12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (2693)

40. mál, iðnaðarnám

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Menntmn. hefir athugað brtt. þær, sem fram hafa komið við frv., og jafnframt því hefir hún sjálf gert lítilsháttar breytingar á þskj. 526.

Er þá fyrst að geta þeirra atriða, sem hafa orðið að ágreiningslausu samkomulagi innan n. Eru þær breyt. smávægilegar og báðar við 1. gr. frv. Eru þær nokkurskonar miðlunartill. milli frv. og þeirra brtt., sem komnar voru áður frá einstökum dm. Er þá fyrst að geta þess, að í fyrstu málsgr. 1. gr. í stað orðanna „næsta vetur“ komi: annanhvorn næsta tveggja vetra. —Eins og kunnugt er, var komin fram brtt. frá hv. 2. þm. Árn. um, að rýmka skyldi þennan skólarétt, að hann skyldi notaður á einhverjum næstu 4 árum, í stað þess, sem stendur í frv., að hann skuli notaður veturinn eftir að skylduvinnan er innt af hendi. Hér vildi menntmn. fara bil beggja. Henni þótti það annarsvegar of þröngt að einskorða það við næsta vetur, en hinsvegar óþarflega langdrægt, að þessi réttur skyldi notaður innan fjögra vetra.

Önnur smávægileg breyt. er, að 2. málsgr. 1. gr. frv. skuli orðast þannig:

„Þó skulu undanþegnir skylduvinnu allir þeir, er innan 18 ára aldurs hafa stundað a. m. k. eins vetrar nám við annan skóla en barnaskóla“.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, gerir sjálf frvgr. ráð fyrir því, að þeir séu undanþegnir skylduvinnu, sem hafa stundað nám í héraðskóla í annari sýslu, í menntaskóla eða gagnfræðaskóla. Þetta þykir of þröngt takmark, og ætti kannske ekki við á þeim tíma, sem lögin koma til framkvæmda. En hinsvegar þykir sú upptalning, sem á sér stað í brtt. hv. 2. þm. N.-M. á þskj. 487, einnig takmarka þetta á óeðlilegan hátt. Það þykir sanngjarnt að líta það sem opnast, hverskonar skólavist önnur en í barnaskólum skuli veita undanþágu frá þessari skylduvinnu. því að ef átti að tilgreina skólana og einskorða við einhverja vissa skóla, sem veittu undanþágu frá vinnuskyldunni, þá veit maður ekki, hvort hægt er að tilgreina takmarkið á þessu stigi málsins, því að ef dregst langt fram í tímann, að þessi heimild verði framkvæmd, er óséð, hvernig skólafyrirkomulagið verður þá. Þessvegna er engin ástæða til að vera að nefna sérstaka skóla, heldur yfirleitt, að skólavist önnur en í barnaskólum veiti undanþágu frá þessari skylduvinnu, ef menn stunda þar nám innan 18 ára aldurs.

Þetta eru að vísu ekki nema smávægilegar breyt., og menntmn. hefir orðið ásátt og einhuga um þær og væntir, að þær séu til bóta og nái samþykki hv. d.

Þá er að minnast með fáum orðum á brtt. einstakra hv. þdm. Ég var búinn að geta um fyrri lið brtt. hv-. 2. þm. Árn. á þskj. 465, og það varð að samkomulagi innan menntmn., að hún yrði færð í það horf, sem ég hefi þegar getið um, á hvaða tíma eigi að inna þessa vinnu af hendi. Og b-liður brtt. á sama þskj. fellur að sjálfsögðu í burt með brtt. n.

Þá er að segja um afstöðu n. til brtt. á þskj. 487, frá hv. 2. þm. N.-M. Í fyrri brtt. hans, við 1. gr. frv., fer hann fram á að lengja vinnuskyldutímann og breyta nokkuð um, á hvaða tíma skuli unnið. Hann vill láta vinna 10 vikur að vor- og sumarlagi í staðinn fyrir að frv. gerir ráð fyrir 7 vikna vinnu að vorlagi. Vildi n. ekki fallast á þessa brtt. Þykir það eðlilegra og sanngjarnara, eins og stendur í frv., að tíminn sé ekki lengri en 7 vikur og vinnan látin fara fram að vorlagi, en ekki um hábjargræðistímann. - Um 2. lið brtt. við 1. gr. frv. frá sama hv. þm. er ég búinn að tala í sambandi við brtt. n. um það, hvaða skólavist nægi til þess að veita undanþágu frá skylduvinnu. Þá er það loks brtt. á sama þskj. við 3. gr. frv., þar sem hv. þm. vill, að í stað þess, að í frv. er gert ráð fyrir, að 2/3 atkvæðisbærra manna þurfi til þess að samþ. að stofna slíkan skóla komi 4/5 - N. varð einnig ásátt um að mæla á móti þessari brtt., því að henni þykir sæmilega í hóf stillt að takmarka þessa heimild við, að 2/3 samþ. hana.

Þá er að geta um brtt. á þskj. 502, frá hv. þm. N.-Þ. og hv. 9. landsk. Þær snerta mest sjálft efni frv., og verð ég því sér á parti að geta um afstöðu n. til þeirra.

Till.menn vilja, að 1. gr. frv. sé orðuð um, og kemur þar fyrst og fremst til greina sú breyt., að þeir vilja lengja vinnuskyldutímann upp í 4 mánuði að sumarlagi. N. sá sér ekki fært að mæla með þessari brtt., og hefi ég áður getið um ástæðuna.

Þá er það 2. málsgr. við sömu lagagr., sem n. hefir aftur á móti mælt með og tekið þá málsgr. nokkurnveginn orðrétta upp í sína brtt., sem er b-liður í brtt. n. sjálfrar, og þykir sú breyt. sanngjörn, að þeir, sem hafa stundað nám í öðrum skólum en barnaskólum, skuli undanþegnir þessari skylduvinnu.

Þá er sérstaklega að geta um 3. og 3. brtt. á nefndu þskj. frá þessum hv. þdm. Það eru einmitt verulegustu brtt., sem hafa komið fram í þessu máli og skipta ærið miklu. Meginatriðið er, að þeir vilja, að ríkissjóður greiði ekki nema helming stofnkostnaðar slíkra skóla. Eins og frv. ber með sér, er gert ráð fyrir, að stofnkostnaður allur greiðist úr ríkissjóði. Þetta er því veruleg breyting. Meiri hl. menntmn. fellst á þessa breyt., en a. m. k. einn nm. þ. e. a. s. ég treysti mér ekki til að ljá henni samþykki mitt. Ég álít, að eins og sakir standa nú, mæli engin sanngirni með því og ekki rétt að ákveða möguleika til svona skólabygginga með svona þungu stofnfjárframlagi af hálfu héraðanna. Það má að vísu spyrja sem svo, hvort fremur sé ástæða til að ákveða heimild til slíkrar skólastofnunar með þeim mun þyngri stofnkostnaði af hálfu ríkissjóðs.

Er ekki óeðlilegt, að svona sé spurt. Þó horfir þarna ólíkt við. Svo sem högum sýslu- og bæjarfélaga er háttað, er ófært, að Alþingi fari að semja heildarl., sem leggi þeim á herðar aukinn kostnað. Ég segi fyrir mitt leyti, en ekki n., að á meðan þeim er ekki séð fyrir auknum gjaldstofnum, þykist ég hafa sterk rök fyrir þeirri afstöðu, sem ég hefi tekið. Öðru máli gegnir um ríkið, því að þó að það hafi ekki úr miklu að spila, þá er þó meira svigrúm þar, og Alþingi getur þá líka alltaf sagt: Hingað, og ekki lengra, fjárhagurinn leyfir það ekki, og verða þá ekki slíkir skólar stofnaðir, nema hægt sé.

Ég treysti hv. d. til að samþ. þá gr., að þessir skólar skuli stofnaðir af ríkinu. ég greiði því atkv. gegn þeim brtt., sem ég hefi verið að lýsa og meiri hl. n. tjáði fylgi sitt.

Ég verð svo að lokum að lýsa því sem minni skoðun, og ég hygg það muni vera skoðun n.-manna yfirleitt, að frv. þetta ber einungis að skoða sem umgjörð um framtíðarskipulag, sem á rétt á sér. Meginhugsun höfundarins er góð og siðferðisleg, og Alþingi ber að veita hugmynd hans stuðning sinn. - Ég get þar með lokið máli mínu, ég vona fyrir fullt og allt, en verð þó að áskilja mér rétt til að taka til máls, ef brtt. um stofnkostnaðinn sætir miklum andmælum.