05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (2678)

142. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. forseti hefir fundið hjá sér hvöt til að tala um þetta mál og afgreiðslu þess á annan veg en hingað til hefir verið um það rætt á þessu þingi. Það er þá fyrst um ásakanir hans í garð okkar flm. að segja, að það er engin nýlunda og engin undantekning frá reglunni, að um frv., sem oft hefir legið fyrir Alþingi, sé vísað til grg., sem áður hefir verið lögð fram með frv., en ekki verið að prenta upp ár eftir ár sömu skjölin með sama málinu. Það skiptir engu máli, þótt nokkrar minni háttar breyt. hafi verið gerðar á málinn. Þær röksemdir, sem fram koma í hinum fyrri grg., gilda enn í dag. Ætti hæstv. forseti að telja það lofsvert, að ekki sé verið að prenta upp þessar röksemdir, sem allir hafa við hendina í þingtíðindunum, og auka þannig á óþarfa kostnað þinghaldsins. Þessar ákúrur í okkar garð hafa því ekki við nein rök að styðjast.

Þá hefir það oft komið fyrir, að menn hafi fylgzt að um flutning máls, þó að nokkrir flm. hafi áskilið sér rétt til að vera með breytingum, ef svo vildi verkast. Annars býst ég við, að óþarfi sé, að ég sé að svara f. h. n. Það getur hún eflaust sjálf.

Þá fullyrðir hæstv. forseti, að hann sé sannfærður um, að þó að frv. yrði að l., þá myndi það ekki koma til framkvæmda í héruðum. Unga fólkið myndi leggjast á móti málinu. Það er til lítils að fara að deila við hann um þetta, og sleppi ég því.

Þá kallaði hann það ókosti á frv., að það skerti frelsi fólksins. Nú ber þess að gæta, að hér er aðeins um heimildarl. að ræða. Ég þykist vita, að hann vilji láta telja sig með þeim mönnum. er hylla vilja lýðræði fólksins, og hér er það lagt í vald fólksins sjálfs, hvort það vill ganga þessa braut eða ekki, hvort það vill leggja á sig þá kvöð, sem hér um ræðir, til þess að geta fengið ókeypis kennslu á öðrum tíma ársins eða seinna. Ég get ekki séð, þegar málinu er haldið á þessum grundvelli, að meiri hluti kjósenda eigi að skera úr um það, að þá sé á nokkurn hátt verið að skerða lýðræðið.

Þá var það ein aðfinnsla hans, að hér væri gert upp á milli pilta og stúlkna, þar sem frv. ákvæði að stiga ekki þetta spor að því er stúlkur snertir, fyrr en fyrirkomulagið hefði verið prófað. Þetta finnst mér sízt ókostur á frv. hér er gætt fyllsta hófs. Þó að þeir, sem að frv. standa, séu sannfærðir um, að málið sé til bóta, vilja þeir samt ekki í neinu rasa um ráð fram. Tilkostnaðurinn einn réttlætir þetta líka fullkomlega. Ef málið gæfist illa og þjóðin vildi ekki hafa það, væri illt að hafa lagt í mjög mikinn tilkostnað.

Það er ekki aðeins hér, að þessi hugmynd hefir stungið upp höfðinu, að sameina á þennan hátt vinnu og nám. Þetta fyrirkomulag hefir verið reynt í öðrum löndum, og þó að reynslan sé enn ekki löng, þá held ég ekki, að hún hafi sýnt, að þetta sé stórgallað fyrirkomulag.

Ég er sannfærður um, að þótt hæstv. forseti hafi farið hörðum orðum um frv., þá muni hann sjá við nánari athugun, að orð hans hafa ekki við rök að styðjast. Þykist ég vita, að svo mætur maður sem hann er muni viðurkenna grundvallarhugsjón þá, sem frv., byggist á, að sameina þarfir sýslnanna fyrir ýmiskonar vinnu og þarfir unglinganna fyrir menntun. Það verður enginn unglingur minni maður, þótt hann leggi nokkuð í sölurnar fyrir þau gæði, er honum falla í skaut. Meðal þessara gæða er námið, bóklegt og verklegt, sem er eitt af því bezta, sem unglingum verður í té látið. Og það minnkar ekki manndóminn, þó að þeir hafi sjálfir orðið eitthvað til að vinna að öðlast þetta hnoss. Ég efast ekki um, að hæstv. forseti er mér samdóma í því, að þetta er rétt hugsað. Mennirnir vaxa ekki við það, að allt sé lagt upp í hendurnar á þeim. Þeir þroskast á því að glíma við verkefnin. því er það, að grundvallarhugsjón frv. mun snerta strengi í hjörtum margra landsmanna, sem óska þess, að heilbrigt þjóðlíf þroskist í landinu.

Ég skal ekki skipta mér af því, hvort hæstv. forseti hefir átt þátt í brtt. hv. 2. þm. Árn. eða ekki. Þær gætu verið jafnréttmætar, hvort sem væri. Ég vil aðeins skjóta því til hv. d., að ég vona, að hún taki ekki undir þann þunga áfellisdóm, sem hæstv. forseti kvað upp yfir frv., í óákveðnum orðum þó, heldur lofi því að fara gegnum þingið í þeim búningi, sem það hefir nú, eða lífið breytt.