17.12.1935
Efri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1663 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefir verið svo skorinorður um þetta með, að það mun lítið þýða að ræða það mikið. Hann hefir lýst því yfir, að það væri ekki ætlunin að taka neinar brtt. til greina; jafnvel þó að ýmislegt mætti betur fara, þá yrðu þær brtt. ekki samþ., því að annars gæti frv. dagað uppi, enda sagði hann, að frv. væri ekki annað en lítilfjörleg byrjun á kröfum þeim, sem hann og hans flokkur gerði í þeim efnum, sem um er að ræða. Þetta er það sama og fram kom í n., því þar var það sagt af þeim, sem í stj.flokkunum eru, að það væri ekki til neins að koma með brtt., því að þær yrðu ekki samþ. Undir þessum kringumstæðum hefi ég tekið þann kostinn að bera ekki fram brtt., heldur leggja til, að málinu verði vísað til stj. þó að ég hefði heldur viljað bera fram brtt., þá hefi ég talið tilgangslaust að draga þær fram, þar sem vitað er, að frv. á að ganga fram óbreytt. Auk þess er það kunnugt, að það er búið að semja um þetta mál milli stj.flokkanna, og því hæpið af þeirri ástæðu einni, að gengið yrði inn á að samþ. brtt. Það er leiðinlegt, að stj.flokkarnir skyldu ekki vera fljótari að því að koma sér saman um málið, svo að þingið hefði meiri tíma til þess að athuga það. Sú athugun, sem fram fór í allshn., er lítils virði. Frv. er 90 greinar, og til þess að athuga það var haldinn einn sunnudagsfundur. Hann var reyndar lengri en venja er til, en það getur hver sagt sér sjálfur, að það sé ónóg athugun á frv., sem er 90 greinar og inniheldur mörg nýmæli, að halda um það einn fund. Þetta þýðir í rauninni, að bægt er frá allri athugun á frv. hér í d. Ég fyrir mitt leyti get sagt það, að ég hefi haft svo mörgum þingmálum að sinna þá fáu daga, sem frv. hefir verið hér í d., að ég hefi ekki haft tíma til að athuga málið eins og ég hefði viljað. En ég álít, að frv. eins og þetta eigi ekki að ganga fram á því sama þingi, sem það er fyrst borið fram. Eins og kunnugt er, þá hófst þetta þing í febrúar og stóð þá fram í apríl, en ekki kom frv. fram þá. Það var fyrst borið fram nokkru eftir að þing kom saman í seinna skiptið, í okt. síðastl.

Mér virðast tímar þeir, sem nú standa yfir, mjög óheppilegir til þess að leggja á gjöld eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er hvergi reiknað út, hvað þau nema miklu, en ég held, að eftir okkar mælikvarða muni þau nema stórfé. Það getur enginn sagt fyrir, hvað kostnaðurinn muni verða mikill. Ég veit, að á næsta ári verður hann ekki eins mikill og næstu árin á eftir, að óbreyttri löggjöfinni. Ef litið er á, hvernig ástandið er í landinu, þá er það svo, að hæstv. atvmrh. hefir nýlega látið flytja frv. til hjálpar öllum bæjar- og sveitarfélögum, að einu undanskildu. En á hverju lifa bæjar- og sveitarfélögin? Þau lifa ekki á öðru en því skattgjaldi, sem þau fá hjá skattþegnum sínum. Og hvað þýðir það þá að hlaupa undir bagga með bæjar- og sveitarfélögum? Það þýðir, að hlaupa verður undir bagga með skattgreiðendunum, af því að gerðar eru of háar kröfur til þeirra. Ef þetta frv. til hjálpar bæjar- og sveitarfélögum á rétt á sér og ég álít, að það eigi fullan rétt á sér - og það er athugað, að þar er flutt frv., sem hlýtur að byggjast á því, að bæjar- og sveitarfélögin geta ekki af skattgreiðendum sínum fengið nægilegar tekjur til þess að standa undir útgjöldum sínum, og þegar þess jafnframt er gætt, að með frv. því, sem nú liggur hér fyrir, eru lögð stórkostlega þung gjöld á þessa sömu gjaldendur, sem verið er að hjálpa til þess að standa í skilum við bæjar- og sveitarfélögin, þá get ég ekki skilið, að það sé réttmætt að koma með frv. eins og þetta. Á sama þinginu á þannig að leggja mikil gjöld á þá sömu menn, sem þingið er að reyna að hjálpa með löggjöf, sem nú er byrjað að vinna að. Þetta er sama og að reisa fallinn mann og hrinda honum síðan, svo að hann detti aftur. Mér finnst því, að þó að segja megi um þetta tryggingarfrv., að það sé æskilegt, að það sé gert að l., þá sé það eitt af þeim mörgu nauðsynjamálum, sem verða að bíða. Það er heimska að ætla sér að keyra í gegn nú mál, sem kosta stórfé, þegar svo er ástatt, að það þarf að hjálpa nálega öllum gjaldendum landsins. Það er búið að hlaupa undir bagga með landbúnaði og sjávarútvegi, og nú á að hlaupa undir bagga með nálega öllum gjaldendum landsins. Þegar þetta er athugað, þá sýnist það vera næsta undarlegt að ætla nú að demba á löggjöf, þar sem verður að greiða eins há gjöld og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég hefði álitið fært að gera þetta, ef Þannig væri ástatt, að framleiðendur landsins væru vel stæðir, eða að framleiðslan gengi vel. En er það svo? Það er viðurkennt af öllum, að bæði landbúnaður og sjávarútvegur bíða halla af framleiðslunni frá ári til árs. Ég sé, að það stefnir í ófæru, ef nú á að leggja nýjar álögur á þá sömu, sem nú verða að standa undir öllum gjöldum landsins. Annarsstaðar en frá framleiðslunni getur fé ekki komið, nema meðan verið er að eta upp það litla, sem safnað hefir verið fyrir frá fyrri árum.

Ef menn líta til ríkissjóðs, þá sest, að ástandið þar er þannig, að fjvn. hefir setið með sveittan skallann síðan í september og verið að reyna að færa niður útgjöldin, og hafði fært þau niður um eina millj., þegar boð komu frá stjórnarflokkunum um, að þeir hefðu gert sáttmála sín á milli um að éta upp aftur þessa einu millj., sem sparazt hafði. Ég er að hugsa um við 3. umr. fjárl. að lofa hv. þm. að heyra ágrip af ræðu, sem hv. form. fjvn. hélt 30—40 sinnum á fundum fjvn. Þetta ræðuágrip á ekki eins vel við hér, en þar á það sannarlega heima. (SÁÓ: Hver skrifaði þessa ræðu?). Ég get lært það utan að, sem ég heyri 30—10 sinnum, og þarf ekki að hafa það skrifað. - Ég álít, að þetta mál hefði átt að bíða, eins og svo mörg nauðsynjamál verða að gera, þegar fé vantar til að hrinda þeim í framkvæmd.

Ég skal svo láta þessi ummæli nægja að því er snertir grundvallarafstöðu mína til málsins, en get ekki látið hjá líða að fara nokkuð í gegnum frv., sumpart til þess að gera nokkrar fyrirspurnir, af því ég hefi ekki haft mikinn tíma til að athuga það, og líka til þess að benda á ýmsa galla, sem mér virðast auðsæir á frv.

Ég tel það til eins af göllum frv., að ekkert er ákveðið um laun þeirra manna, sem hér eiga að starfa. hér eru sett á stofn mörg embætti og sýslanir og ekkert ákveðið um laun þeirra manna, sem þeim eiga að þjóna, heldur er aðeins sagt, eins og nú tíðkast hjá ríkisstofnunum, að launin skuli ákveðin í launalögum, en þangað til skulu þau ákveðin af ráðh. Nú veit enginn, hve há þessi laun verða sett, og þegar meta skal laun manna eftir störfum þeirra, þá getur það sannarlega orðið álitamál hve há þau eiga að vera, en hér er viðkomandi ráðh. af engu bundinn, svo hann getur hæglega sett launin of há í hlutfalli við laun annara embættismanna ríkisins, og þess vegna er það óviðkunnanlegt að láta ekki sjást strax, hvaða laun mennirnir eiga að fá. Og þótt launahæðin væri tekin upp í þessi lög, er jafnhægt að taka hana upp í launalögin, þegar þau koma, en það getur dregizt í mörg ár enn. Svo er hér gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði 1/4 hluta kostnaðar af þessu nýja embættabákni. Mér finnst þetta undarlegt og skil ekki, hvers vegna tryggingardeildirnar geta ekki borgað þennan kostnað að öllu leyti. (Forsrh.: Það er heimilt að leggja þetta að öllu leyti á deildirnar). Já, það stendur, að það megi leggja kostnaðinn að öllu á tryggingardeildirnar, ef fært þyki, en þær eiga að vera þannig byggðar upp, að þær þurfi aldrei að vera ómagar á ríkissjóði.

Þá er það látið vera reglugerðaratriði, hve iðgjöldin séu há. Í stuttu máli sagt er það sérstaklega einkennandi fyrir þetta frv., að upp í það eru tekin fjöldamörg atriði, sem venja er að hafa í reglugerð, en aftur á móti sleppt mörgum atriðum, sem venja er að hafa í lögum, og ætlazt til, að um þau verði sett reglugerðarákvæði. Þetta gengur eins og rauður þráður í gegnum allt frv.

Í 7. gr. frv. er sagt, að reikningar tryggingarstofnunarinnar skuli endurskoðaðir á sama hátt og reikningar ríkisins og ríkisstofnana. Ég veit ekki, hvað þetta þýðir. Þetta er að vísu ekki stórt atriði, en ég nefni það vegna þess, að það ætti að ganga þannig frá lögunum, að þau væru skiljanleg. Það er sem sé kunnugt, að reikningar ríkisstofnana og reikningar ríkissjóðs eru ekki endurskoðaðir á sama hátt. Reikningar ríkisstofnana eru endurskoðaðir af ákveðnum mönnum úr ráðuneytinu, en reikningar ríkisins eru endurskoðaðir af mönnum, sem kostir eru til þess af Alþ. En hver er þá meiningin með þessum ákvæðum 7. gr.?

Um 2. kafla frv., sem er 1. tryggingarkaflinn, er það að segja, að hann er lítið breyttur frá því, sem nú er í lögum, og mundi ekki hafa valdið miklum ágreiningi að taka hann upp með þeim breytingum, sem á honum eru gerðar. En það er næsti kaflinn, 3. kafli frv., sem fjallar um sjúkratryggingar, sem ég vil víkja að nokkrum orðum. Það er gert ráð fyrir, að allir menn á vissu aldursskeiði (að örfáum undanteknum) séu tryggingarskyldir, en það er ekki nema nokkur hluti þessara manna, sem getur öðlazt nokkur réttindi í þessu tryggingarfélagi. Þeir, sem hafa yfir 4500 kr. í skattskyldar tekjur, fá aðeins þá ánægju að greiða iðgjöldin, en engin réttindi í staðinn. Það er þess vegna alveg rangt, að taka svo til orða sem gert er í 23. gr. frv. Þar er sagt, að sérhver maður, karl eða kona, eldri en 16 ára, sem búsettur sé á samlagssvæðinu, hafi rétt og skyldu til að tryggja sig í samlaginu. Ég veit ekki, hver þessi réttur er hjá þeim, sem hafa yfir 4500 kr. skattskyldar tekjur. Það er réttur til þess eins að borga, og ekkert annað, en slíkt er vant að nefna skyldu, en ekki réttindi. Það er þess vegna í meira lagi undarlegt að tala hér bæði um rétt og skyldu.

Þá er hér eitt atriði, sem ég veit ekki, hvort getur staðizt, ef lögin eiga að öðlast gildi og koma til framkvæmda 1936. Það stendur í 26. gr. frv., að stjórn samlagsins skuli kosin af bæjarstjórn á sama hátt, samtímis og til jafnlangs tíma og fastanefndir bæjarins eru kosnar. Ég held, að fastanefndir séu venjulega kosnar fyrir allt kjörtímabilið, og nú stendur hér, að stjórn samlagsins skuli kosin samtímis fastanefndum, og það yrði þá sennilega að bíða til ársins 1938, því engar líkur eru til þess, að fyrr verði kosið. Þetta dæmi sýnir það vel, að það er ekki viðhöfð nein vandvirkni þegar frv. er samið, og það hefði sannarlega haft gott af að fara í gegnum slípandi hreinsunareld til að fá á sig betri áferð en það hefir nú að ýmsu leyti.

Maður skyldi halda, að í frv. eins og þessu væri eitthvað ákveðið um það, hve há iðgjöldin ættu að vera; en það er ekki. Um þetta á að setja reglugerðarákvæði, og þetta sýnir, að það er rétt, sem ég sagði, að yfirleitt hefir verið skotizt fram hjá því að taka meginatriðin upp í frv., en aukaatriðin hafa verið tekin í stað þeirra.

Í 36. gr. er málvilla, en ég hleyp yfir hana, því að hún fæst ekki leiðrétt. Eitt atriði, sem kemur við efni frv., get ég ekki stillt mig um að nefna. Þegar menn eru í vinnu hjá öðrum, er ætlazt til, að þeir fái full laun í 14 daga eftir að þeir veikjast, en svo stendur sbr. 41. gr.: „Hafi tryggður aðaltekjur sínar af eigin atvinnurekstri eða eignum, skal hann ávallt talinn á launum hjá sjálfum sér fyrstu 14 dagana eftir að veikindi eða slys ber að höndum.“ Þetta þýðir, að þótt vitað sé, að atvinnan sé rekin með stórtapi, þá á sá, sem stundar eigin atvinnurekstur, að reiknast á launum hjá sjálfum sér, en hinn, sem vinnur hjá öðrum, á að fá full laun í 14 daga, þótt hann vinni ekki neitt. Mér finnst, að nokkuð sé misskipt sól og vindi í þessu efni.

Þá finn ég ekkert ákvæði í frv. um það, hver hafi innheimtu iðgjaldanna á hendi, en líklega á það að vera sú stj., sem bæjarstj. kýs fyrir þetta samlag. En það hefði verið skemmtilegra, að þetta hefði verið tekið fram. Í 42. gr. stendur, að vangoldin iðgjöld innheimtist af bæjar- og sveitarstjórnum. Ég skil ekkert í því, hvers vegna stjórnum samlaganna er ekki ætlað að annast þessa innheimtu að öllu leyti, því svo lítur út, að þær eigi þó að nokkru leyti að hafa hana með höndum. En um þetta vantar öll skýr ákvæði. Ég ætla líka, að ekkert sé tekið fram um það, hvenær gjalddagi þessara iðgjalda sé, en það verður líklega ákveðið með reglugerð um leið og gjöldin verða ákveðin.

Þá er enn ein grein, sem er full ástæða til að gera aths. við, og það er 45. gr., sem heimilar að leggja á alla vinnukaupendur nýjan skatt, sem nemur 1% af vinnulaunum, til að stofna jöfnunarsjóð til tryggingar fyrir sjúkrasamlögin. Reyndar er þetta ekki nema heimild, og ég geri ráð fyrir, að hún verði ekki notuð fyrr en það sýnir sig, að hennar þurfi með. En mér finnst það satt að segja næsta harðdrægt að gera ráð fyrir eilífum sköttum ofan á fyrrverandi skatta, sem framleiðendur eru að sligast undir, aðallega fyrir það, hve illt er að selja framleiðsluna. Á fyrirtæki, sem borga 1 millj. kr. í vinnulaun, er þetta skattur, sem nemur 10 þús. krónum.

Þá vil ég nefna 47. gr., um myndun lífeyrissjóðs, aðallega til að gera fyrirspurn um hana. Þar stendur svo: „Af sjóðum þeim, sem ræðir um í 62. gr. hér á eftir, þegar hlutverki þeirra samkv. þeirri grein er lokið, svo og af ellistyrktarsjóðum, þegar hlutverki þeirra er lokið samkv. VI. kafla þessara laga.“ Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. eða hv. frsm., hvenær hlutverki ellistyrktarsjóðanna sé lokið samkv. VI. kafla. Ég hefi lesið kaflann, en ekki fundið þetta út, og óska eftir að fá skýringu á því, hvenær talið er, að þeir hafi lokið hlutverki sínu. Ég skil ekki, ettir hverju þeir eiga að starfa framvegis, því í síðustu greininni eru lög um þessa sjóði numin úr gildi, og ég veit ekki, eftir hverjum skollanum

þeir eiga að starfa þar á eftir. Þetta er í kaflanum um elli- og örorkutrygginguna.

Þá vil ég næst minnast á 49. gr. frv. þar er ákveðinn 7 kr. nýr nefskattur á hvern mann í kaupstöðum, 6 kr. í kauptúnum og 5 kr. í sveitum, og svo 1% á skattskyldar tekjur. Þeir fara að verða æðimargir hundraðshlutarnir, sem þarf að greiða af skattskyldum tekjum, en það þykir lítið, þó 1% bætist við, og ég skal viðurkenna það, að 1% virðist ekki vera drepandi, en svo oft er hægt að bæta 1% ofan á, að þau verði að lokum orðin svo mörg, að það verði banvænt. Og minnir þetta á söguna um lestamanninn, sem lagði svo þungt á hestana sína, að þeir þróttminnstu drápust undir klyfjunum, en þá tók hann baggana af þeim og bætti ofan á klyfjar þeirra, sem eftir stöðu, og þyngdi á þeim unz allir hestarnir voru þrotnir að kröftum. Svipað þessu finnst mér aðferð hæstv. ríkisstj. vera. Smátt og smátt eru gjaldendurnir að heltast úr lestinni og geta þeirra fer minnkandi og þeir örmagnast á þessari erfiðu göngu, og svo er aðferð hv. stjórnarflokka sú, að bæta því, sem þeir báru, ofan á þá, sem ennþá rísa undir böggunum, og þar að auki er hlaðið á nýjum sköttum. (Atvmrh.: Bætti ekki lestamaðurinn húðunum af hestunum, sem drápust, við baggana?). Jú, hann mun hafa gert það, og þá er líkingin líka orðin rétt, því nýju skattarnir geta vel svarað til þess, að húð og hömsum af hestunum sem drápust, hafi verið bætt við klyfjarnar. En svo er þetta 7 kr. gjald. Það er búið vendilega um tekjuskattshlutann - hann á að innheimtast eins og hver annar tekjuskattur. En þessar 7 kr. - hvenær eiga þær að innheimtast? Hvað segir hæstv. ráðh. um það? Það stendur ekkert um það hér, og mun vera eitt af því, sem hefir gleymzt.

Svo er ennfremur fyrirspurn til hæstv. ráðh. út af 52. gr., um það, hvort þeir menn, sem nú eru öryrkjar, fái ekki styrk eftir þeim reglum, sem settar eru í 51. og 52. gr. Ég er ekki viss um þetta, en held samt, að það hljóti að eiga að skiljast þannig, þótt sum ákvæði séu, sem benda til þess, að eingöngu þeir, sem hér eftir verða öryrkjar, eigi kröfu til styrksins. Ég vona, að það sé ekki meiningin, heldur sé svo til stofnað, að þeir, sem þegar eru orðnir öryrkjar, hafi fullan rétt til styrks.

Svo er athugavert við 60. gr., að þar stendur, að lögreglustjóri annist innheimtu iðgjaldanna og af persónuiðgjöldum skuli innheimtumenn fá 2% fyrir innheimtuna. Ég tel ekki, að borgun fyrir þennan starfa sé áætluð of há hjá þeim, sem ekki fá skrifstofukostnað endurgreiddan eftir reikningi, en þegar starfið er unnið af þeim embættismanni, sem fær greiddan allan skrifstofukostnað, þá tel ég þetta ekki sanngjarnt. Laun lögreglustjóra, t. d. hér í Reykjavík, hafa verið ákveðin með það fyrir augum, að þau væru hæfileg og að þeir hafi ekki aukatekjur, en fái svo greiddan skrifstofukostnað eftir reikningi; en svo er þeim ætlað hér á ofan sæmileg upphæð, og það þótt þeir fái allan skrifstofukostnað greiddan. Undarlegt er og að fela þetta starf lögreglustjóranum í Rvík en ekki tollstjóranum.

Þá er 61. gr. Ég vil spyrja hv. frsm., hvort fyrir 1. febr. næstk. eigi að gera skrá yfir alla þá, sem heimilisfastir eru í hverju sveitar- og bæjarfélagi. Ég veit ekki, hvenær þessi lög verða staðfest, en í 90. gr. stendur, að þau skuli öðlast gildi 1. apríl 1936. En svo stendur hér í 61. gr., að þessa skrá skuli gera fyrir 1. febr. ár hvert. Á þá að gera þessa skrá nú fyrir 1. febr. 1936, eða á það að bíða til ársins 1937? Ég skil ekki í, að það sé hugmyndin. En þetta er eitt af því, sem sýnir, að ekki hefði verið vanþörf á að athuga frv. betur en raun ber vitni um, að gert hefir verið.

Þá er ég kominn að 62. gr. frv., og er sú gr. einna ósanngjörnust af öllum gr. frv. Þar er svo ákveðið, eftir því sem ég fæ bezt seð, að sá hluti af lífeyrissjóði embættismanna, sem eftir verður, þegar allir þeir, sem nú eru tryggðir þar, eru dauðir, falli til lífeyrissjóðs Íslands. Nú er enginn sá spámaður til, sem getur sagt það með vissu, hve miklu þessi upphæð muni nema, en ég gæti trúað, efir því sem horfur eru nú, að það mundi ekki verða minna en 1—2 millj. kr., og þetta er sjóður embættismannanna sjálfra, skapaður með þeirra eigin fé, og samt á að taka hann af stéttinni og gera þannig þessa tryggingarráðstöfun þeirra að engu. Ég hefi minnzt á þetta við hæstv. atvmrh., og mér virtist hann vera mér sammála um, að þessu þyrfti að breyta, og hafði hann góð orð um, að það yrði gert á næsta þingi, en þessa breyt. mátti ekki gera nú fremur en aðrar breyt. En hér er bein hætta á ferðum, því það er annað atriði í 62. gr. en það, sem ég nefndi áðan, og það er um, að þeir embættismenn, sem eru undir 40 ára aldri, geti fengið útborgað allt það, sem þeir eiga inni í lífeyrissjóði embættismanna, með því að fara inn í þessa nýju tryggingu. Þetta er frá tryggingarlegu sjónarmiði séð alveg fráleitt og vinnur beint á móti tryggingarhugmyndinni, auk þess sem þetta ákvæði er lífeyrissjóði embættismanna fjárhagslega stórhættulegt. Þetta ákvæði er auðsjáanlega sett inn til þess að veikja lífeyrissjóð embættismanna sem fyrst. Það er auðvitað, að margur maður, sem þvingaður hefir verið með lögum til þess að leggja 7% af launum sínum í sjóðinn árlega, vill gjarnan fá 2000—3000 kr. útborgaðar í einu. Ég vil því taka hæstv. atvmrh. á orðinu um það, að þetta verði lagfært þegar á næsta þingi. Ég get skilið andstöðu hæstv. ráðh. gegn breytingum á frv. nú, þar sem um það mun hafa verið samið milli flokkanna, að það gangi í gegn. En hitt er vitavert, að hafa frv. ekki betur undirbúið en raun ber vitni um, eða að ætla ekki lengri tíma til meðferðar þess hér í deildinni. Lífeyrissjóður embættismanna, sem byrjaði 1. jan. 1920, mun nú vera orðinn um 11/2 millj. króna. verður ekki annað séð en að sjóðurinn geti vaxið stórkostlega í framtíðinni, aðeins af vöxtunum einum, og létt miklum byrðum af ríkissjóði á þann hátt að hjálpa þeim embættismönnum, sem ríkissjóður yrði annars að styrkja. Það er því alveg ósæmilegt að taka nú þenna sjóð, sem embættismenn hafa stofnað með eigin fé sér til tryggingar, og láta hann ganga til annara, sem embættismönnum hefir ekki dottið í hug að fara að tryggja.

En hvað er nú ellitryggingin há í frv.? Í aths. er einhversstaðar talað um 420 kr. á ári. Þetta þykir mér nú satt að segja nokkuð lágt. Þegar ferjumenn eða póstar fá eftirlaun í fjárlögum, er það næstum aldrei minna en 500—600 kr. Ég hefi ekki reynt að setja mig inn í þá flóknu útreikninga í frv., sem að þessu lúta, en ég vil spyrja þá, sem þetta eiga að vita, hversu há ellitryggingin sé. Í frv. er talað um fullan lífeyri, en hver hann er, sést hvergi. Ég get ekki skilið, að betra verði að ákveða þetta síðar.

Ég mun ekki dvelja lengi við atvinnuleysistryggingarnar. Árstillögin eru ekki ákveðin þar fremur en annarsstaðar, heldur eiga þau að vera reglugerðaratriði. Samt sem áður mega þau heita aðalatriðið í tryggingunum og það, sem allt byggist á.

Þá er skrítið að sjá það ákvæði í 69. gr., að styrkurinn megi ekki fara yfir 3/5 kaups, því að í 71. gr. stendur, að viðurkennt verkalýðsfélag skuli ákveða kaupgjaldið. Það er því alveg sama, hvort stendur, að greiða skuli 3/5 eða 1/1 af launum starfsgreinarinnar, því að alltaf er hægt að hækka kauptaxtann. (Atvmrh.: Ekki gengur það nú alltaf orðalaust).

Ég þarf ekki að ræða hér um atvinnuleysisstyrkinn sjálfan, enda mun það vera þýðingarlítið. Eins og frsm. sagði, á aðeins að koma inn litla fingrinum í þetta skipti og síðan að hækka þá og hækka á næstu þingum. (SÁÓ: Já, ef nauðsyn krefur). Nauðsynin vex eftir því, sem atvinnuvegirnir eru dregnir niður, og að því er nú unnið.

Þá verð ég að játa, að ég skil mjög lítið í 79. gr. Eftir henni lítur helzt úr fyrir, að ellilaunin eigi að verða kr. 52.50 á ári. Ég botna ekki almennilega í þessu, en trúi ekki stj. í neinni blindni og vona því, að hæstv. ráðh. gefi góð og gild svör. (Atvmrh.: Hví er hv. þm. að spyrja stj., sem hann ekki trúir?). Ég sagðist ekki trúa henni í blindni og heimta því skýr svör.

Þá er 84. gr. um sjóði, sem myndaðir eru af dánargjöfum. Þar er svo ákveðið, að allir slíkir sjóðir skuli renna inn í tryggingarstofnunina, þegar hið opinbera hefir tekið að sér hlutverk þeirra að öllu leyti. Ég ætla nú, að það geti verið álitamál, hvenær slíkt verður, en hvað sem því líður, tel ég ósæmilegt og óheimilt, að hið opinbera taki þessa sjóði í sínar hendur, þvert ofan í fyrirmæli gefendanna. Ég teldi réttara að draga styrki úr slíkum sjóðum frá opinberum styrkjum, því að á þann hátt yrði þó komizt hjá því, að vilji gefendanna yrði lítilsvirtur.

Ég hefi sýnt fram á það, að ekki er vanþörf á, að þetta frv. verði athugað betur, og vona, að stjórnarliðið taki þau atriði, sem ég hefi bent á, til athugunar þegar á næsta þingi. (JBald: Þetta frv. á oft eftir að koma til athugunar).