17.12.1935
Efri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Það var ýmislegt, sem hæstv. ráðh. svaraði ekki af því, er ég spurði um, t. d. aths. minni við 49. gr. frv. Ég get vorkennt hæstv. ráðh., þó að hann sé ófús að viðurkenna gallana. Hann sagði, að frv. væri nýmæli og viðurkenndi, að það yrði að endurskoða. En ég hygg, að hægt hefði verið að fyrirbyggja ýmsa þessa galla, með því að leggja meiri rækt við samningu frv. Það er náttúrlega alltaf hægt að segja, að endurbæta megi samþykkt l. á næsta þingi. En ég sé hinsvegar ekkert vit í því að samþ. frv., sem viðurkenndir gallar eru á. Um þetta tjáir þó ekki að fást, því að það liggur hvorki meira né minna við en líf stj., að frv. þetta nái fram að ganga á yfirstandandi þingi.

Hæstv. ráðh. fullyrti, að þeir tímar, sem nú stæðu yfir, væru allra tíma bezt fallnir til að setja svona löggjöf, sem hefir í for með sér milljónaútgjöld. Ég þykist þess nú fullviss, að eftir fá ár er þessi löggjöf orðin einn af tilfinnanlegustu útgjaldaliðum ríkisins. Hefir sumstaðar verið gengið svo langt í þessum efnum, að taka hefir orðið í taumana. Þegar Snowden var fjmrh. í Englandi, sagði hann: Annaðhvort verður að takmarka tryggingarnar, eða ríkið fer á hausinn. Og hann tók það ráð að draga úr tryggingunum. Ég veit, að hér sækir í sama horfið, þegar fram líða stundir, þessi útgjöld vaxa, þangað til tekið verður í taumana. (SÁÓ: Hvað gerir stj. í Englandi nú?). Hún greiðir til þessara hluta minna en áður. (SÁÓ: Þeir lofa þó nú hækkuðum alþýðutryggingum). Þeir lofa a. m. k. ekki hærri tryggingum en áttu sér stað, þegar Snowden og Mac Donald fóru úr jafnaðarmannaflokknum vegna tryggingarmálanna ensku.

Ég hefi alltaf heyrt, að þegar lítið er um fé, þá eigi að reyna að eyða minnu en þegar nóg er af því. En hæstv. ráðh. kennir, að þegar lítið er um fé, þá eigi einmitt að nota mikið fé. Ég skil ekki þessa kenningu og get a. m. k. ekki álitið hana rétta.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé mjög ýkt, hvað frv. muni kosta. Þar stendur orð á móti orði. Sjálf stj. er ósammála um þetta. Hæstv. fjmrh. vill fá 300 þús. kr. vegna aukinna útgjalda af þessum ástæðum, en hæstv. atvmrh. álítur það of hátt áætlað. Ég held, að það sé rétt hjá hæstv. atvmrh., að útgjöldin á næsta ári verði ekki eins há og hæstv. fjmrh. álítur, þar sem l. koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. apríl. Ríkið greiðir því ekkert til þessara hluta fyrr en 1. júlí, en 2. greiðsla fer fram 1. okt. og 3. greiðsla svo aftur 1. jan. 1937. Þá greiðslu ber því ekki að færa á árið 1936. En þó eru fleiri atriði en þetta, sem til greina koma. Allar þessar tryggingagreinar taka mikinn tíma, áður en þær eru að fullu komnar á stofn, svo að útgjöld af þessu verða á næsta ári að vísu ekki eins mikil og hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir. En í framtíðinni nægir ekki þessi 300 þús. kr. upphæð; það er ég viss um. Hún tvöfaldast og þrefaldast eða jafnvel margfaldast. Þegar berklavarnal. voru sett, staðhæfðu t. d. flm. frv., að þau gætu ekki valdið meiru en 100 þús. kr. útgjöldum. En nú, nokkrum árum síðar, eru þau útgjöld komin yfir eina millj. kr., sem er meira en tíföld sú upphæð, sem þeir gerðu ráð fyrir.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það er grundvöllur þessa frv., að þeir eigi að borga, sem geta. Auðvitað borgar enginn, nema hann geti. En það er þó alltaf varlegra að sýna þeim, sem undir byrðunum standa, nokkra miskunnsemi, svo að þeir örmagnist ekki, eins og hestar lestamannsins, sem bætti alltaf meiru og meiru á klyfjarnar. Og hvað verður þegar enginn stendur lengur upp úr og enginn getur greitt neitt? Að því hlýtur að draga að lokum.

Ég hjó eftir í fyrirlestri, sem ég hlustaði á hjá sænskum hagfræðingi, sem dvalið hefir hér til þess að leiðbeina stj. í fjármálum, að hann taldi það okkar mesta mein, hvað við hefðum lítið kapítal. En hér á þingi er það skoðað sem versti djöfull og þjóðinni til niðurdreps, ef einhver reynir að leggja eitthvað til hliðar sér til tryggingar í ellinni. Þegar menn eru orðnir 67 ára, fá þeir ekki frá ellitryggingunni fullar bætur, eigi þeir einhverjar eignir. Er þá dregið frá það, sem þeir hafa upp úr þeim. Þeir eiga því ekki að fá nokkra viðurkenningu fyrir að spara til elliáranna, heldur þvert á móti refsingu. Og svo er verið að kalla þetta tryggingu, þar sem tekið er af mönnum svo eða svo hátt gjald, en engin fríðindi veitt á móti, nema undir vissum kringumstæðum. Þetta er skattur og ekkert annað, og væri réttara að kalla það sínu rétta nafni en vera að uppnefna það og kalla það tryggingu, vegna þess að það þykir fallegra nafn. (Atvmrh.: Það veit enginn, hvernig efnahagur hans verður þegar hann er 67 ára). Veit enginn! Þeir vita það þó nokkuð, sem hafa tryggt sig hjá öruggum stofnunum, eða embættismenn, sem sitja í föstum stöðum til æfiloka - en þessir menn eiga samt að borga. Mun hér um einstaka aðferð að ræða, sem að sumu leyti er byggð á misskilningi hjá hæstv. ráðh., en er e. t. v. að nokkru leyti rétt. Gallar frv. hafa verið viðurkenndir með þeirri játningu, að ýms atriði frv. þurfi endurskoðunar við svo fljótt sem unnt er. Ég mun því að mestu ganga framhjá einstökum atriðum frv., en víkja með nokkrum orðum að málinu almennt.

Ég sný ekki aftur með það, að ákvæðið um endurskoðun reikninganna er villandi, þó ég efist ekki um, að hæstv. ráðh. ætlist til, að hún sé framkvæmd eins og hann segir. En annars er það algengt, að reikningar, sem eiga að vera endurskoðaðir af yfirskoðunarmönnum landsreikninganna, eru sumir aldrei til þeirra sendir og því aldrei endurskoðaðir.

Mér þykir leitt, að hæstv. ráðh. skilur frv. svo, að þeir, sem nú eru öryrkjar, eigi ekkert að fá. Þeir eiga þá ekki að hafa neitt gagn af þessu frv., og hækkar það ekki álit mitt á frv. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðh., hvort hann líti ekki svo á, að l. um ellistyrktarsjóðina falli úr gildi 1. apríl 1936. Ef svo er, verður margt af fólki, sem nú er 60 ára og notið hefir styrks úr sjóðunum, svipt öllum styrk eftir frv. og fær ekkert fyrr en það er orðið 67 ára. Hvernig verður þá um það fólk, sem nú er á árunum frá 60—67 ára, ef tekinn er af því rétturinn til þess að njóta styrks úr ellistyrktarsjóðnum? En mér þykir óeðlilegt og ekki líklegt, að til þessa sé ætlazt, þó í frv. hafi þetta orðið uppi á teningnum. En væri svo, kæmi mér ekki á óvart, þó frv. yrði tekið til lagfæringar strax á næsta þingi.

Að vísu lætur frv. skína í, að ellistyrktarsjóðirnir eigi að starfa áfram. En eftir hvaða reglum eiga þeir að starfa, þegar búið er að nema l. úr gildi? (Atvmrh.: 76. og 77. gr. kveða á um það). 76. gr. kveður aðeins á um, hvaðan það fé komi, sem árlega skuli varið til örorkubóta og ellilauna, og 77. gr., að ríkissjóður skuli leggja fram í þessu skyni 130 þús. kr. á ári í 50 ár. En hvar er heimild til þess að reiða af þessu fé fólki á aldrinum 60—67 ára? Úr því leysa þessar gr. ekki. Ég skil ekki, að athuguðu máli, annað en það sé útilokað, að fólk á þessum aldri fái nokkurn styrk samkv. frv. Vil ég skoða þetta sem óvandvirkni við samningu frv., en ekki ásetningssynd. Það kemur illa heim hjá hæstv. ráðh., sem í vondu árunum vill hjálpa vel og myndarlega, og meira að segja safna í sjóði, ef jafnframt á að kippa hjálpinni af gamla fólkinu og setja það hjá, sem notið hefir styrks á undanfornum árum. Það er með öllu óskiljanlegt.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég hefði verið harðorður um 62. gr. Þetta getur verið. En ég sagði ekki nema það, sem réttmætt var, enda er það viðurkennt af hæstv. ráðh., sem hefir lofað að breyta þessu ákvæði á næsta þingi. Það er sagt, að lífeyrissjóðir embættismanna og barnakennara eigi ekki að lifa lengur en þangað til hlutverki þeirra er lokið. Þetta er vitanlega alveg rétt. En hvenær er ætlunarverki þeirra lokið? Ekki þó þeir séu allir dauðir, sem nú greiða í sjóðina. Nei, það er ekki fyrr en enginn kennari eða embættismaður er lengur til hér á þessu landi.

Þessir sjóðir eru storkostleg trygging fyrir ríkissjóð, sem alltaf verður fyrir miklum kröfum um ellistyrk frá þeim, sem hann hefir haft í sinni þjónustu, embættismönnum og barnakennurum.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði auðvitað misskilið 79. gr. En ég hvorki skildi hana né misskildi, því ég skildi hana alls ekki, vegna þess að þar vantaði allan grundvöll til þess að byggja á við að finna þá upphæð, sem ætti að úthluta.

Enda hefir nú verið upplýst, að þetta muni eiga að ákveðast í lögum síðar. En ég hjó eftir, að tryggingin muni eiga að byrja að starfa eftir 10 ár.

Um 83. gr. vil ég halda fast við það, sem ég hefi áður sagt, og endurtaka, að það er ekki sæmilegt að breyta með l. erfðaskrám manna. Það hefir allt af verið talið óheimilt nema annað væri ómögulegt, en sjálfsagt að fara eftir erfða- eða skipulagsskrá. Það er enginn kominn til að segja, hvort féð hefði verið gefið, ef gefandi hefði vitað, að það mundi renna í opinberan sjóð. Það er lítil hvöt fyrir menn að gefa í sérstöku augnamiði, ef þeir geta búizt við, að löggjafarvaldið breyti skipulagsskrá fyrir gjöfinni á næstu árum. Það þarf enginn að ætla, að það fé, sem í sjóðunum liggur, komi engum að gagni. Það starfar með fullum krafti í atvinnuvegum þjóðarinnar, jafnvel þó sjóðirnir sjálfir sýnst starfa lítið.