05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (2682)

40. mál, iðnaðarnám

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja til muna þessar umr. Þar sem ég er einn þeirra þm., er gerzt hafa flm. þessa frv., verð ég að segja það, að mér finnst ekki fyllilega réttmæt þau ummæli, sem fallið hafa hér í deildinni í dag um flm. þessa frv.

Það er svo, eins og allir vita, að ekkert mál verður tekið til umr. á Alþingi, nema það sé flutt af einhverjum þm. Ég lít svo á, að ef einhver utanþingsmaður ber mál fyrir brjósti, geti verið réttmætt, að þm. gerist til að flytja ráð inn í Alþ. og gefi á þann hátt þm. kost á að kynna sér málið og taka afstöðu til þess. Út frá þessu sjónarmiði er það ekki rétt að deila á þm., þó þeir flytji frv., sem þeir eru ekki alveg samþykkir út í yztu æsar og vilja hafa óbundnar hendur um, en ég get sagt fyrir mig, að ég tel, að í þessu frv. sé margt, sem sé þess vert, að koma fram.

Þá er það og heldur ekkert einsdæmi, þó að flm. frv. hafi eða áskilji sér í grg. óbundnar hendur um afstöðu til einstakra atriða, og er því algerlega óþarft að hneykslast á því, þó þetta sé áskilið í grg. þessa frv. Vil ég í því sambandi benda hæstv. forseta á, að í n. þeirri, er ég átti sæti í á þingi í fyrra, kom mál, sem n. var beðin að flytja, og hún flutti það með samskonar áskildum rétti í grg. sem við þetta frv.

Ég get tekið undir það með hæstv. forseta, að afgreiðsla þessa frv. hjá hv. menntamn. er allt of losaraleg; það er skylda þingnefnda að gera málunum sæmileg skil, enda betra, ef brtt. koma fram og klofningur verður í nefnd, að það sé þegar ljóst við 2. umr. málsins.

Ég skal ekki fara sérstaklega út í að ræða einstök atriði frv., en ég hefi í hyggju, í samræmi við yfirlýsta afstöðu mína, að flytja brtt. við frv. fyrir 3. umr. Þó vil ég andmæla því, sem komið hefir fram hér í d., að um þvingun sé að ræða. Ég get ekki sagt, að það sé mikil þvingun, þó unglingar eigi að vinna 7 vikur fyrir 6 mán. skóladvöl. Miklu fremur álít ég, að hér sé um of stuttan tíma að ræða, og mun ég m. a. flytja brtt. um að lengja þennan tíma.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en eins og öllum er kunnugt, er mál þetta aðallega upprunnið í einu héraði, nfl. Rangárvallasýslu, og ef ég man rétt, fór fram í því héraði atkvgr. um ýmiskonar skólafyrirkomulag, og ef rétt er munað, var þar á meðal vinnuskólahugmynd sú, sem liggur til grundvallar þessu frv., og var allmikill hópur manna, sem greiddi því atkv. Af því að uppruni þessa máls er úr þessu héraði, hefði ég vænzt þess, að heyra eitthvað frá hv. þm. Rang., sem sæti á í þessari hv. deild, um sögulegan uppruna þessa máls, er gæti orðið til nokkurra leiðbeininga um afgreiðslu málsins, og vildi ég mega vænta þess, að hv. þm. taki því til máls áður en þessari umr. lýkur.