05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (2683)

40. mál, iðnaðarnám

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég álít, að það hafi ekki verið að ófyrirsynju, að hv. 1. þm. Árn. hreyfði andmælum gegn málinu og skýrði frá flutningi þess hér í þinginu, því að mér er óhætt að fullyrða, að aldrei hefir orðið vart við minnsta snefil af áhuga fyrir málinu sjálfu hjá þeim, sem að því hafa staðið, og þótt hv. 6. flm. þess hafi verið að reyna að mæla þessu bót, þá var kunnugleiki hans á málinu ekki upp á sex, því að hann sagði, að þessi þegnskylduvinna nemandanna ætti að vera greiðsla á skólavist manna við skólann. Þetta er ekki ætlunin með frv., en hv. þm. stendur í þeirri meiningu og mun ætla að koma með brtt. í því efni. Það er ekki ætlunin með þessu frv., að vinnan gangi til greiðslu á öðru en húsvist og kennslu, en það er nokkuð annað en skólakostnaður nemendanna. Ég get ekki fallizt á, að þm. eigi að vera að taka upp mál hér á þinginu, sem þeir hafa ekki sannfæringu um, að eigi að ná fram að ganga. Hvaða þýðingu hefir slíkt fyrir þingið? Slíkir starfshættir eru vissulega ósamboðnir þinginu. Það má náttúrlega segja um þetta frv., að það muni ekki verða til mikils ógagns, vegna þess að það verði ekki notað. Ég vil benda á það, að í 1. gr. frv. er verið að reyna að gera tilraun til þess að láta þessa þegnskylduvinnu ekki koma óréttilega niður á ýmsum unglingum á þessum aldri, og eru undanskildir þeir menn, sem stundað hafa nám í gagnfræða- eða menntaskólum. En á þessum aldri eru menn t. d. að fara í búnaðarskóla, og þeir, sem þangað fara, eru ekki undanskildir frá þessari þegnskylduvinnu. Nemendurnir, sem kosta sig á búnaðarskóla, verða um leið að vinna þegnskylduvinnu og eiga svo að fá 6 mánaða ókeypis skólavist, sem litlar líkur eru til, að þeir þurfi á að halda. Þetta er galli á frv., sem ber vott um fljótfærni. Annars má segja, að það sé ekkert auðhlaupið að koma þessu öllu á laggirnar. Fyrst þarf að fá meiri hl. sýslunefndar eða bæjarstjórnar. En „það er ekki sopið kálið, þó í ausuna sé komið“, því að málið þarf að gang til atkvgr. hjá öllum kosningabærum mönnum í sýslunni eða bænum; en ekki nóg með það, - það nægir sem sé ekki, að meiri hl. þeirra, sem kjósa mega, fáist, og ekki heldur að það fáist 2/3 af þeim, sem greiða atkv. málinu í vil, og það er meira að segja ekki nóg, þó að hver einasti maður, sem atkv. greiðir, vilji, að málið nái fram að ganga. Það þarf a. m. k. að fást fylgi 2/3 af öllum þeim, sem á kjörskrá eru, til þess að málið nái fram að ganga. Og sagan er ekki öll sögð enn, því að til þess að hægt sé að byrja á þessari skólabyggingu, þarf að vera fjárveiting fyrir hendi í fjárl., og þó það gengi fyrir sig í héruðunum, þá er hreint ekki þar með tryggt, að skólabygging yrði reist á kostnað ríkisins. Það er óhætt að segja, að ekki sé ein báran stök um framkvæmd þessa máls. En þetta er sniðuglega útbúið, og til þess gert, að málið næði alls ekki fram að ganga, hvernig svo sem að því væri unnið. Ég skal ekki átelja hv. menntmn. sérstaklega fyrir meðferðina á málinn frekar en flm. sjálfa. Þeir hafa ekki lagt það ómak á sig að reyna að lagfæra frv., ekki einu sinni í samræmi við till. hv. 2. þm. Árn., sem er þó ekki neitt sérlega flókin. Ég trúi ekki öðru en að þeir hefðu getað komið sér saman um slíkt samræmi. N. hefði átt að geta gert slíkt, ef hún hefði sinnt málinu, en það hefir hún ekki gert. Ég efast um, að á nefndarfundi hafi nokkurn tíma verið minnzt á þessi tvo örlitlu atriði. Það er óvenjulegt, að flm. frv. séu skyldugir til þess að tilkynna sérstaklega, að þeir séu óbundnir um einstök atriði þess máls, sem þeir flytja. vitanlega geta flm. mála alltaf fallizt á breyt. á frv. sínum, þegar þeim er bent á, að eitthvað geti á annan hátt betur farið en þeir gerðu sjálfir ráð fyrir í frv., en að það sé fyrirfram ákveðið, að það gæti verið öðruvísi og betur farið og menn láti málið samt frá sér fara, það kalla ég óforsvaranlegt hirðuleysi í flutningi mála.

Ég mun nú ekki fjölyrða öllu meir um þetta, en ég verð að játa, að ég lít sömu augum á þetta mál og áður. Mér finnst það alls ekki þess vert, að rétt sé að láta það tefja störf þingsins meðan mörg önnur verkefni bíða úrlausnar, sem áreiðanlega eru miklu meira aðkallandi en þetta mál.