21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

40. mál, iðnaðarnám

Frsm. meiri hl. (Emil Jónason) [óyfirl.]:

Það er örlítil aths. - Hv. þm. Ak. sagði, að minni hl. hefði dregið að gera till. í málinu, þar til fyrir hefðu legið till. frá meisturum. (GÍ: Iðnaðarþinginu), því að ekki væri eins mikið tillit tekið til óska þeirra eins og iðnnema. Það er nú ekki nema að nokkru leyti rétt, að ekki hafi legið fyrir umsögn frá meisturum, því að áður en ég bar þetta frv. fram, bar ég það undir iðnráð Hafnarfjarðar, sem ég á sæti í. Þar eiga sæti 4 meistarar, en enginn sveinn. Ég bar það undir stjórn Landssambands iðnaðarmanna, en í þeirri stjórn eru 3 meistarar, en enginn sveinn. Þessir aðilar léðu frv. fylgi í höfuðatriðunum. Það er rétt hjá hv. þm., að málið var ekki borið undir iðnaðarþingið fyrr en þegar það var gert í sumar. Hann segir, að till. minni hl. séu þær till., sem hafi verið samþ. á því þingi, og er það rétt. En það vil ég þó, að komi skýrt fram, að þær áttu alls ekki óskiptu fylgi iðnaðarþingsins að fagna, heldur varð um þær talsvert hörð deila, og samþ. að ég ætla með aðeins 6 atkv. mun, en á þinginu sátu um 40 menn. Þegar þess er ennfremur gætt, að þarna voru næstum eingöngu meistarar, en því nær enginn sveinn, þá finnst mér það lítill meiri hl., sem meistarar hafa fengið fyrir þessum till. sínum. Sýnist þeim því ekki vera það neitt sérstakt áhugamál að koma þeim fram.

Hv. þm. segir, að sjálfsagt sé að taka tillit til sameiginlegra óska meistara og nemenda, og er það alveg rétt. Ég leitaðist líka við að fara bil beggja við samningu frv. T. d. komu til mín iðnnemar bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði og óskuðu eftir verulegum breyt. á frv. þeim til hagsbóta. Sömuleiðis hafa nokkrir meistarar tjáð mér, að þeir væru óánægðir með frv. frá sjónarmiði meistara, en í frv. er svo reynt að fara bil beggja, eins og líka hefir sýnt sig, þar sem þessar till. frá meisturum voru samþ. á iðnaðarþinginu með svo litlum atkv.mun sem ég gat um áðan.

Ég hefi nú borið mig saman við samnm. mína, og leyfa þeir mér að hafa það eftir sér, að þeir gætu fallist á 2. og 3. brtt. Þarf því ekki frekar um þær að ræða. En 1. brtt. vill færa vinnutímann úr 48 st. á viku og upp í 60 st., eins og það er í núgildandi löggjöf. Þó er sá munur, að í brtt. er tilskilið 1/2 st. kaffihlé tvisvar á dag, eða tilsvarandi stytting á vinnutímanum, en það er ekki tekið fram í frv., svo að mismunurinn er þá ekki nema 9 stundir á viku.

Ég vildi aðeins taka þetta fram til að sýna, að meðal meistara var ekki meiri eining um að koma þessu máli fram en ég hefi nú lýst.