05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

142. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Frv. það, sem hér er til umr., hefir það til síns ágætis umfram annað frv., sem einnig er um skólamálefni og var rætt hér í hv. d. í gær, að hér þarf ekki að deila um faðernið, eins og ástæða var til um hitt. Það vita allir, að þetta er skilgetið frv. Björgvins Vigfússonar sýslumanns og hefir verið mikið áhugamál hans nú um langan aldur. (FJ: Er það ekki eingetið?). Það er skilgetið - hitt getur legið á milli hluta.

Það er óþarft, að ég tel, að fara mörgum orðum um þetta frv., af þeirri ástæðu, að frumkvöðull þess og hvatamaður hefir skýrt það svo vel og lengi fyrir hv. Alþingi, að þar þarf fáu einu við að bæta. Og ég geri ráð fyrir, að hv. dm. viti að öllu leyti og ótvírætt deili á þessu málefni eins og það liggur fyrir.

Það er það stóra nýmæli í þessu frv., sem Björgvin Vigfússon sýslum. stendur að, að hann vill útfæra hina gömlu reglu um, að menn skuli neyta síns brauðs í sveita síns andlitis, nokkru lengra og segja ennfremur og lögfesta á þessu sviði, að í sveita síns andlitis skuli menn einnig leita menningar sinnar og menntunar. Hann vill sem sagt, að réttindi og skyldur á þessu sviði fari sem næst því að svara hvort til annars.

Ég er þess vís, að þessi hugsun höfundar frv. er það góð, að margir þm. vilja ljá lið sitt til að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. En það kann að vera, að það finnist í frv. ýms atriði, sem mætti gagnrýna og betur mættu fara á annan veg en frvgr. segja til um. Enda orkar það ætíð tvímælis, hvort einstök atriði geta farið betur á annan hátt eða ekki, en það er stefnumið frv., sem er megin þess, og um það orkar eigi tvímælis.

Ég hygg, að þeir, sem aðhyllast þetta sjónarmið höfundar frv., telji hættuminna að samþ. það og lofa því að verða að lögum, vegna þess, að það eru reistar ýmsar ákveðnar hömlur í frvgr. sjálfum, sem taka af öll tvímæli um, að ekki verði rasað fyrir ráð fram um byggingu slíkra skóla, eða að ráðizt verði í byggingu þeirra fyrr en fjárhagur ríkis og önnur atvik segja til um.

Það er eins og frv. ber með sér, að það síast heima fyrir í sýslunefndum og leitar þar aukins meiri hl., og það verður ekki framkvæmt fyrr en fé er veitt til skólabygginga í fjárlögum og þar fram eftir götunum. Svo að ef hið háa Alþingi telur frv. hættulegt að þessu leyti, er það vantraust á Alþingi sjálft, þar sem því er einmitt fenginn ákvörðunarrétturinn um það, sem mestu skiptir, - hvenær byrja skuli á að reisa þessa skóla.

Ég get reynt að láta þessi fáu orð nægja af hálfu n., sem hefir litið yfir frv., en vil þó bæta einn við frá mér sérstaklega. Og það er það, að þó að menntamn. - og þá ég þar á meðal, sem starfa í n. og er einn af flm. frv. - vilji ljá þessu málefni liðsyrði og stuðla að því, að það nái fram að ganga á þessu þingi eins og það horfir nú við, þá vil ég ekki þar með segja, að þetta falli á hentugan hátt inn í skólakerfi þjóðarinnar. Ég vil fremur segja, að það geri hvorki að bæta eða spilla skólakerfinu eins og það liggur fyrir í heild, heldur er sanngirni þess á sviði „principsins“, sem vakir fyrir Björgvin Vigfússyni, sem gerir það að verkum, að frv. verðskuldar að ná fram að ganga. En þetta frv. og ýms önnur skólamál, sem hafa legið fyrir undanförnum þingum og liggja fyrir þessu þingi, eru sönnunargögn fyrir því, að skólakerfi landsmanna er að ýmsu leyti á ringulreið. Skólakerfi landsmanna vantar einmitt allra mála mest skipulagningu í þess orðs góðu merkingu. Þegar við lítum til þess, hvernig er ástatt um fræðslumál í sveitunum og hugsum til búnaðarskólanna og héraðsskólanna, einstakra sérskóla og ýmissa sérgreina, svo sem kennaramenntunar með tilliti til prestmenntunar, og fleira mætti telja, þá er skipulagsleysið og ringulreiðin svo mikil um þessi fræðslumál, að ómögulegt er, að líði á löngu áður en Alþingi sér nauðsyn til þess að hefjast handa og breyta einhverju þar til, ekki á kostnað nemendanna, heldur með tilliti til þess, að þeim verði það til hagsbóta. Og til þess að þeir viti og finni, að það sé að einhverju heilsteyptu og kerfisbundnu að hverfa til almennrar menntunar æskulýðnum yfirleitt, og í trausti þess, að breyting á þessu sviði geti jafnframt því, að menntunin verður öruggari, komið fram sparnaði fyrir ríkissjóðinn sjálfan.

Þó að þetta liggi fyrir utan þetta sérstaka frv. og ég telji það hvorki mæla með því eða móti, vildi ég samt, úr því að um skólamál er að ræða, slá þessu fram sem veigamiklu atriði.

Ég vil svo láta máli mínu lokið með þeirri till., að hv. d. þóknist að ljá frv. samþ. sitt, með tilliti til þeirrar göfugu hugsunar, sem á bak við frv. liggur frá hálfu þess manns, sem barizt hefir fyrir því og er þess valdandi, að það er komið hér inn á þing.