17.12.1935
Efri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

131. mál, alþýðutryggingar

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég heyrði því miður ekki síðasta hlutann af ræðu hv. frsm. meiri hl., en það, sem ég heyrði af henni, gaf mér tilefni til að segja nokkur orð.

Hv. frsm. meiri hl. var að vanda um við mig út af því, að ég hefði sagt eða fundið eitthvað að því, að svo væri ætlazt til ettir 5. kafla þessara laga, að öll stjórn á sjóðum, sem þar getur, væri í höndum félaga, sem gætu í allflestum tilfellum talizt pólitísk félög. Hann fullvissaði mig hátíðlega um það, að engri hlutdrægni yrði þar beitt og að hann mundi aldrei beita neinni hlutdrægni í því efni. Ég hefi ekki borið neinar slíkar getsakir á hv. frsm. meiri hl., og það er fjarri hug mínum að væna hann persónulega um slíkt. Hann sagði, hv. frsm. meiri hl., að ekki væri sæmilegt að láta sér þau orð um munn fara, sem ég hafði viðhaft. En hvað hafði ég sagt? Ég hafði tekið það fram, að það gæti verið æskilegt fyrir félögin sjálf að firra sig tortryggni um pólitíska hlutdrægni með því að hafa ákvæði um, að fleiri aðilar hefðu með að fara stjórn þessara sjóða og úthlutun úr þeim. Ég hygg, að í þessum orðum geti ekki falizt nein ásökun og því síður aðdróttun, en hinsvegar verður því ekki neitað, að með þessu er opnuð leið fyrir allmikla tortryggni í þessu efni. En ég er náttúrlega ekki svo kunnugur öllum hálfpólitískum og alpólítískum félagsskap hér, að ég geti fullyrt um, að þar ríki svo mikill hreinleiki eins og hv. frsm. meiri hl. vildi vera láta, að hlutdrægni væri alstaðar útilokuð. A. m. k. þykjast menn ekki vissir í þeim sökum í öðrum greinum, hvað sem þessu líður.

Hv. frsm. meiri hl. átaldi mig fyrir það, að ég hefði gert aths. við ákvæðin í 67. gr. frv., þar sem svo er ákveðið, að enginn geti orðið sjóðfélagi og haldið áfram að vera það, sem eigi eignir, sem nemi meiru en 5 þús. kr. fyrir einhleypa en 10 þús. kr. fyrir hjón. Hann vildi telja, að þetta væri ekki svo mikil upphæð. En ég hafði aðeins bent á það ósamræmi, að mönnum, sem lítið eiga, hefði verið og er enn gert þyngra fyrir um alla tolla og álögur. En í þessum orðum eru þeir taldir svo illa stæðir, sem eiga allt að þessari upphæð, að það þurfi að veita þeim opinberan styrk. En hv. þm. vildi telja, að slíkir aðilar sem þessir væru undanþegnir eignarskatti. En svo er a. m. k. ekki um hjón, sem eiga 10 þús. kr. eign. Hjón, sem eiga 10 þús. kr. eign, voru beitt því bragði með þeim skattalögum, sem nú gilda og samþ. voru á síðasta þingi, að skatturinn var, að mig minnir, sexfaldaður. Sá, sem átti 6 þús. kr. eignir, borgaði áður eignarskatt af einu þúsundi, því, sem var fram yfir 5 þús., en eftir þeim lögum, sem nú gilda, þá borgar hann, ef hann á 6 þús., skatt af á þúsundunum líka, svo skatturinn er sexfaldaður. Ég hygg því, að það hafi ekki verið að ástæðulausu mælt, að þarna skyti nokkuð skökku við, þar sem núv. stjórnarfl. hefði ætlað að leggja skatt á þessa menn, en ætla nú með þessum lögum að gera ráðstafanir til þess að veita þeim opinberan styrk. Það var þetta ósamræmi, sem ég benti á. En sér til varnar talaði hv. frsm. meiri hl. um, að þetta ákvæði væri tekið upp úr dönskum lögum. En ég hygg það ekki sambærilegt. Ég hygg, að almenningur í Danmörku eigi að meðaltali hærri eignir heldur en almenningur hér á Íslandi, svo að sá, sem á 10 þús. kr. þar, sé almennt álitinn fátækari en sá, sem á 10 þús. kr. hér.

Þá taldi hv. frsm. meiri hl., að ekkert ósamræmi væri milli ákvæða 69. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að menn fái 3/5 af launum greidd úr atvinnuleysissjóði, og svo aftur ákvæði í 71. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að menn geti neitað að fara í atvinnu, sem býðst í öðru plássi, þar sem kaupgjald er lægra yfirleitt heldur en á þeim stað, sem þeir eiga heima. Ég hafði bent á það, að kauptaxtar væru mjög mismunandi. á hinum ýmsu stöðum, þar sem fastir kauptaxtar eru, svo að það getur munað allt að 2/5. Það getur verið, að það eigi að koma skýringar á þessu eins og fleiru, eða það eigi annað að liggja í þessum orðum en þar stendur. En mér skilst samkv. þessu orðalagi, að maður, sem á heima hér í Reykjavík og fær í nettókaup kr. 1.57 um tímann, geti neitað að fara í vinnu í því plássi, þar sem ekki er borgað nema 80—90 aurar á tímann. virðist mér þetta vera alleinkennilegt ákvæði, ef það á að skiljast svo, sem mér finnst liggja í orðalagi þessarar greinar. Það getur vel verið, að menn sjái sér hag í því að vera hér og gera ekki neitt, eða fá kannske einhverja hlaupavinnu, sem þeir þurfa kannske ekki að gefa upp, og fá fulla 80 aura í atvinnuleysisstyrk. Það skilst mér að menn muni fá, ef þeir eru búsettir hér í Reykjavík. Það virðist ekki vera heppileg leið að gera mönnum mögulegt að geta bjargað sér á opinberu fé með því að neita að taka vinnu, þó að hún sé borguð eftir almennu kaupgjaldi á einhverjum öðrum stað á landinu, hvort heldur það er til sveita eða við sjó. Hér eru að vísu þau ákvæði, að einhleypir menn eigi ekki að fá atvinnuleysisstyrk, ef þeir eiga kost á að fá venjulegt sveitakaupgjald, en kvæntur maður, þó að hann eigi ekkert barn og hafi engan ómaga að sjá fyrir, getur neitað að vinna, fái hann ekki fullan taxta, t. d. hér í Reykjavík. Ég er hræddur um, að mörgum sveitabóndanum blæði í augum, ef menn geta neitað að taka þeirri vinnu, sem almennt er boðin í sveitunum, aðeins af því, að þar er ekki goldinn verkalýðstaxti hér í höfuðstaðnum. Hv. frsm. meiri hl. talaði líka um það og harmaði mjög, að það væri kannske hægt eftir þessum lögum að þvinga einhvern einhleypan til þess að fara upp í sveit, og hann ætti þá engan styrk að fá, ef hann vildi ekki þiggja góða aðbúð í sveit með þeim kauptaxta, sem þar gilti. Honum fannst ráð mikill galli, ef menn yrðu að þiggja þá vinnu. En, ég verð að líta öðruvísi á, ég get ekki beint vorkennt einhleypum mönnum, þó að þeir verði að þiggja sæmilega vinnu við góða aðstöðu uppi í sveit og fái ekki atvinnuleysisstyrk hér fyrir að gera ekki neitt.

Hv. frsm. meiri hl. var að tala um það, sem ég hafði sagt um 72. gr. frv. Ég hafði skilið þá grein svo, að þessi 75 þús., sem þar er gert ráð fyrir sem hámarki á framlagi til atvinnuleysissjóða, náðu aðeins til ófaglærðra daglaunamanna og sjómanna. Það stendur svo í greininni, en hann vildi skilgreina það svo, að þetta ætti að skýrast allt öðruvísi en orðin segja. En ég fæ ekki skilið greinina, ef hún á ekki að skiljast eins og ég sagði. Sé það ekki, þá er ekkert hámark sett um það, hvað greiða skuli til annara atvinnuleysissjóða en þeirra, sem nefndir eru í 1. málsgr. 72. gr., þar sem átt er við ófaglærða daglaunamenn og sjómenn. Ég geri ráð fyrir, að aðrir flokkar manna stofni einnig atvinnuleysissjóði, og ég hygg jafnvel, að einn flokkur þessara manna, faglærðra iðnaðarmanna, hafi orðið fyrstur allra til þess að stofna atvinnuleysissjóð. Og það veit enginn, hversu mikil þau útgjöld gætu orðið úr ríkissjóði til slíkra sjóða, því að mér virðist ekkert hámarkstakmark sett fyrir því í 72. gr., því að hinu geri ég ekki ráð fyrir, að hv. frsm. meiri hl. haldi fram, eftir að hann hefir athugað orðalag gr. betur, að þetta 75 þús. kr. hámark eigi við aðra sjóði en þá, sem nefndir eru í 1. málsgr. En hitt er allt annað mál og kemur ekki við því, sem ég sagði, að það geti vel verið, að sá spádómur rætist - og þykir mér líklegt, að hann geri meira en rætast -, að þetta fari ekki fram úr 73 þús. kr. á næsta ári, því að það kemur líklega ekki til framkvæmda nema fyrir hálft árið. En það er allt annað mál. Ég átti við framtíðarskipulagið.

Hv. frsm. meiri hl. vildi halda því fram, að það væri engin ástæða til þess að setja nein viðurlög við svikum og undanbrögðum hvað snerti aðra kafla en kaflann um atvinnuleysistryggingarnar. En það er engin fjöður dregin yfir það í ritgerðum erlendra fræðimanna um tryggingalöggjöf, að það sé einmitt gallinn á þeirri löggjöf, svo góð sem hún annars er, að menn noti sér af því, að það megi knýja út ýmiskonar styrk án þess að bein ástæða sé til, jafnvel ganga lengra en löggjöfin ætlast til.

Því, sem hann sagði um orð mín víðvíkjandi II. kafla frv., get ég að mestu leyti leitt hjá mér að svara. Það má fá allt mögulegt út úr frv., ef lagður er sá skilningur í orðalag þess, eins og hv. þm. vill vera láta. Hann sagði, að bjargsig væri sama og bjargganga eða bjargferð. Ég skal ekki deila um þessa hluti, en ég hygg þó, að fáir mæli þá tungu. Og lög eru þó skýrð eftir málvenju, en tæplega eftir því, sem kann að vera hægt að leggja í orðin, en taka fram annað og meira en lagagreinin segir.

Þá fann hv. þm. að því, er ég sagði, að innanhússmálning væri ekki eins hættuleg og bjargsig. Ég er ekki á móti ákvæðinu um tryggingarskyldu þeirra, sem við þessi störf fást. En ég held mönnum verði ekki talin trú um, að innanhússmálning sé yfirleitt talin hættumeiri en bjargsig.

Þá talaði hv. þm. um, að það eigi að tryggja menn skipulagsbundið. En þetta er ekki svo í frv. Að vísu er ákvæði í 8. gr. frv., að maður, sem slasast eða bíður líftjón við björgun, eða tilraun til björgunar manns í lífsháska, skuli eiga rétt til slysabóta eftir sömu reglum sem slysatryggðir menn. Það er að vísu svo, að ég benti á, að í sumum slíkum tilfellum ætti ríkið að hlaupa undir bagga. En það er ekki tekið fram, hvernig eigi að greiða þessar bætur. Ég býst við, að gert sé ráð fyrir, að þeir, sem borga í sjóðinn, greiði. En ég veit ekki, hversu sanngjarnt er, að leggja á atvinnurekendur slysabætur handa mönnum, sem leggja sig fram af frjálsum vilja til þess að bjarga öðrum, t. d. þegar um íþróttamenn er að ræða. Ég sé ekki ástæðu til að leggja þetta gjald á atvinnurekendur eina saman, heldur hefði ég talið heppilegra, að ríkið hlypi hér undir bagga og þetta væri greitt af öllum, en ekki þessari stétt einni. En það er hvergi sjálfsagðara, að bætur komi til aðstandenda fyrir slys en þegar menn af fúsum vilja leggja fram líf sitt til að bjarga mannslífum annara.

Hv. þm. mun hafa talað um, eða gert aths. við orð mín, að ég teldi margt annað þyrfti fremur tryggingarákvæði um en það, að tryggja menn, þegar þeir fara að og frá vinnu sinni. Ég held, að það megi benda á fordæmi í dönskum lögum, að þar séu ekki ákvæði í þá átt.

Svo sé ég ekki í þessum kafla nein ákvæði um tryggingarskyldu atvinnurekenda, sem standa sjálfir í sjósóknum með hásetum sínum. Ég geri ráð fyrir, að þeir séu oft efnalega ekki betur staddir en hásetarnir sjálfir, og finnst mér ætti að vera ákvæði um slíkt. Jafnvel gæti komið til mála um atvinnurekendur við ýmsa landvinnu, að gera þeim að skyldu að tryggja sjálfa sig, því að margir þeirra eru ekki betur staddir en þeir, sem hjá þeim þiggja laun.

Ég efast ekki um, að hv. frsm. myndi hafa verið fús til samkomulags um breytingar í þessa átt í mörgum atriðum, ef ekki þyrfti að hraða málinu, svo að hvorki má gera aths. við það né lagfæra það. Það er kannske afsakanlegt, þó slíkt megi ekki, því að líf stj. liggur við.