05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (2675)

142. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Bjarni Bjarnason:

Ég er, eins og nál. menntmn. ber með sér, einn í þeirra tölu, sem ekki ætla að bregða fæti fyrir þetta mál, en hefi þó komið með brtt. við tvö atriði.

Fyrri brtt. er þess efnis, að skólaskyldan komi ekki endilega niður á sama árið og skylduvinnan er unnin, heldur megi hlutaðeigandi nemandi velja um 4 næstu árin, ef honum þykir hentugra.

Hitt atriðið er, að niður falli orðin „í annari sýslu“ í 2. málsgr. 1. gr. Ef héraðsskóli og skylduvinnuskóli eru í sömu sýslu, virðist ekki eiga að leysa menn undan skylduvinnu, enda þótt þeir hafi lokið námi í þeim héraðsskóla. En aftur á móti ef héraðsskóli er ekki í sýslunni, sem skylduvinnuskólinn er í, á samkv. ákvæðum frv. að undanþiggja þá nemendur, er þar hafa stundað nám, þeirri skyldu að inna þessa vinnu af hendi.

Ég veit, að menn sjá þetta, ef þeir athuga það. En það er óréttlátt, ef héraðsskóli er í sýslunni, að leysa ekki einnig nemendur, er þar hafa lokið námi, undan þessari skyldu.