28.10.1935
Neðri deild: 58. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (2670)

142. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Mál þetta er öllum hv. þdm. svo kunnugt, að ekki er ástæða til að hafa um það mörg orð nú. Hugmynd sú, sem liggur til grundvallar fyrir frv. þessu, er að sameina vinnu og nám hjá ungu fólki. Það er og þungamiðja frv. Úti um heim er þessi hugmynd farin að gera nokkuð vart við sig, og hefir sumstaðar verið tekin upp til framkvæmda. Ég býst nú víð, að enda þótt Íslendingar hafi verið seinir að átta sig á þessu máli, þá muni þess ekki langt að bíða, að þeir sjái, að það sé bæði heilbrigt og merkilegt mál, sem eigi líf fyrir hendi. Mál sem eigi eftir að verða til gagns fyrir þjóðfélagið. Sá maður, sem hefir undirbúið mál þetta og ber það mest fyrir brjósti, er sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu, Björgvin Vigfússon. Hann er kunnur að því að hafa barizt mjög mikið fyrir þessu máli og gert það að sínu lífsáhugamáli síðustu árin. Ég spái því, að það eigi eftir að halda uppi nafni hans, er fram líða stundir, meira en margt annað.

Sumir af þeim, sem nú flytja þetta frv., hafa gert það að skilyrði, að þeir hefðu óbundnar hendur um einstök atriði í frv., en hinsvegar eru þeir allir sammála um grundvallaratriði þess.

Ég vil svo að síðustu, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp lokasetninguna í grg. höfundarins, sem fylgdi þessu frv. á Alþingi 1933: „Ef þingmenn aðeins geta komið auga á kjarna málsins, og gert rækar úr huga sínum allar grýlur, ætti það að taka lítinn tíma fyrir þinginu að afgreiða frv. sem lög, og þingmennirnir ættu þegar að geta ráðið það við sig, hvort þeir vilja vera þekktir að því að synja þjóðinni þess framtíðar verkefnis, sem í frv. felst“.

Að svo mæltu vil ég mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn.