinsvegar af því að láta gera teikningar út í bláinn, sem svo eru ef til vill aldrei notaðir, eins og komið hefir fyrir.

Þá er 185. till. A-liður þeirrar till. fjallar um 2000 kr. framlag til húsbygginga á Breiðumýri vegna jarðskjálfta 1934, en b-liðurinn er um að veita 1500 kr. til kaupa á spildu úr Hólalandi til handa Breiðumýri. Þegar jarðsjálftarnir miklu urðu sumarið 1934, var stofnað til samskota um land allt, til þess að bæta tjónið. Í Þingeyjarsýslu urðu engar skemmdir, nema á þessum eina bæ, Breiðumýri í Reykjadal. Þar hrundu bæjarhúsin. Bætur komu engar fyrir þetta af samskotafénu. Á Breiðumýri er læknissetur, og á ríkið jörðina. Leggur n. til, að þessi upphæð sé veitt til hjálpar við endurbyggingu bæjarhúsanna. Breiðumýri vantar beitiland, en Hólar hafa aftur á móti gnótt þess. Telur n. því hagkvæmt að ríkið kaupi spildu úr Hólalandi til viðbótar beitilandi Breiðumýrar; liggja lönd jarðanna saman. Liðirnir c.-h. eru allir teknir upp samkv. lagafyrirmælum. Eru það framlög til skuldaskilasjóðs útgerðarmanna, til mjólkurbúa, til greiðslu vaxta af fasteignaveðslánum bænda, til iðnlánasjóðs, til greiðslu ofviðristjóns á Norðurlandi og til frystihúsa. Um i.- lið, sem gerir ráð fyrir 5000 kr. framlagi til skipulagsnefndar atvinnumála, er það að segja, að lagt er til, að þessi upphæð verði ekki tekin upp hærri, vegna þess að gert er ráð fyrir, að nefndin skili lokaáliti um það leyti sem næsta Alþingi kemur saman. J.-liðurinn, sem er um kostnað við eftirlit með opinberum sjóðum, er tekinn upp samkv. lögum, eins og liðirnir c.–h.

Áður en ég skil við þessa 16. gr., skal ég geta þess, að fjvn. hefir samþ. að taka upp fjárveitingu til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum, 5000 kr. að upphæð, en sú brtt. hefir fallið burt úr till. n. Vestmannaeyingar hafa, eins og kunnugt er, enga þjóðvegi og eru því vel að þessari upphæð komnir; væntir n. því, að þessi till. verði samþ., þegar hún verður borin fram.

Við 17. gr. eru aðeins 2 brtt. Sú fyrri, 186. brtt., fjallar um það, að styrkur til berklasjúklinga hækki úr 800000 kr. upp í 850000 kr. Eins og kunnugt er, hefir þessi útgjaldaliður fjárl. stöðugt farið hækkandi, og mun hann verða upp undir 1 millj. kr. í ár. Eins og drepið er á í nál., kom landlæknir að máli við fjvn. í vetur og óskaði eftir að mega ráða sérstak an lækni til þess að hafa yfirumsjón með berklavörnum. Var til starfsins ráðinn Sigurður Sigurðsson læknir, og hóf hann þegar starf sitt í vor. Það er mikið útlit fyrir, að þessi nýja skipun á þessum mál-, um og starf þessa manns muni bera mikinn árangur í því að hefta útbreiðslu þessa skaðræðissjúkdóms. Í þeirri von leggur n. til, að þennan lið þurfi ekki nauðsynlega að hækka meira en hér er gert ráð fyrir. Annars hefði þurft, samkv. reynslu síðasta árs, að hækka þennan lið upp í ca. 950000 kr.

Hin brtt. við 17. gr., 187. till., er um að taka upp fjárveitingu til áfengismálaráðunauts, 3000 kr. að upphæð. Er það gert samkv. ákvæði í hinum nýju áfengislögum.

Við 18. gr. hefir n. gert nokkrar brtt., sem flestar eru smávægilegar.

188. brtt. við 18. gr. l.a. er um eftirlaun embættismanna, sem lagt er til, að verði hækkuð um 27916,14 kr. 189. till. er um hækkun á framlagi til embættismannaekkna og barna þeirra um 400 kr.

190. till., við I.c., er um það, að prestsekknaliðurinn hækki um 166,04 kr.

191. till. I.e. er um það, að lífeyrir samkv. l. nr. 51 1921 hækki um 1030 kr. Þetta eru allt lögboðnar greiðslur, og þarf ég ekki að fjölyrða um það.

Þá er 192. brtt. N. leggur til, að teknar verði upp 2000 kr. til handa Sigurði Thoroddsen, fyrrv. kennara við menntaskólann, sem látið hefir af störfum fyrir aldurs sakir. Skal þessi upphæð koma til viðbótar við lögmælt eftirlaun hans.

Þá leggur n. til í 193. brtt. og brtt. n. 200. a., að eftirlaun ekknanna Kirstínar Blöndal og Guðbjargar Guðmundsdóttur verði hækkuð úr 300 kr. upp í 400 kr. hjá hvorri.

Í 194. brtt. er farið fram á það, að Önnu Þorgrímsdóttur verði veittar 1100 kr. í stað 1300. Þetta er aðeins leiðrétting á liðnum.

Í 193. till. leggur n. til, að tekin verði upp 600 kr. eftirlaun til Sigrúnar Bjarnason, ekkju Þorleifs H. Bjarnasonar menntaskólakennara. Hafa oft áður í fjárl. verið teknar upp einhverjar upphæðir handa ekkjum, þegar líkt hefir staðið á, og þarf ég ekki að rökstyðja það frekar.

196., 197. og 198. till. eru allar leiðréttingar á frv. og teknar upp vegna þess, að þessir heiðursprestar, sem liðirnir eiga við, hafa allir látizt á árinu.

199. till. gerir ráð fyrir nýjum liðum. Er þar farið fram á, að Gísla Einarssyni verði veittar 295 kr., Arnóri Árnasyni 310 kr., Hallgrími Thorlacius 293 kr., Einari Thorlacius 335 kr. og Bjarna Þorsteinssyni 295 kr. Þetta er allt lögboðin eftirlaun þessara manna, sem hafa verið prestar þjóðkirkjunnar, en látið af prestskap fyrir aldurs sakir.

Þá er brtt. 200,b., sem gerir ráð fyrir 300 kr. framlagi til frú Bjargar Jónsdóttur frá Vallanesi, ekkju séra Sigurðar Þórðarsonar. Leggur n. til, að þessi upphæð verði tekin upp, þar sem hér er um fátæka ekkju að ræða, en hinsvegar mörg fordæmi fyrir því, að slíkir liðir hafi verið teknir upp, eins og áður er drepið á.

201. og 202. brtt. eru um að hækka ofurlítið styrk til tveggja kennara, um 50 kr. til hvors. Þessir kennarar eru Guðmundur Björnsson og Ingivaldur Nikulásson. Það munar lítið um þetta fyrir ríkissjóð, en dálítið fyrir þá, sem úr litlu hafa að spila. Leggur n. því til, að athuguðu máli, að þessi smávægilega hækkun verði samþ.

Í brtt. nr. 203 er gert ráð fyrir tveim nýjum liðum. Annar fer fram á 200 kr. framlag til Reynalds Kristjánssonar pósts, og til Árna Sigurbjörnssonar pósts sama upphæð; er þetta tekið upp samkv. meðmælum póst- og símamálastjóra. póstarnir eru þeir starfsmenn þess opinbera, sem oft leggja sig í mikla hættu og slíta kröftum sínum fyrir aldur fram, og að því er annan þessara manna snertir, Árna Sigurbjörnsson, sem um nokkur ár var póstur milli Vopnafjarðar og Öxarfjarðar, er það að segja, að í þessum póstferðum beið hann heilsutjón vegna þess að hann kól á fótum. Þess ber líka að geta, að á þessum póstferðum bjargaði hann þrisvar sinnum mönnum úr lífsháska. Að öllu þessu athuguðu væntir n. þess, að hv. þing samþ. þessi litlu eftirlaun.

204. till. er um að hækka skáldalaun Sigurðar Sigurðssonar frá Arnarholti úr 800 kr. upp í 1000 kr.

205. till. er leiðréttingartill.

Þá koma 3 nýjir liðir, sem n. leggur til, að verði teknir upp. Það er þá fyrst lagt til, að Kristmanni Guðmundssyni skáldi verði veittar 1800 kr. Fyrir svona litla þjóð eins og við Íslendingar erum, er það mikilsvert, að sem allra flestir geti orðið til þess að vekja eftirtekt á þjóðinni með erlendum þjóðum. Að fornu og nýju hafa bókmenntir Íslendinga helzt vakið athygli á þjóðinni. Kristmann Guðmundsson er einn af þeim Íslendingum, sem hafa verið þjóð sinni til sóma erlendis sem skáldsagnahöfundur. Hefir hann skrifað flestar bækur sínar á erlendu máli vegna þess að hann hefir ekki séð sér fært að dvelja hér á landi við starf sitt, en nú er hann seztur að hér á landi. En til þess að geta dvalið hér til lengdar og frumsamið verk sín á íslenzku, telur hann sig þurfa að hafa meiri tekjur en hann getur átt von á hér af ritum sínum. vill n. reyna að stuðla að því, að skáldið geti dvalið hér áfram og skrifað verk sín á móðurmálinu.

Þá er næst lagt til, að veittar verði 1000 kr. til skáldsins Magnúsar Stefánssonar, sem ort hefir undir rithöfundarnafninu Örn Arnarson og getið sér góðan orðstír.

Rithöfundalaun Sigurðar Norðdal eru aðeins tilfærsla milli greina, og er upphæðin sú sama sem hann hefir áður haft.

207., 208. og 209. brtt. eru leiðréttingar, vegna þess að Guðrún Jónsdóttir, Þuríður Jónsdóttir og Sigfús Sigfússon eru öll látin; falla liðirnir því niður af sjálfu sér.

210. og 211 brtt., sem eru viðvíkjandi eftirlaunum Guðrúnar Egilsen og Kofoed-Hansen, eru líka leiðréttingar á viðkomandi liðum.

Þá kemur nýr liður í 212. till. Í henni er gert ráð fyrir, að Kristínu Guðmundsdóttur, ekkju Einars Helgasonar, verði veittar 600 kr. í viðurkenningarskyni fyrir starf manns hennar, sem nú er látinn, eins og kunnugt er.

Liðurinn II. l. 77 fellur niður af sjálfu sér, þar sem viðkomandi maður, Þórður Flóventsson, er látinn.

Við 22. gr. eru aðeins fjórar brtt. frá fjvn. Samkv. 213. brtt. fellur niður heimild sú, sem gefin er í 1. lið þessarar gr. um ákveðna upphæð til að koma á stofn osta- og smjörbúum, en sú upphæð var tekin upp í þetta fjárlagafrv., þar eð stefnt er að því að taka upp í fjárlög allar þær greiðslur, sem til greina geta komið a hverju ári.

Í 215. brtt. er lagi til að fella niður heimild, sem þegar er notuð. Er sú brtt. því aðeins leiðrétting.

Í 216. brtt. er lagt til, að ríkið ábyrgist fyrir Akureyrarbæ allt að 200000 kr. til tunnuverksmiðju, enda verði lánið greitt að fullu fyrir áramót. Nefndin telur hér vera um þjóðþrifafyrirtaki að ræða, og er álitið líklegt, að þegar verksmiðja þessi hefir tekið til starfa, þurfi ekki að kaupa tunnur að. Bærinn mun sjálfur reka verksmiðjuna, og finnst því n. fyrirtækið álitlegt.

Þá er lagt til, að ríkið ábyrgist 270 þús. kr. til hafnargerðar á Sauðárkróki, ef lánið verður tekið innanlands. Á síðasta þingi var veitt dálítil upphæð, 25 þús. kr., til þessa fyrirtækis. og vill n. veita þessa ábyrgð til þess að framhald geti orðið á verkinu.

Hefi ég þá ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu lengri, þar sem ég hefi drepið á allar brtt. fjvn. í þeim kafla, sem mér var falin framsaga á.