17.12.1935
Efri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (2636)

131. mál, alþýðutryggingar

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Það er rétt hjá hv. þm., að það var samkomulag um það milli stjórnarflokkanna, að hámarkið væri hér 75000 kr. Það var ekki hærri upphæð í fjárl., sem varið skyldi til atvinnuleysissjóðsins yfirleitt. Og að því er til framkvæmda kemur, verður farið eftir þessu.

Ég hjó eftir einu atriði í ræðu hv. 1. þm. Skagf., sem ég svaraði ekki í fyrri ræðu minni. Ég ætla nú að drepa á það.

Hv. þm. taldi það rangnefni að nefna það ellitryggingar, sem menn eru látnir greiða, sem hafa yfir visst tekjuhámark og ekki hafa rétt til lífeyris, eftir að tekjur þeirra eru komnar yfir það. Ég get ekki verið hv. þm. sammála um það. Ég svara því sama og með slysatryggingarnar, að rétturinn er til handa öllum jafnt, sem tryggja sig, ef þeir búa við sömu kjör. Það veit enginn, þegar hann greiðir í sjóðinn, hvort efnahagur hans verður þannig eftir 50 ár, að hann fái þetta endurgreitt með lífeyri eða ekki. Þó að hann sé tekjumikill eitt árið, getur hann orðið tekjulítill síðar og fær þá að njóta greiðslunnar, eða eitthvað getur komið fyrir, að hann eigi rétt til hennar. Það er alstaðar svo, að tekið er tillit til efnahags manna og tekjumunar.

Þá fann hv. þm. frv. til foráttu, að með stofnun ellistyrktarsjóðsins væru menn frá 60—67 ára sviptir rétti til að fá ellistyrk. Þetta er að nokkru leyti rétt. En að því er snertir meðferð á ellistyrktarsjóðnum fæ ég ekki séð, að leiki nokkur vafi, því þar um eru glögg ákvæði, m. a. í 76. og 77. gr. frv., og gilda þau ákvæði þar til lífeyrissjóður greiðir 50% eða helming af fullum ellilaunum. Þá renna ellistyrktarsjóðirnir inn í lífeyrissjóðinn, og er þetta mjög skýrt tekið fram.

Hitt er rætt, sem hv. þm. sagði, að menn á aldrinum 60—67 ára fá ekki ellistyrk samkv. frv. þessu, nema þeir hafi tapað helming starfsorku sinnar og fái örorkubætur, og hygg ég, að þeir séu fáir, sem nú fá greiddan ellistyrk, og halda meira en helmingi starfsgetu sinnar. Auk þess vil ég benda á, að þessar greiðslur hafa verið svo lágar, að engan hefir munað neitt um sem nemur, þar sem ellistyrkurinn hefir verið frá 30—60 kr. á ári, eða jafnað sig upp með 45 kr. einu sinni á ári.

Það kann að vera, að hv. þm. hafi innt eftir einhverju fleiru, en því miður varð ég að víkja frá og heyrði því ekki alla ræðu hans, svo það hefir þá farið framhjá mér.