05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (2679)

142. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Sigurður Einarsson:

Ég skal ekki eyða miklum tíma í efni frv. Ég hefi ekki að svo stöddu hagnýtt mér þann rétt, sem ég hefi áskilið mér til að bera fram brtt. við það. Ég get ekki sagt, að ég geri mér miklar vonir um endurbætur í skólamálum þjóðarinnar, byggðar á þessu frv., en ég get ekki heldur séð, að það sé eins háskalegt og skilja mátti af orðum hv. 1. þm. Árn. ég tel það ekki heldur neina ónærgætni gagnvart honum eða öðrum hv. þm., þó að brtt. komu fram við 3. umr. frá okkur nm. Ég veit ekki til, að nokkur þingsköp banni það.

En ég stend hér upp vegna orða hæstv. forseta í garð menntmn. Ég varð hissa, þegar ég heyrði hann hella sér yfir nm. með jafnsvæsnum áfellisdómi og raun bar vitni um. Auðvitað er honum velkomið að halda refsiræður, ef tilefni er til, en í þetta skipti hafði ekkert tilefni verið gefið. Hann benti á, að nál. væri stutt. Ef það er aðalhneykslunarhellan, þá er það sönnun þess, að hann hefir ekki athugað frv. nógu vel. En nál. var líka ódýrt. Ef til vill hefir það hneykslað hæstv. forseta.

Hæstv. forseti talaði um fáheyrða óeinlægni, sem fram hefði komið í flutningi þessa máls. ég veit að vísu ekki, hvað vakir fyrir hv. flm. frv. En ég get sagt að því er til mín kemur, að þetta eru ekki annað en stóryrði, sem ekki hafa við nein rök að styðjast. Ég veit ekki, hvort hv. 1. þm. Árn. þarf öðruhverju að grípa til ákveðinna ráðstafana til að sýna kjósendum, að hann sé dyggari þm. en aðrir. En þessi ræða hans gæti gefið ástæðu til að ætla slíkt.

Ég álít, að n. eigi engin ónot skilið fyrir afskipti sín af þessu máli. Ég hefi ekki setið á þingi mjög lengi, en þó nógu lengi til þess, að ég hefi séð alvarlegri óeinlægni vera viðhafða í ýmsum málum, og hv. I. þm. Árn. hefir þagað.