05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

40. mál, iðnaðarnám

Bjarni Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég hafði hugsað mér að leiða hjá mér umr. að þessu sinni. Það er kunnugt, að hv. frsm. hefir gert því svo góð skil, að ég hefi þar engu við að bæta, en ég get ekki látið vera að undrast þær umr., sem hér hafa farið fram. Það er kunnugt, að þingsköp ætlast ekki til, að 2. umr. um frv. snúist um málið almennt, heldur um einstakar gr. þess. En nú bregður svo út af þessari reglu, að sjálfur hæstv. forseti ríður á vaðið og ræðir um málið almennt, og það er nú svo, að sjaldan þarf nema einn gikk í hverri veiðistöð, ef svo mætti að orði komast, en síðan standa hv. þm. á fætur hver af öðrum og vaða elginn fram og aftur, ekki einasta um þetta frv., heldur og um önnur mál. Úr því ég stóð á fætur, get ég ekki stillt mig um að benda á það, hvernig rök andstæðinga frv. stangast. Þetta er af þeim talið mesta skaðsemismál, en þó segir hv. þm. V.-Húnv., að það komi aldrei til framkvæmda, þó frv. yrði að l. (HannJ: Ég hefi aldrei talið þetta skaðsemdarmál). Ég get ekki séð, að málið geti verið afarháskalegt, ef það verður aldrei framkvæmt.

Þá er það annað, að hæstv. forseti taldi það afarháskalegt, að tveir þriðju héraðsbúa ættu að geta ákveðið það gegn einum þriðja hluta, að l. skuli koma til framkvæmda í héraðinu. Ég skil ekkert í þeim manni, sem daglega sér fram á það, að mál eru hér í þinginu samþ. með eins atkv. mun, og það eru l., sem öll þjóðin á að beggja sig undir. Ég sé ekki, hvernig hann fer að telja það þvingun, að tveir þriðju hlutaðeigenda fái hér að ráða, og hvaða hætta á að vera í því fólgin.

Þá eru það þær árásir, sem gerðar hafa verið á okkur flm. fyrir það, að við höfum engan áhuga fyrir málinu, okkur sé engin alvara með það, heldur sé öll okkar framkoma fals eitt. Ég vildi bara spyrja þessa menn, hvaða vald þeir hafa til þess að koma með slíkar fullyrðingar. Mér er ekki kunnugt um, að þeir séu gæddir þeim hæfileikum að geta rannsakað hjörtu og nýru, geta lesið í hug manna. Slíkar fullyrðingar hljóta að falla um sjálfar sig. Hefðu þeir þessa hæfileika, þá þyrfti hæstv. forseti ekki annað en að hvessa augun fram í deildina til þess að ganga úr skugga um, hverjum væri alvara í því og því máli, og ef hann væri ekki alveg viss í sinni sök, þá gæti hann leitað til hv. þm. V.-Húnv. Nei, slíkar fullyrðingar ganga ekki í neinn, þær eru engin rök. Ég hefi frá því fyrsta séð, að málið er gott mál, og þó ég hafi e. t. v. ekki sýnt þann áhuga fyrir því, sem hefði átt að vera með því að berjast fyrir því, þá tel ég mig hafa fulla heimild til þess að stuðla að því, að þau héruð, sem mundu vilja nota þá heimild, sem frv. gerir ráð fyrir, fengju rétt til þess.